Home sweet home.....

Mömmur á lokakvöldiPistlahöfundar að störfumÁ sunnudegi er maður þokkalega búin að ná sér eftir langt og strangt ferðalag með svefnleysi og tilbehör. Ekki laust við að maður sé strax farin að sakna veðurblíðunnar og blóta regninu og rokinu hér í Kópavoginum. Annars er nú reyndar alltaf best í heimi að koma aftur heim - ekki satt? Auk þess sem við mæðgur getum glaðst yfir því að geta mögulega skipt um föt á morgun því farangurinn okkar er vís væntanlegur heim í kvöld. Reyndar vantaði líka töskurnar þeirra Davíðs og Tinnu en ég get svo sem alveg skilið að farangurinn hafi orðið eftir í París. Ég meina ef ég hefði ekki verið spennt að komast heim þá hefði ég líka skrópað í farangursrýmið og skellt mér í ljúffengan kvöldverð hátt upp í Eiffell turninum og notið helgarinnar í París. En við vorum skynsöm og komumst heim - eða rétt svo Sideways. Það fór líka ágætlega um okkur þessa síðustu flugferð enda góð þjónusta hjá Icelandair.

Tinna, Jóhanna og Hallgerður með ís....Ég var að skoða síðustu myndirnar sem voru teknar í Svartfjallasveitinni og fann margar skemmtilegar, t.d. úr síðasta ísröltinu okkar og frá skákstað þegar lokaumferðin var í gangi. Svo var ljóst að Jóhanna hafði gengið hring um húsið í kveðjuskyni og tekið fullt af myndum.

Sverrir í spilastuði...Og þar sem ég náði ekki að kveðja nema örfáa úr hópnum í Leifsstöð þá langar mig að þakka ykkur öllum fyrir samveruna og frábæran félagsskap. Það sem byrjaði í hryllingi - hótel hell - endaði í yndislegu og heimilislegu umhverfi þar sem öllum virtist líða afar vel. Það myndaðist frábær hópstemmning sem sennilega átti þó rætur sínar að rekja til góðs hópeflis fyrir ferðina og entist allan tíman. Ég verð þó að viðurkenna að það var býsna erfitt að mæta aftur í ræktina í gærmorgun eftir allar þessar matmiklu máltíðir og ísferðirnar góðu en er ekki lífið til þess að lifa því?

Þið stóðuð ykkur frábærlega og erum við Jóhanna strax farnar að hlakka til næstu ferðar.

Að lokum viljum við öll þakka þeim sem fylgdust með okkur úti og sendu okkur baráttukveðjur. Þúsund þakkir fyrir stuðninginn og allar góðu hugboðin sem þið senduð okkurWink

Knús og kossar til ykkar allra
Edda


Að morgni lokadags!

Davíð að senda inn pistilJæja nú er komið að síðustu umferð. Íbúar í Villu Sava Kizova vöknuðu býsna snemma í morgun og hófu undirbúning. Því miður voru aldursforsetarnir í krakkahópnum svo óheppnir að parast saman í síðustu umferð og því ákváðu þeir Sverrir og Daði að stúdera sjálfir svo hinir krakkarnir fengu rýmri tíma hjá þjálfurunum í morgun. Þó aðeins 35 mínútur á mann enda þurfti að fara í mat kl. 11:00 þar sem rútan fór frá hótelinu um kl.12. Í matinn á Hótel Plaza í dag var afar sérstakur réttur. Hugsanlega hefur verið um stafsetningarvillu að ræða (því það hefur jú gerst hér í sveitinni) en áhugaverðasti rétturinn hét Grilled Carls liver og því deginum ljósara að þarna var á ferðinni lifur úr lókal bónda sem hefur trúlega fengið sér aðeins of mikið af vodkanu. Ýmsar spurningar vöknuðu um dánarmein hans en miðað við lyktina er líklegt að um skorpulifur hafi verið að ræða og Carl sjálfur gefið upp öndina sökum alkahólisma. Ég tek það skýrt fram að enginn úr hópnum gæddi sér á þessum rétt! En úrvalið var með daprara móti í dag og flestir enduðu því með spaghetti og tómatsósu. Ekki besta fæðið fyrir langar skákir en krakkarnir eru nú öll búin að læra það að nesti er mikilvægt inn í skáksalinn. 

Fararstjórinn að ljúka við íslensku lopapeysunaVið foreldrar og þjálfarar sitjum hér fyrir utan skákhöllina og erum einmitt að ræða um hve bjartsýn við erum fyrir þessa umferð. Krakkarnir eru í góðu jafnvægi, aðeins spennt og smá stress en eru samt glöð og kát og jákvæð.

Framundan er löng og ströng nótt á ferðalagi en við eigum víst að vera komin á hótel Plaza kl. 4:30 í nótt. Eitthvað nefndi ég það við mótshaldara að það væri nú ekki alveg ásættanlegt að 17 manns beri farangurinn sinn 500m leið eftir myrkri götu að næturlagi og svaraði hún því að rútubílstjórinn teldi sig ekki geta komið við hjá okkur því þá þarf hann að keyra (ca 1km ) krók því allar götur eru einstefnugötur. As if we care!!! Ég sagði að hún yrði að leysa þetta mál og láta okkur svo vita! Reyndar efast ég ekki um að hún leysi þetta á farsælan hátt eins og allt annað sem upp hefur komið. Nú flugið frá Dubrovnik í Króatíu er kl. 6:25 og millilendum við í Zagreb áður en við finnum Icelandairvélina okkar sem kemur okkur á leiðarenda. Heim í heiðarkotið í faðm fjölskyldunnar.

Annars stefnum við á það að fara út að borða í kvöld á góðum stað og njóta síðustu klukkustundanna hér í Herceg Novi. Frábær veitingastaður við ströndina og horfa út á Adríahafið meðan við njótum yndislegra steika og meðlætis - jummý jummý jummý.

Nú eru aðeins þrjár mínútur þar til 9. umferð hefst og reyni ég að koma áleiðis niðurstöðum eftir því sem þær berast og meðan netsamband næst.

UPDATE UPDATE!

Nú hafa þrír íslendingar komið út úr skákhöllinni. Sverrir og Daði náðu báðir að knýja fram jafntefli hjá sínum andstæðingum á nákvæmlega sama tíma! Jóhanna Björg kom líka út með jafntefli eftir að andstæðingur hennar var byrjaður að þráskáka en það er í þriðja sinn sem hún lendir í því á mótinu. Og meðan þetta er skrifað kom Hallgerður út með jafntefli. Sumsé fjórir út og tveir vinningar!


Hann á afmæli í dag....

Patrekur afmælisbarn með tvö tattúAð morgni áttundu og næst síðustu umferðar vaknaði Patrekur árinu eldri, fullskeggjaður með bassarödd og hljóp niður á strönd og fékk sér tattú. Eins og flesta morgna hér í sveitinni fengu menn sér hvítt brauð með skinku og aðra sneið með Nutella og naut Patti þess enn betur en áður. Ekki hefur enn verið sungið fyrir drenginn en ég er viss um að við munum taka lagið í kvöld þegar sigrarnir fara að týnast í hús. Annars var gærdagurinn ekki eins góður og við vonuðumst til en það náðust 4 góðir þegar Dagur, Hjörvar og Patti unnu en Jóhanna og Hallgerður gerðu jafntefli. Hin lutu í lægra haldi fyrir einhverjum ofur asnalegum andstæðingum (kúltiveruð frústrasjón í gangi). En dagurinn í dag er afmælisdagur og þess vegna munum við örugglega slá fyrra vinningsmet frá mánudeginum og koma með átta vinninga eða meira enda er þetta svarti dagurinn, þe. flestir okkar krakka tefla með svörtu Cool.

Áður nefndir sundgarpar í Villunni skelltu sér aftur í sjóinn í dag enda ekki nema um 22°c og sést til sólar. Ef þeir feðgar Friðgeir og Dagur halda þessu áfram þá er mikil hætta á því að þeim fari að vaxa sundfit milli táa og fingra. Annars eru þessir herramenn í hópnum býsna sprækir á morgnana og oftar en ekki eru óvart komin 4-5 glæný brauð í eldhúsið því allir fara í búðina á svipuðum tíma en þar sem búðirnar í götunni eru svo margar þá ná þeir aldrei að hittast og bera saman innkaup sín. Það er þó aldrei of mikið af brauði frekar en ís því þetta er eins og veislumatur í augum krakkana eftir að þau uppgvötuðu Nutella sem er líka keypt daglega enda dugar ein krukka tæpt í 17 gráðuga munna.

Við afmæliskökunaTinna, Jóhanna og Hallgerður í afmælisveislunniNú þrátt fyrir fjölda búða í nágreni Villunnar er vöruúrvalið afar takmarkað og því sjaldan hægt að fá annað en álegg, brauð, gos, vatn og sælgæti. Og þar sem það er 15 ára stórafmæli stjúpsonar míns þá gerði ég mér sérstaka ferð í ofursúpermarkaðinn - aðeins 4km ganga, í þeim eina tilgangi að leita eftir kökugerðarefni. Best hefði verið ef svartfellingar væru aðeins ameríkusinnaðir og seldu Betty Crocker en svo er alls ekki. Eftir ítarlega leit í búðinni fannst þó smá hveiti, sykur og egg en ekkert almennilegt súkkulaði eða önnur grundvallar hráefni í eðalbakstur Skjólsalafrúnnar. Kannski verðum við bara að fórna kökunni en þá er ekki annað að gera en að skera þykka franskbrauðssneið og smyrja með þykku lagi af nutella og skella á það 15 fallegum kertum. Svo verðum við bara að knúsa drenginn í bak og fyrir.

Á morgun er svo síðasta umferðin og hefst hún á staðartíma kl. 13.00 og íslenskum tíma kl. 11. Þegar umferðinni er lokið er ljóst að við þurfum öll að koma okkur í Villuna og pakka niður enda nauðsynlegt að ná smá svefni fyrir brottför sem verður um kl. 4 aðfaranótt fimmtudags. Þrátt fyrir að hér hafi allt gengið vel og allir séu ánægðir þá held ég að margir séu orðnir afar þreyttir og hlakki til að komast heim í faðm fjölskyldunnar og síðast en ekki síst í sitt eigið rúm.

Sorry að ég hef engar myndir í dag þar sem ég er að vinna á tölvunni hans Davíðs en ekki minni og hann er ekki í kallfæri til þess að vísa mér inn á sínar myndir að svo stöddu. 

Kveðjur í vondaveðrið á Íslandi héðan úr sólinni og góða veðrinu í landinu svarta. Nú er ég hlaupin út aftur til hinna fullorðnu í hópnum sem sitja úti á veröndinni við skákhöllina og sötra bj... og yndæliskaffi og ég er bara með vatnsbrúsann enn að hugsa um góða ísinn sem ég borðaði á leiðinni hingað!!!

Edda


Rúskí púskí serbí kc´erbí

Patrekur í eldhúsinuSunnudagar eru alltaf góðir. Þetta eru alla jafna kirkjudagar hjá kristnum mönnum og oft taldir nokkuð heilagir hvíldardagar. En í skákinni er ekkert sem heitir heilagur hvíldardagur þótt sunnudagur sé! Kannski vegna þess að fararstjórinn er kominn í ónáð kirkjunnar hér í bæ en þó ekki. Það var reyndar fjörugur morgunin hér við Villuna okkar þar sem það er siður manna hér að gifta sig á sunnudögum og því fylgir eins konar brúðarfylgd svona líkt og við íslendingar könnumst við þegar við fylgjum okkar nánustu til grafar. Nema í þessari fylgd tíðkast greinilega að keyra eftir aðalgötunni, sumsé okkar götu og flauta eins og óðir menn algjörlega stöðugt. Um kl. 11 þegar okkar heilagi Patrekur var í þjálfun fór hér hjá greinilega vinamargt par sem olli því að ekki heyrðist mælt mál hér í Villunni í nokkrar mínútur, varði þó skemur en hið fyrra. Ég velti vöngum yfir því hvort flautið gefi einhverja vitneskju um það hversu lengi þessi hjónabönd munu endast! Hluti hópsins á frídeginum

Nú sjálf var ég á hótel Plaza um hádegi að pósta síðasta pistil og gekk líka svona vel með nettenginguna. Ekkert mál að setja inn myndir og solleis! En kl. 12 - algjörlega á slaginu er bara slökkt á netinu og ekki kveikt aftur fyrr en seint að kveldi svo ekki komust margar myndir með en ég reyni að bæta inn myndum á eldri pistla svona eins og tenging leyfir.

Nú af Tinnu er það helst að frétta að hún er orðin frísk en í hennar stað er nýr maður á sjúkrabeðinu og það var sjálfur Helgi sem veiktist í gærkvöldi meðan spurningarkeppnin fór fram. Hann fékk leiðinda flensu og erum við hjúkkurnar með aðstoð lyfjafræðingsins að veita fyrstu hjálp enda er kappinn allur að hressast í mjúkum höndum okkar þriggja. Það var því heldur styttri þjálfun í morgun og reyndi Davíð að fara yfir með þeim krökkum sem óskuðu eftir því sérstaklega. Reyndar eru þau flest orðin nokkuð góð í því að stúdera sjálf svo þetta gekk nú allt saman býsna vel. Raunar fóru leikar þannig í dag að 7 vinningar komu í hús þegar Hallgerður, Hjörvar, Dagur, Tinna, Sverrir og Geirþrúður unnu, Jóhanna og Daði gerðu jafntefli en Patti og Friðrik töpuðu sínum skákum. Besti dagurinn so far!

Horft út á AdríahafiðAnnars var dagurinn einstaklega fallegur hér í sveitinni. Glampandi sól og vel heitt, sennilega um 25°c og var því tilvalið að skella sér í smá sólbað í morgun. Reyndar er það nú býsna oft hér að svona veður er á morgnana og fram undir þrjú en þá fer oft að hvessa og skýin eitthvað aðeins að fela sólina eins og við íslendingarnir þekkjum svo vel. Það getur verið frekar hvasst fyrir utan skákhöllina og því erum við ávallt með hlý föt með okkur þangað jafnvel þó að við göngum þessa 4 km í steikjandi hita og sól. Og hvað gerir maður á slíkri leið. SKO í dag t.d. gengum við nokkur þessa leið. Ætla nú ekkert að fara telja upp einhver nöfn EN á leiðinni á skákstað eru amk 436 girnilegar ísbúðir sem selja meðal annars: Straciatella, karamelluís, hnetuís, romm og rúsínuís, súkkulaðiís, jarðaberjaís, vanilluís og svo margt annað jafn áhugavert. Sú hugmynd kom upp hjá Hjörvari nokkrum Grétarsyni að kannski væri sniðugt að kaupa eina kúlu á hverjum stað og finna þannig út hvaða ísbúð er best. Reyndar finnst mér þetta stórkostleg hugmynd og hver veit nema við tökum upp á því áður en við förum heim. Geirþrúður og Edda aftan við kirkjuna frægu

Í hópnum leynast tónlistamenn og best að uppljóstra því hér að fröken Hallgerður kom með fiðluna sína með sér í ferðina og spilar á hana eins og stakur snillingur. Ljúfir fiðlutónar flæða um húsið og ekki skemmir fyrir þegar Sverririnn okkar sest við flygilinn í stofunni og slær nóturnar. Ég bíð eftir að krakkarnir raði sér upp við píanóið hjá Sverri og með Hallgerði á fiðlunni og syngi: So long, farwell, auf wiedersehen, good bye og trítli svo hvert og eitt inn í sitt herbergi og fari að sofa.......

Í dag að morgni mánudags og sjöundu umferðar er svo svalasti dagurinn og hitinn sjálfsagt rétt undr 20°c og mistur fyrir sólinni. Helgi orðin allur annar og krakkarnir komnir á fullt að stúdera enda fílefld eftir frábæran árangur í gær. Nú ættu allir heima að leggjast á eitt og senda haug af hvatningarkveðjum og slá met í kommenta hluta bloggsins.

Hlökkum til að heyra frá ykkur....
Edda


Frídagurinn í Herceg Novi

Gamli bærinn í Herceg NoviAð kvöldi frídagsins eru allir sælir eftir skemmtilegan dag í Herceg Novi. Í stað þess að eyða deginum í rútuferðum þá var ákveðið að skoða bæinn sem við erum í enda fæst krakkana haft tækifæri til þess að skoða sig um. Margir sváfu aðeins frameftir en þeir sem voru sprækastir þeir Stefán og Friðrik Þjálfi voru komnir út um kl. 9 og farnir í körfubolta. Við hin sem vorum aðeins seinni í gang fórum á ströndina um kl. 11. Þar var yndislegt enda sól og afskaplega heitt. Þó gustaði svolítið á okkur en hverju erum við íslendingarnir ekki vanir? Við Þorsteinn sinntum foreldrahlutverkinu og tókum myndir af stelpunum sem skelltu sér í sjóinn og tóku Hallgerður og Tinna þetta með stæl þegar þær skelltu sér á bólakaf meðan Geirþrúður dýfði tánum ofan í og Jóhanna hvatti þær áfram. Fljótlega fór að bera á sundgörpum í flæðamálinu og virtust þeir tala íslenkst mál. Við nánari athugun reyndust þetta vera feðgarnir Friðgeir og Dagur Andri sem syntu þarna um eins og þeir hefðu aldrei gert neitt annað en að synda í söltum sjó! Hallgerður, Tinna og Geira í sjónum

 

 

 

 

 

 

Jóhanna og Geira í

Ekki höfðum við eirð í okkur til að liggja þarna til eilífðarnóns svo við skelltum okkur í göngu. Ég fór ásamt Jóhönnu og Geirþrúði í átt að gamla bænum meðan þau hin fóru heim í saltskolun og ætlunin var að hittast við kirkjuna sem ég hafði verið gerð brottræk úr. Eftir að við höfðum gengið kröftuglega um allar 600 tröppurnar sem virtust endalausar upp að virkinu fórum við skoðunarferð þar um. Stórkostlegt útsýni yfir bæinn og langt út á Adríahafið og inn víkina. Þegar garnirnar voru farnar að gaula svo hátt að kirkjuvörðurinn í kirkjunni góðu var orðin hræddur um að víkingastelpan frá Íslandi væri farin að nálgast, var augljóslega komin tími á pizzu! Eins og áætlað hafði verið hittist hópurinn við kirkjuna góðu enda fjöldi af kaffihúsum og pizzeríum allt í kring. Við það tækifæri rákum við inn nefið í kirkjuna og vogaði ég mér ekki lengra en í hurðagættina og það fyrsta sem ég sá voru gyllt hlið sem nú var búið að setja upp við þau þrjú hurðargöt sem ég hafði gægst inn um (þó aðeins eitt þeirra) daginn áður. Sum sé í gær var ekkert sem benti til nokkurs annars en þetta væri opið en í dag er þetta augljóst bannsvæði.  Ég er þó alveg viss um að mér hafi verið fyrirgefið þótt kirkjuvörðurinn hafi ekki gert það Halo.

Sverrir á pizzastaðnumEn hungrið leiddi okkur að huggulegum pizzustað þar sem sólin skein og notalegt var að setjast niður. Fljótlega fóru hinir íslensku víkingar að týnast að staðnum.  Góð pizza og enn betra gos rann vel niður í svanga kroppana og eftir það langaði alla í þetta kalda sem er með mismunandi bragði og alltaf gott. Ákveðið var að kíkja á slíkar gæðasjoppur við strandgötuna enda skipta þær hundruðum ísbúðirnar við sjóinn! Eitthvað tvístraðist hópurinn upp þar sem sumir vildu sparka bolta, aðrir skoða í búðir og enn aðrir bara rölta um og skoða minjarnar. En ísinn var góður. Svo góður að ég þurfti virkilega að hemja mig til þess að kaupa ekki meira í næstu og þarnæstu ísbúð. Við stelpurnar, Jóhanna, Geirþrúður og Tinna og ég komum heim um kl. 18 og hittum fyrir nokkra úr hópnum sem þá höfðu verið að sparka bolta og rölta um.  Samkvæmt skrefateljaranum í gemsanum mínum gekk ég 5876 skref í dag og er það ekki alveg nákvæmt því hann var í töskunni og því ekki alveg jafn næmur fyrir skrefunum sem ég tók. Hefði reyndar verið geðveikt gaman að telja tröppurnar en þær eru amk tvær grilljónir  hér í bæ og við gengið svotil helminginn í dag! Og var einhver að segja að þrepin upp að Akureyrarkirkju væru mörg - ég meina komm onCool! Jóhanna, Hallgerður, Patti, Tinna Hjörvar og Dagur í borðstofunni

Strákaliðið Krakkarnir voru ekki lengi að raða sér upp við borðstofuborðið okkar og fara í tvískák með tilheyrandi stuði en eftir kvöldmatinn var komin tími á hópefli. Jebb rétt til getið Hópefli! Að þessu sinni var keppt í þekkingu. Þar sem við höfum eyjapeyja í hópnum sem er þekktur fyrir ýmislegt annað en skák, nefnilega að semja spurningar fyrir Gettu Betur, var tilvalið að setja upp spurningakeppni í anda þeirrar góðu keppni og var unglingalandsliðinu okkar skipt upp í tvo hópa. Stelpur gegn strákum. Hallgerður hafði haft uppi miklar yfirlýsingar um það hvernig stelpurnar myndu rústa strákunum en í raun og veru var það fararstjórinn sem rústaði landsliðinu því ég vissi miklu fleiri svör en bæði liðin til samans. Það er ekki vegna þess að ég sé eldri, ljóshærð eða bara eiturklár heldur vegna þess að þau vissu ekki svörin við spurningum eins og hvað heitir flugvélin hans Ómars Ragnarssonar. Mjörg stór spurningamerki og heyrðist jafnvel: Hver er Ómar Ragnarsson.....  En fleiri skemmtilegar spurningar komu fram og keppt var í fimm flokkum: Saga, Dægurmál, Ýmislegt, Skák og íþróttir. Liðin skiptust á að svara og höfðu til þess 15 sekúndur og svarrétturinn fluttist yfir á hitt liðið ef ekki kom rétt svar. Merkilegt hvað krakkarnir gátu svarað í flokknum skák, þar sem nánast flestar spurningarnar voru eldri en sjálfur fararstjórinn. En hvorugt liðið vissi hvaða tvær íslensku konur hefðu orðið ungfrú heimur á síðustu öld. Þó var ein spurning í skákflokknum sem hvorugt liðið gat svarað en sjálfur fararstjórinn svaraði af miklu öryggi. Spurt var hvar fyrsta óformlega heimsmeistaramót í hraðskák hefði verið haldið og hver hefði unnið. Jebb rétt svar var í Herceg Novi og sjálfur Fischerinn vann. Já það getur verið gott að vera gáfuð ljóshærð hjúkka í Svartfjallalandi. Ég fékk reyndar bara tækifæri til að svara eftir að þau voru búin en ég átti í samkeppni við Stefán sem átti mjög erfitt með að halda aftur af sér svörunum LoL. En stemmningin var skemmtileg og unnu stelpurnar með 5 stig gegn 4 stigum strákanna sem voru jú tveimur fleirri í liði. Eftir þetta var haldið áfram að tefla og farið á skikkanlegum tíma í háttinn enda sjötta umferð á morgun (sunnudag).DSC01701

Hallgerður og Tinna á KonobaÍ gærkvöldi gengum við eftir ströndinni á veitingastaðinn Konoba Feral. Fengum langbesta matinn í Svartfjallalandi. Matseðillinn var fjölbreyttur og erfitt að gera upp á milli. Aðeins einn ungur piltur í hópnum kaus að borða annars staðar þar sem ekki var pizza í boði á þessum stað svo þeir feðgarnir Stefán og Friðrik skelltu sér á Pizza Pic Nic og snæddu þar. Við áttum frábæra kvöldstund á strandgötunni og fengum okkur já ÍS í einum ísbásnum á leiðinni til baka á hótelið. Veit ekki hvaða fíkniefni eru í þessum ís en óboj hvað hann er góður!

Nú svo er komin tími til að þakka allar þessar frábæru kveðjur sem verið er að senda okkur. Stundum þegar við náum að nettengja okkur á Íslandstorginu við skákhöllina þá lesum við upphátt kveðjurnar og reynum líka að sína krökkunum sérstaklega ef kveðjur eru frá þeirra foreldrum. Endilega haldið áfram að senda kveðjur og hvatningu því ekki veitir af núna á lokasprettinum. Enn eru fjórir vinningar í pottinum og við erum þekkt fyrir að rífa okkur hressilega  upp í lokabaráttunni.


Fimmta umferð komin í gang!

 

Á Íslandstorgi við skákstað í gærAð morgni  5.umferðar (föstudag) er ákveðin spenna í Villunni okkar.  Sumir eru spenntir enda heilmikið í húfi í dag. Því miður er Tinna svo óheppin að fá skottu og erum við öll sammála um það að í jafn stóru móti og þessu ætti ekki að bjóða upp á skottu heldur redda öðrum skákmanni svo ekki standi á stöku. Ef þeir fást ekki í landinu þá þarf bara að taka einn svarfelling út eða sækja í annað land! En kannski er líka lán í óláni að Tinna fái frí í dag því hún er líka aðeins lasin og fær því tækifæri á að jafna sig. Meðan ég sit og skrifa eru krakkarnir að fá þjálfun og stúdera fyrir sínar skákir og þau sem eru búin eru nokkuð sátt og fara sennilega afslöppuð inn á skákstað.

Í gærkvöldi ræddum við um mikilvægi þess að fara að sofa á skikkanlegum tíma og sofa ekki of lengi á morgnanna. Hvíldin er afar mikilvæg á svona móti en það er líka reglan á svefninum.  Annars hefur þetta ekki verið til vandræða heldur fyrst og fremst verið að ræða um þetta. 

Sambúðin í Villunni okkar er býsna góð og get ég ekki annað en hrósað þessum frábæru strákum sem hér eru.  Piltarnir þrír á þriðju hæðinni, Patti, Sverrir og Daði eru sér og sínum til sóma. Einstaklega skemmtilegir og áhugasamir og virðast ekkert hræddir við að tjá sig við fararstjórann eða aðra í hópnum ef svo ber undir. Þeir eru duglegir að nýta tímann til að stúdera og njóta lífsins þess á milli. Okkur semur afar vel og mega foreldrarnir svo sannarlega vera stoltir. Patti var miklu sprækari í gærkvöldi eftir sigurinn enda komin tími á vinning hjá honum. Nú eru allir búnir að landa stigum og ætla að halda áfram á þeirri braut.

Í minna herbergi við hliðina á Bakkabræðrum eru þær Tinna og Geirþrúður. Ekki síður samviskusamar og skemmtilegar stelpur. Stutt í galsann og gleðina og sér maður varla Geirþrúði öðruvísi en brosandi út að eyrum! Hún virðist þó geta sofið gegnum allt saman og sennilega sú eina sem svaf eins og engill á Hótel Hell (Igalo).  Meðan við hin verður óneitanlega vör við mikið hundagelt og slíkt á nóttinni. Tinna gefur ekkert eftir þótt hún fái skottuna í dag og er enn ákafari við undirbúning. Sverrir og Tinna svissuðu milli þjálfara í morgun og ætlar hún að stúdera Pirk, Carocan og franska leikinn í dag og fær til þess extra tíma þar sem hún situr hjá.

Jóhanna, Geirþrúður, Sverrir og Tinna fyrir utan skákhöllina í gærMeðan krakkarnir tefldu í gær skelltum við okkur í ræktina á Hótel helvítis Hell sem sagt ógeðslegra hóteli en Igalo. Hvet ykkur til þess að gúggla Hotel Tamaris í Montenegro og ef þið fáið eitthvað aðeins ógeðslegt,  þá er það lýgi og búið að fótósjoppa því viðbjóðnum er ekki hægt að lýsa. En við Hjördís og Friðgeir létum það ekki aftra okkur enda um „Private gym" að ræða (bókstaflega hlæjilegt). Fundum smá aðstöðu í lítilli kitru sem hafði upphífustöng sem var vonlaus og við gáfumst upp á. Við tókum smá púl og höfðum gaman af. Friðgeir og Hjördís stóðu sig mjög vel og gáfu ekkert eftir. Eitthvað bólar þó á harðsperrum í dag og sennilega hugsa þau ekkert rosalega fallega til mín núna en harðsperrur eru hollar og sína bara hvað þau voru dugleg. Auk þess sem þær hverfa alveg þegar við byrjum að ganga í dag. Nú ef ekki þá eru amk 4 apótek í 10 sek. göngufæri frá Villunni okkar sem selja verkjalyf! Reyndar er ágætt að hafa þessi apótek því eitthvað er farið að bera á moskítóbitum en ég, Stefán og Friðgeir erum öll komin með eitt slíkt með tilbehör. Þegar við rekum nefið út fyrir hliðið á Villunni þá eru 10 MINI „supermarkaðir"  1-12 sek. göngufæri. Þar fæst allt milli himins og jarðar. Samt eigum við öll orðið uppáhalds supermarkaði og ekki sjálfgefið að við kaupum brauðið, áleggið, gosið og vatnið í sömu búllunni.

Í kvöld svona rétt fyrir frídaginn ætlum við út að borða og eiga kósístund á veitingastað við smábátahöfnina. Við vitum að sjálfsögðu ekkert út í hvað við erum að fara því hér eru grilljón og fimmtíu veitingastaðir en misgirnilegir. Snyrtimennskan er ekki það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður gengur meðfram þessum veitingastöðum og það gerir valið oft mun erfiðara en ella. En krakkana langar flesta í almennilegan mat, steikur, fisk eða eitthvað slíkt og afþökkuðu að fara á stað þar sem fengist pizza. Enda lítil og ódýr fyrirhöfn að skella sér á Pizza Pic Nic á móti Plaza ef svo ber undir. Þau vilja þó helst fá ís í eftirrétt. Ó já var ég búin að nefna ísinn. Það hlýtur að vera! Jummý, er hægt að hugsa sér betra en ís í eftirrétt tvisvar á dag? Og það svona líka góðan ís......  Þori ekki að skrifa meira um það nema það komi fram að ég sé rosadugleg að hlaupa líka svo við ræðum þetta bara ekkert meira! Annars eru þetta aðallega Hallgerður, Friðrik, Hjörvar, Jóhanna, Tinna, ég, Þorsteinn, Geirþrúður, Hjördís, Dagur og Sverrir sem eru svona áhugasöm um ísinn en við hin horfum meira á og sínum meiri stillingu... Svo bara tölum við ekkert meira um það frekar en góða karamellusúkkulaðið frá Milka sem Davið finnst fara heldur hratt ofan í okkur estrogenverurnar sem sitja á Íslandstorginu. Komin tími á nýtt umræðuefni:

Þegar hópurinn lagði af stað frá hádegisverðinum og á skákstað ákváðum við Hjördís að finna veitingastað fyrir kvöldið. Að sjálfsögðu buðum við Friðgeiri að koma með enda ávallt heppilegt að hafa eitt karlkyn með í för í svona landi! Fyrr en varði vorum við komin inn á fallegt torg svona líkt og á Ítalíu þar sem stóð lítill falleg kirkja í miðjunni. Við smelltum okkur inn fyrir dyrnar og eins og sönn heimskona sem ávallt heimsækir kirkjur í hverri borg setti ég peysuna yfir axlirnar svona eins og sannkristin kona, því ekki vildi ég láta reyna á hefðir kirkjunnar manna. Kirkjan var agnar smá en gríðalega falleg. Í henni voru engir bekkir og í raun ekki klassískt altari. En aftast var veggur og á honum voru þrjú op. Ekkert benti til þess að þar væri neitt sem ekki mætti sjá svo ég í allri minni hógværð og raunverulegri einlægni geng þar að og gægjist inn. Þar var svo sem ekkert merkilegt. Rými sem minnti á kaffistofu og eitthvað sem líktist altari en samt hóflegt og látlaust þótt þarna væri svolítið safn af skrauti. Áður en ég vissi af kom „kirkjuvörðurinn" sem jafnframt hafði vissulega séð okkur koma inn og helti yfir mig alls kyns útlensku sem mátti skilja eins og misljót blótsyrði. Ég var greinilega ekki velkomin og hafði gengið of langt inn í það heilaga!!! Þrátt fyrir mikla auðmýkt, mild bros og afsökunarbeiðnir fussaði hann og sveiaði og með handahreyfingum rak mig út! Jebb ég var rekin út úr Guðshúsi og fékk ekki tækifæri á að iðrast gjörða minna. Nú er ég mest hrædd um að hann hafi kallað yfir mig einhverja ólund en vonast þó til að hann hafi ekki náð að senda út tilkynningu í kirkjur heimsins um að ég sé ekki velkomin. Það er ljóst að framundan er altarisganga og von um syndaaflausn í Lindasókninni við heimkomu. Hjördís og Friðgeir hugguð mig og hvöttu mig enda telst þessi synd mín vonandi ekki sú versta! Eftir þessa óvæntu uppákomu héldum við leið okkar niður á strönd þar sem við fundum yndislegt veitingahús þar sem við ætlum að njóta kvöldsins.

Nú þegar þetta er skrifað hafa Hjörvar, Hallgerður og Dagur Andri lokið sínum skákum og öll tapað. Allar hinar skákirnar eru enn í gangi. Netsambandið dettur inn og út og því reyni ég frekar að koma frá mér pistlum og setja þá myndir inn á þá seinna eða eins og tækifærin gefast.

Kv. Edda


Lífið við skákhöllina meðan beðið er.....

 

Þegar krakkarnir voru byrjaðir að tefla ákváðum við Hjördís að nú væri komin tími til að við færum í gönguferð um svæðið. Við gengum í átt að Igalo hryllingshótelsins en á leiðinni urðum við að ganga meðfram annarri hrörlegri byggingu sem við töldum vera hótel sem hlyti að vera í undirbúningi fyrir niðurrif. Nei það var ekki svo. Þetta var Institut Dr. Simo eitthvað. Þarna voru sjúkrabílar og skurðstofur af ýmsum gerðum. Við rákum augun í skilti sem vísaði leiðina að lýtalækningadeildinni og cosmetic surgery. Ef þetta er það sem fólk vill gera fyrir minni pening en á Íslandi þá held ég að það þurfi einhverskonar annarskonar aðgerðir en útlitsaðgerðir! Ég færi ekki hraust inn í þessa byggingu jafnvel þótt ég væri á launum leikara í Friends.

Eftir að hafa komist gegnum spítalalóðina lá leiðin niður á strönd sem er reglulega notaleg og kósí göngustígur meðfram henni allri. Við gengum þó nokkurn spöl frá skákhöllinni í átt að Villunni okkar en þó í verulegri fjarlægð frá Villunni. Meðfram ströndinni voru þessar týpísku strandasjoppur sem selja allt og ekkert, glyngur og rusl. Þarna var líka urmull af veitingastöðum sem flestir ilmuðu nokkuð vel. Alls staðar var hægt að finna girnilegan ís og þurftum við dívurnar bókstaflega að draga hvor aðra frá ísbúðunum enda fáum við ís í eftirrétt tvisvar sinnum á dag hér á hótelinu. Nú en inn á milli allra strandbúðanna mátti finna eina og eina fallega búð sem seldi gæðalegar vörur og þá kannski helst það sem okkur konum finnst afar áhugavert - SKÓR! Hér eru líka fallegar barnafataverslanir með gæðafatnaði á merkilega góðu verði þrátt fyrir kreppugengið sem er á evrunni.   Við rákum inn nefið í stóra súpermarkaðinn sem var með fínu vöruúrvali og hátt til lofts og vítt til veggja. Við komumst t.d. að því að svartfellingar borða reykt kjöt að hætti íslendinga.

Hér í Herceg Novi eru göturnar afskaplega þröngar. Svo þröngar að sjálf Birna Þórðardóttir sem er jú glæsikvendi sem gengur um dillandi mjöðmunum eins og heimsborgari, yrði keyrð út í vegg því engar eru gangstéttirnar og bílarnir ýta því öllu til hliðar sem dillist meðfram götunum. Það er kannski þess vegna sem það eru bara nokkrir alvöru bílar í bænum en flestir eru þeir með hliðarspeglana lafandi á einni snúru meðfram bílunum því það er löngu búið að keyra þá niður.  Einstefnugöturnar eru bara einstefnur á pappírum og samkvæmt skiltum. Ekki í augum íbúa. Ef þeir þurfa að snúa við og keyra til baka, þá bara gera þeir það. Jafnvel þótt það sé ekki vinnandi vegur að snúa bílkvikindinu við á punktinum. Í dag sem og aðra daga fórum við upp í strætó af árgerðinni 1950 sem var keyrður ca 590.000 km eða meira. Hann hafði einhverntímann fullnægt þörfum lundúnarbúa en gefin til Svartfjallalands þegar var verið að safna dósum til styrktar Igalo hótelsins. Þetta er svona liðamótastrætó sem er ofur langur og inn í hann er hægt að troða 124 mannverum og 124.000 túnfiskum eða svo heldur bílstjórinn amk því ekki lokar hann hurðinni fyrr en 2-3 eru orðnir bláir í framan og einhver byrjaður að kasta upp. Þá er komin tími til að leggja af stað! Mengunin frá vagninum liggur svo beint inn í hann þar sem við hóstum hvert á annað og horfum upp í loftin eftir súrefni og sjáum að það er búið að skrúfa niður öll neyðarop í þaki bílsins. Eini ljósi punkturinn í þessari aumu veru í vagninum er sá möguleiki að geta tekið nokkrar hressilegar upphífur í láréttu rimlunum sem eru hugsaðir til að halda sér í (sem þarf náttúrulega ekki því það er svo þröngt að ekkert getur færst til).  Svo opnar maður augun og áttar sig á því að jafnvel þótt það væru helmingi færri í vagninum þá myndi ég samt sparka í 12 manns svona rétt á meðan ég tæki þá fyrstu. En eftir það yrðu næstu 20 ekkert mál!

En talandi um upphífur! Þá lögðum við Hjördís leið okkar inn á allra versta hótelið við ströndina. Hótel Tamaris. Okkur hafði jú verið tjáð um það að þrátt fyrir að hótelið væri það allra slakasta þá væri þar „privat gym" eins og maðurinn orðaði það með stoltan glampa í augunum. Já ég veit varla hvað ég á að segja. Þetta var gym og það voru nokkur tæki, þar var þjálfari sem naut þess að þjálfa tvær ungar konur sem voru bara að dúllast þarna inni. Hann var líka mjög lipur og stoltur að sýna okkur Hjördísi aðstæðurnar og bauð okkur velkomnar fyrir aðeins 3 evrur - one time! Mikið andskoti sem var skítugt, þröngt og lágt til lofts þarna inni. En ég er samt að hugsa um að skella mér þarna inn á morgun og fá smá útrás fyrir yfirvofandi vöðvaóróleika! Það er nú samt ágætur hreyfimórall í hópnum og þá sérstaklega fullorðna fólkinu sem veit hvað þetta er hollt og gott. Stefán gengur um allt og er gjarnan með körfuboltann við hendina og alltaf skoppar Friðrik með eins og hann hafi takmarkalausa orku. Friðgeir er líka afar sprækur og hleypur eins og sjálfur Hasselhof meðfram ströndinni á hverjum morgni. Kemur lafmóður og sveittur inn og teygir eins og sannur hlaupari. Sjálf skellti ég mér í galllann í morgun og hljóp en þarf nauðsynlega að fara að gera eitthvað meira.

Í dag fengum við fleiri vinninga en í gær. Þetta var til dæmis góður dagur hjá stelpunum sem fengu 3 af 4 þegar Jóhanna, Hallgerður og Geirþrúður unnu en Tinna tapaði. Hjá strákunum var meira um svona jafntefli og solleis! Hjörvar og Friðrik gerðu jafntefli en Sverrir Daði og Patrekur töpuðu. Patti skrapp svo í göngutúr í stóra súpermarkaðinn en fann bara músikbúð og keypti sér fjóra geisladiska hvern öðrum ljúfari, Sound of Music, Flashdance, Xanadu og svo sýndist mér sá síðasti vera Panthom of the Opera en ég er ekki alveg viss!!!

Hér að ofan var skrifað í gærkvöldi (17. sept) en í dag hefur netsambandið verið lélegt og nú erum við komin heim af skákstað og búin að borða kvöldmat. Leikar fóru þannig að Hjörvar, Friðrik, Hallgerður og Geirþrúður gerðu jafntefli, Patrekur, Jóhanna og Daði unnu en Tinna, Sverrir og Dagur  töpuðu sínum skákum. Á hverjum degi fáum við aðeins fleiri vinninga en daginn á undan. Við byrjuðum með 3 síðan 3,5 og í gær 4 en í dag fengum við 5 góða vinninga og má geta þess að Dagur var með unna stöðu gegn um 2200 stiga manni en missti niður stöðuna. Á morgun föstudag er svo síðasta umferð fyrir frídaginn sem við ætlum að nýta vel!

Bless í bili,
Edda


Þriðja umferð í fullum gangi

Mér tókst að komast inn á netið svo ég ákvað að skella inn þeim niðurstöðum sem eru að koma núna. Sex krakkar eru komnir út af skákstað nú þegar klukkan er orðin hálfs sex og 2,5 tími liðinn. Fyrstur kom út Patrekur eftir um 1,5 tíma og hafði þá tapað sinni skák. Hann hefur verið að tefla við afar sterka andstæðinga frá upphafi en við höfum fulla trú á því að hann sé bara að hita sig upp og verði orðinn að vinningsmaskínu á morgun. Síðan kom Jóhanna eftir rúmar 2 klukkustundir með bros á vör eftir að hafa unnið stúlku með 1870 stig sem lék einhverju afbrigði sem Jóhanna þekkti ekki en náði þó að undirbúa sig ágætlega fyrir í morgun. Fljótlega á eftir kom Hallgerður með vinning og svo komu Dagur og Tinna sem bæði höfðu tapað. Hjörvar er svo tiltölulega nýkomin út og hafði náð jafntefli.

Daði er með góða stöðu og á séns á sigri. Sverrir er líklega að tapa. Geirþrúður gæti náð sigri og Friðrik geti hangið í jafntefli - upplýsingar frá Davíð sem var að koma út úr skáksal.

Nánari útskýringar á skákum mun Davíð sjá um á skak.is

Kv. Edda


Villa Sava Kivoza

  útsýnið frá svölunum okkar á þriðju hæðinni

Já nú er lífið hjá okkur hér í Herceg Novi allt að komast í eðlilegt horf. Nú erum við loksins búin að sjá bæinn í dagsbirtu sem einkennist af sól og svona 28°c hita. Einhvern vegin verður allt svo miklu skýrara  í þeirri birtu. Hér ríkir greinileg fátækt sem lýsir sér að miklu leyti í vanhirðu á umhverfinu. Húsin hér eru að miklu leyti að syngja sitt síðasta en hér er þó líka mikil uppbygging. Inni á milli eru fallegar byggingar sem eru ýmist nýjar eða uppgerðar. Gamlar blokkir og hótel í niðurníslu eru samt einkennandi fyrir bæinn. Bærinn er almennt afar óhreinn þrátt fyrir miklar rigningar sem að öllu jöfnu skola skít af húsum og slíku. Bílakosturinn er kapituli útaf fyrir sig enda flestir bílarnir af þeirri gerð Skoda sem ekki sjást lengur í vestur-evrópu auk Lödu Sport jeppum, alls kyns útgáfum af litlum og ljótum Fiat bílum og svo virðist algengasta farartækið vera WV-Golf bílar úr árgöngunum til og með 1990. Þó eru lögreglumennirnir vel búnir og keyra um á Land Rover Defender sem hafa örugglega einhverntímann verið nýir. Montenegro búar eða íbúar Svartfjallalands eru stoltir af þjóð sinni en landið er hluti af hinni gömlu Júgoslavíu og fékk viðurkennt sjálfstæði sitt fyrir aðeins tveimur árum síðan.

EM 2008 069Nýji húsakostur íslenska hópsins (sem við kjósum að kalla Villa Sava Kivoza í höfuðið á skákmótsskipuleggjandanum) er í einu orði sagt frábær enda ekki margir sem fengu VIP húsnæði undir sinn hóp! Já og það kostaði aðeins 600kr aukalega á nóttina. Fyrir þann pening fengum við hreinlegt hús þar sem allir hafa sitt herbergi með sínu baði. Stærsti kosturinn er tvímælalaust sá að við erum með stóra vel útbúna stofu þar sem við getum verið saman sem hópur og ýmist teflt, stúderað eða bara notið þess að spjalla og skemmta okkur. Krakkarnir eru dugleg að halda hópinn og finna sér alltaf eitthvað að gera sem ein eining og er ég viss um að hópeflið sé að skila sér núna.  Við erum eiginlega komin á þá skoðun að við höfum verið heppinn að lenda á þessu hryllingshóteli sem Hotel Igalo ER enda ef svo hefði ekki verið, værum við hvert á sínu herbergi og sameiginlegu stundirnar væru í ofhlöðnu, skítugu lobbýi annars hótels!

Hlutverk fararstjóra hefur óneitanlega verið sinnt í þessari ferð enda eins og ég sagði áður, þurfti að koma börnum yfir landanmæri, finna týnt veski með fullt af pening í sem fannst við húsleit í herbergi þar sem dót lá á víð og dreif (lá undir tösku eigandans), finna týndan farsíma sem fannst líka við húsleit í fyrstu athugun í vasa eigandans og svo önnur tilfallandi verkefni!

Undirbúningurinn er komin í gott horf og er hvor  þjálfari með 5 krakka sem stúdera sína andstæðinga að morgni. Hver fær 40 mínútur og er sá fyrsti settur kl. 9 og svo hitta þau þjálfarana í fyrirfram ákveðinni röð sem rúllar á hverjum degi. Þetta fyrirkomulag heldur góðri reglu og allir eru sáttir. Eftir hverja umferð er svo farið yfir skákirnar með þjálfurum og höfum við komið okkur upp aðstöðu fyrir utan skákhöllina þar sem við erum með taflsett og þar fara Helgi og Davíð yfir skákirnar með krökkunum þegar þau týnast út úr salnum. Þeir einir hafa leyfi til þess að ganga um skáksalinn meðan þau eru að tefla en aðrir geta fylgst með af áhorfendapöllunum.

Patrekur í byrjun 2. umferðarEM 2008 066Í dag fóru leikar þannig að Patrekur náði lengstri setu og yfirgaf skáksalinn eftir fimm og hálfa klukkustund og hafði þá sést yfi jafnteflisstöðu þegar hann gaf skákina. Jóhanna, Friðrik, Geirþrúður og Sverrir töpuðu líka en Hallgerður, Tinna og Dagur náðu jafntefli meðan Hjörvar og Daði unnu.

Maturinn á Hótel Plaza er alveg ágætur. Nokkuð gott úrval af kjötréttum, nóg af frönskum kartöflum og pasta fyrir krakkana. Svo það sem toppar allt saman er úrvalið af ís sem þau bókstaflega hreinsa upp úr döllunum og borða samhliða matnum enda þurfum við að borga fyrir drykki dýrum dómum og þá er alveg eins gott að skola matnum niður með ítölskum Stragiatella eða öðrum eðalís. Á móti hótelinu er svo dýrindis pizzastaður sem piltarnir eru að sjálfsögðu búnir að taka út.

Nú þegar allt er að komast í rútínu getur maður aðeins farið að kíkja í kringum sig en ég hef að mestu haldið mig á skákstað eða í Villunni okkar. Þorsteinn og Stefán hafa verið duglegir að ganga um bæinn og þá sérstaklega í kringum skákstaðinn og gefa okkur svo skýrslu um það hvað sé áhugavert að skoða. Þetta er í rauninni lítill strandbær með fallegum göngustíg meðfram allri ströndinni sem spannar sjálfsagt 8km. Upp frá ströndinni liggja svo margar litlar götur og segja þeir að þar séu líka einhverjar skemmtilegar verslanir.  Bærinn er á mjög fallegu landsvæði sem einkennist fyrst og fremst af fjalllendi og er því öll byggðin í miklum halla. Þess má geta að þegar við göngum inn á Plaza hótelið frá ströndinni þá förum við upp á aðra hæð til þess að borða en upp á þá áttundu þegar við ætlum í lobbýið og út á götu til þess að ná rútunni á skákstað. Villan okkar stendur fyrir ofan ströndina við sömu götu og gengið er inn á áttundu hæð Plaza hótelsins.  Allir hafa herbergi með svölum sem snúa niður að sjónum þannig að útsýnið okkar nær yfir alla víkina og út á Adríahafið. Hreint stórkostlegt! Við erum mjög ánægð og bjartsýn á gott gengi á þessum nýja stað.

EM 2008 067Á skákstað og kringum hótelin er löggæslan til fyrirmynda. Hér bæti ég inn mynd af vopnaða löggumanninum sem coverar skákhöllina en hann er afar afslappaður og oftast með kaffibollann í annarri og rettuna í hinni. Spurning hvað hann gerir ef upp koma vandamál og hann þurfi að grípa til vopna!

Ég skrifa pistlana að kvöldi hverrar umferðar og mun birta þá þegar ég kemst í netsamband á skákstað daginn eftir að þeir eru skrifaðir.

Svo þessu er ég að bæta við nú þegar við erum mætt á skákstað fyrir byrjun þriðju umferðar. Krakkarnir sitja úti í sólinni og eru vel stemmd og vel undirbúin fyrir umferðina. Ef ég kemst aftur í netsamband í dag mun ég birta niðurstöður. Davíð er svo að skrifa nánari skýringar inn á skak.is

 

Knús í kotin á Íslandi,
Edda og allir hinir í Villa Sava Kivoza við Brac‘e Grakalic‘a nr 20


Lífið í Svörtu fjöllunum við Adríahafið....

 

Beðið í ParísKl. 7:40 á sunnudagsmorgni renndi Icelandair vélinni úr stæði og við héldum á vit ævintýranna í landi Svartfjalla. Rúmlega 13 á staðartíma vorum við að týnast inn á CDG flugvöllinn í París eftir að hafa borið hinn fræga Eiffelturn augum rétt fyrir lendinguna. Þetta er ævintýralega leiðinlegur flugvöllur og þurftum við að flækjast um hina ýmsu arma áður en krakkarnir fundu gullið - McDonalds í landi matargerðarlistarinnar. Við gáfum okkur drjúgan tíma á þessum frábæra veitingastað enda var ekki annað á planinu en að taka næstu vél til Króatíu kl. 18:50 sem síðan seinkaði um hálftíma. Nokkuð óspennandi flug sem hristist töluvert en enduðum þó á flugvellinum um kl. 21:30 orðin afar þreytt, svöng og lúin. Þegar í lögreglueftirlitið kom lentum við í smá hremmingum þegar aðeins einn af fjórum eftirlitsmönnum neitaði að hleypa þessum unglingum inn til landsins án leyfisbréfa frá foreldrum og skildum við því hunskast til baka til Parísar. Virtist þessi eini ekki vera alveg með á nótunum því meðan hann tuðaði komust allir hinir moglulaust gegnum hin hliðin. Á endanum gaf hann skít í okkur og sagði glaðhlakkalega að við myndum hvort eð er ekki komast gegnum næstu landamæri á þessa leyfis og hleypti okkur áfram. Við tók bið, bið og bið eftir öðru flugi. Þeir eru nefnilega aðeins að spara hér í Svartfjallalandi og fannst ástæðulaust að keyra okkur þessa 46 km þegar það væri von á öðrum hópi sem var að fara sömu leið. Hann kom TVEIMUR KLUKKUSTUNDUM SÍÐAR!!! Og síðan var haldið af stað rétt upp úr miðnætti. Um hálf eitt skriðum við örþreytt út úr þessari mollulegu rútu sem fannst óþarfi að nýta sér loftkælingu. Fórum inn á hið glæsilega Igalo hótel sem olli öllum hópnum nettu áfalli. Reyndum að halda ró okkar meðan við nörtuðum í arfaslæman kvöldverð sem hafði sjálfsagt staðið á borðinu í matsalnum síðan um kvöldmatarleytið!

EM 2008 046En svo kom að því að við þurftum að horfast í augu við raunveruleikann og opna inn á herbergin. Þvílíkur og annar eins viðbjóður hefur ekki sést í íslenskri skáksögu síðan Gísli Súrson tefldi við Gunnar á Hliðarenda! Við erum að tala um skokkandi kakkalakka á baðherbergjum. Baðherbergjum þar sem loftin láku, klósettin láku og skítur út um allt, enga snaga og svo mætti lengi telja. Sturtan - no komment! Herbergin sjálf voru langflest útkrotuð með lafandi veggfóðri, matarleyfum í skápum, töluverður lífi um öll gólf, án snaga herðatrjáa. Hvorki loftkæling, sími né sjónvarp. Sumsé laust við allt NEMA óhreinindi! Ekki það að við höfðum búist við miklu en trúið mér að Frakklandsævintýrið varð allt í einu orðin vinarleg minning í hjörtum okkar sem þangað höfðum farið. Ég tók þá ákvörðun að allir skildu reyna að ná svefni og ég skildi taka á þessu á mánudagsmorgni. Það var að vísu afar erfitt að sofna og enn verra að sofa enda heitt og ógeðslegt í þessum brotnu og skítugu rúmum. Þegar ég gat ekki sofið lengur ákvað ég að skella mér í harkið og takast á við skítinn sem þetta hótel í heild sinni ER. Eftir nokkuð góðar móttökur hjá bæði aðstandendum hótelkeðjunar og aðstandendum mótsins fór aðeins að glæðast hjá okkur og flækjan að leysast. Einn fulltrúi hótelsins trúði mér fyrir því flest hótelin á svæðinu væru býsna léleg en þetta væri eitt af þeim verstu enda stæði til að jafna það við jörðu á nýju ári og byggja nýtt! Vá hvað ég var hissa! Hver myndi fórna slíkum gersemum?

Það verður þó að viðurkennast að það sem aðskilur þetta ævintýri frá því franska er fyrst og fremst hvernig á þessu var tekið hér á staðnum. Fulltrúi mótsins Sava sem nú er besta vinkona okkar Davíðs bauð okkur það sem við höfum núna. Heilt hús með 8 herbergjum, búnum mannsæmandi baðherbergjum, ísskáp, loftkælingu, sjónvarpi og flestu því sem við viljum búa við. Einnig höfum við stórt sameiginlegt rými með stofu, borðstofu og eldhúsi en megum svo rölta í 5 mínútur yfir á mun skárra hótel sem þó stendur ekki alveg undir nafni: Hótel Plaza - og þar megum við borða öll mál. Herbergin eru aðeins minni en nokkuð hrein - sennilega skínandi tær á mælikvarða heimamanna.

Jóhanna og Tinna við ströndinaÞað gekk reyndar ekki þrautarlaust að ferja okkur og töskurnar yfir á nýja staðinn vegna óeðlilega mikilla rigninga en það er bara notarlegt í hitanum að fá yfir sig smá gusur svona öðru hverju. Maturinn er svo efni í doktorsritgerð enda afar fátæklega útilátinn. Á nýja staðnum er mun áhugaverðari matur sem við getum valið sjálf af hlaðborði en á Igalo máttum við bara sitja kyrr og éta það sem kom á disknum til okkar. Vatnið er sjálfsagt framleitt úr gulli og vítamínbætt með demöntum enda leka evrurnar í þessa framleiðslu.

Það má þó benda á að á skákstað er feykilega góð aðstaða. Þar er bjart og snyrtilegt og getum við fylgst með af áhorfendapöllum og náum nokkuð góðri yfirsýn yfir staðinn. Það mætti vera aðeins öflugri loftræsting en í fyrstu umferð var þó ekki mikið meira en svona 22°c. Flest voru krakkarnir að tefla uppfyrir sig. Nokkur áttu samt góð úrslit eins og Hallgerður sem gerði jafntefli við stigahæstu stúlkuna í flokknum 16 ára og yngri. Sverrir gerði líka jafntefli við mjög sterkan andstæðing. Bæði Friðrik og Geirþrúður náðu líka jafnteflum. Hjörvar sigraði sinn andstæðing en hin töpuðu sínum skákum. Á morgun þriðjudag hefst svo önnur umferð kl. 15 á Svartfjallatíma og vonumst við til að krakkarnir verði mun betur hvíld og betur upplögð en í dag.

Með kveðju úr þrumum, eldingum og rigningu  mánudaginn 15. september

Edda Sveins


Næsta síða »

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband