Lífið í Svörtu fjöllunum við Adríahafið....

 

Beðið í ParísKl. 7:40 á sunnudagsmorgni renndi Icelandair vélinni úr stæði og við héldum á vit ævintýranna í landi Svartfjalla. Rúmlega 13 á staðartíma vorum við að týnast inn á CDG flugvöllinn í París eftir að hafa borið hinn fræga Eiffelturn augum rétt fyrir lendinguna. Þetta er ævintýralega leiðinlegur flugvöllur og þurftum við að flækjast um hina ýmsu arma áður en krakkarnir fundu gullið - McDonalds í landi matargerðarlistarinnar. Við gáfum okkur drjúgan tíma á þessum frábæra veitingastað enda var ekki annað á planinu en að taka næstu vél til Króatíu kl. 18:50 sem síðan seinkaði um hálftíma. Nokkuð óspennandi flug sem hristist töluvert en enduðum þó á flugvellinum um kl. 21:30 orðin afar þreytt, svöng og lúin. Þegar í lögreglueftirlitið kom lentum við í smá hremmingum þegar aðeins einn af fjórum eftirlitsmönnum neitaði að hleypa þessum unglingum inn til landsins án leyfisbréfa frá foreldrum og skildum við því hunskast til baka til Parísar. Virtist þessi eini ekki vera alveg með á nótunum því meðan hann tuðaði komust allir hinir moglulaust gegnum hin hliðin. Á endanum gaf hann skít í okkur og sagði glaðhlakkalega að við myndum hvort eð er ekki komast gegnum næstu landamæri á þessa leyfis og hleypti okkur áfram. Við tók bið, bið og bið eftir öðru flugi. Þeir eru nefnilega aðeins að spara hér í Svartfjallalandi og fannst ástæðulaust að keyra okkur þessa 46 km þegar það væri von á öðrum hópi sem var að fara sömu leið. Hann kom TVEIMUR KLUKKUSTUNDUM SÍÐAR!!! Og síðan var haldið af stað rétt upp úr miðnætti. Um hálf eitt skriðum við örþreytt út úr þessari mollulegu rútu sem fannst óþarfi að nýta sér loftkælingu. Fórum inn á hið glæsilega Igalo hótel sem olli öllum hópnum nettu áfalli. Reyndum að halda ró okkar meðan við nörtuðum í arfaslæman kvöldverð sem hafði sjálfsagt staðið á borðinu í matsalnum síðan um kvöldmatarleytið!

EM 2008 046En svo kom að því að við þurftum að horfast í augu við raunveruleikann og opna inn á herbergin. Þvílíkur og annar eins viðbjóður hefur ekki sést í íslenskri skáksögu síðan Gísli Súrson tefldi við Gunnar á Hliðarenda! Við erum að tala um skokkandi kakkalakka á baðherbergjum. Baðherbergjum þar sem loftin láku, klósettin láku og skítur út um allt, enga snaga og svo mætti lengi telja. Sturtan - no komment! Herbergin sjálf voru langflest útkrotuð með lafandi veggfóðri, matarleyfum í skápum, töluverður lífi um öll gólf, án snaga herðatrjáa. Hvorki loftkæling, sími né sjónvarp. Sumsé laust við allt NEMA óhreinindi! Ekki það að við höfðum búist við miklu en trúið mér að Frakklandsævintýrið varð allt í einu orðin vinarleg minning í hjörtum okkar sem þangað höfðum farið. Ég tók þá ákvörðun að allir skildu reyna að ná svefni og ég skildi taka á þessu á mánudagsmorgni. Það var að vísu afar erfitt að sofna og enn verra að sofa enda heitt og ógeðslegt í þessum brotnu og skítugu rúmum. Þegar ég gat ekki sofið lengur ákvað ég að skella mér í harkið og takast á við skítinn sem þetta hótel í heild sinni ER. Eftir nokkuð góðar móttökur hjá bæði aðstandendum hótelkeðjunar og aðstandendum mótsins fór aðeins að glæðast hjá okkur og flækjan að leysast. Einn fulltrúi hótelsins trúði mér fyrir því flest hótelin á svæðinu væru býsna léleg en þetta væri eitt af þeim verstu enda stæði til að jafna það við jörðu á nýju ári og byggja nýtt! Vá hvað ég var hissa! Hver myndi fórna slíkum gersemum?

Það verður þó að viðurkennast að það sem aðskilur þetta ævintýri frá því franska er fyrst og fremst hvernig á þessu var tekið hér á staðnum. Fulltrúi mótsins Sava sem nú er besta vinkona okkar Davíðs bauð okkur það sem við höfum núna. Heilt hús með 8 herbergjum, búnum mannsæmandi baðherbergjum, ísskáp, loftkælingu, sjónvarpi og flestu því sem við viljum búa við. Einnig höfum við stórt sameiginlegt rými með stofu, borðstofu og eldhúsi en megum svo rölta í 5 mínútur yfir á mun skárra hótel sem þó stendur ekki alveg undir nafni: Hótel Plaza - og þar megum við borða öll mál. Herbergin eru aðeins minni en nokkuð hrein - sennilega skínandi tær á mælikvarða heimamanna.

Jóhanna og Tinna við ströndinaÞað gekk reyndar ekki þrautarlaust að ferja okkur og töskurnar yfir á nýja staðinn vegna óeðlilega mikilla rigninga en það er bara notarlegt í hitanum að fá yfir sig smá gusur svona öðru hverju. Maturinn er svo efni í doktorsritgerð enda afar fátæklega útilátinn. Á nýja staðnum er mun áhugaverðari matur sem við getum valið sjálf af hlaðborði en á Igalo máttum við bara sitja kyrr og éta það sem kom á disknum til okkar. Vatnið er sjálfsagt framleitt úr gulli og vítamínbætt með demöntum enda leka evrurnar í þessa framleiðslu.

Það má þó benda á að á skákstað er feykilega góð aðstaða. Þar er bjart og snyrtilegt og getum við fylgst með af áhorfendapöllum og náum nokkuð góðri yfirsýn yfir staðinn. Það mætti vera aðeins öflugri loftræsting en í fyrstu umferð var þó ekki mikið meira en svona 22°c. Flest voru krakkarnir að tefla uppfyrir sig. Nokkur áttu samt góð úrslit eins og Hallgerður sem gerði jafntefli við stigahæstu stúlkuna í flokknum 16 ára og yngri. Sverrir gerði líka jafntefli við mjög sterkan andstæðing. Bæði Friðrik og Geirþrúður náðu líka jafnteflum. Hjörvar sigraði sinn andstæðing en hin töpuðu sínum skákum. Á morgun þriðjudag hefst svo önnur umferð kl. 15 á Svartfjallatíma og vonumst við til að krakkarnir verði mun betur hvíld og betur upplögð en í dag.

Með kveðju úr þrumum, eldingum og rigningu  mánudaginn 15. september

Edda Sveins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þessu frábæru skrif og myndir, Edda. Við bíðum spennt eftir meiru.  Og við sem héldum að Frakkland væri alveg sér á parti!

Hér eru svo upplýsingar um veðrið á suðvesturhorninu - svona til að draga úr heimþráinni!

Veðurhorfur næsta sólarhringinn: Viðvörun: Búast má við sunnanstormi í kvöld og nótt og mikilli rigningu S- og V-lands.

Bestu kveðjur.
Svanhildur

Svanhildur (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 15:24

2 Smámynd: Ingvar Þór Jóhannesson

Stórskemmtilega steaming pistill! Keep them coming :-)

Ingvar Þór Jóhannesson, 16.9.2008 kl. 16:34

3 Smámynd: Skák.is

Skemmtilegur pistill Edda.  Gangi ykkur vel.

Baráttukveðjur,
Gunnar

Skák.is, 16.9.2008 kl. 16:56

4 identicon

Kærar þakkir fyrir frábæran pistil. Krakkarnir eiga aldrei eftir að gleyma þessu hóteli, þetta verður alltaf "toppurinn". Bestu kveðjur og gangi ykkur vel.

Erla

Erla (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 18:16

5 identicon

Þessi pistil jafnast á við það besta sem skaphundurinn Ingvar Þór Jóhannesson hefur látið frá sér þegar að honum mislíkar eitthvað! Enda var kappinn fljótur að hrósa þér hér fyrir ofan :)

Afar gott að heyra að málið sé leyst og að þið séuð komin í mannsæmandi aðstæður. Það eflir örugglega stemminguna innan hópsins, sem þó var mikil fyrir, að vera öll saman í stóru húsi.

Skemmtið ykkur vel!

Baráttukveðjur,

Bjössi

P.s. Ég er að tryllast að fá ekki uppfærð úrslit á chess-results.com - Svartfellingar greinilega ekki lært þann íslenska sið að henda inn þeim úrslitum sem eru komin og uppfæra síðuna reglulega!

Bjössi Þorfinnss (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 19:25

6 identicon

Gott að vita af ykkur í góðum vistarverum. Kannast við þessar raunir því ég átti langar og strangar viðræður við hótelhaldara í London í sumar um sams konar málefni. 

Baráttukveðjur til ykkar allra. Knús, knús,

Der Alte og Co. 

Afi Kóp (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 22:22

7 identicon

Þetta hefur bara verið hreint frábært. Þetta var ekki svona slæmt í fyrra á HM í Tyrklandi og seinna hótelið þar var raunar bara allt í lagi.

Gangi ykkur vel þarna úti. 

Páll Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 22:50

8 identicon

Takk fyrir áþreifanlega vel skrifaða lýsingu, sérstaklega Hótel He..., hróður þess nær að berast víða, svona rétt fyrir niðurrifið. Sjálf hefði ég sennilega ekki lifað nóttina þar af og og því er ég hætt að ergja mig yfir að hafa ekki komist með. Ég bíð spennt eftir næsta bloggi. Gangi ykkur öllum vel í 3. umferð. Kveðja, Ella Friðriksmamma.

Elín Friðriksmamma (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband