Lífið við skákhöllina meðan beðið er.....

 

Þegar krakkarnir voru byrjaðir að tefla ákváðum við Hjördís að nú væri komin tími til að við færum í gönguferð um svæðið. Við gengum í átt að Igalo hryllingshótelsins en á leiðinni urðum við að ganga meðfram annarri hrörlegri byggingu sem við töldum vera hótel sem hlyti að vera í undirbúningi fyrir niðurrif. Nei það var ekki svo. Þetta var Institut Dr. Simo eitthvað. Þarna voru sjúkrabílar og skurðstofur af ýmsum gerðum. Við rákum augun í skilti sem vísaði leiðina að lýtalækningadeildinni og cosmetic surgery. Ef þetta er það sem fólk vill gera fyrir minni pening en á Íslandi þá held ég að það þurfi einhverskonar annarskonar aðgerðir en útlitsaðgerðir! Ég færi ekki hraust inn í þessa byggingu jafnvel þótt ég væri á launum leikara í Friends.

Eftir að hafa komist gegnum spítalalóðina lá leiðin niður á strönd sem er reglulega notaleg og kósí göngustígur meðfram henni allri. Við gengum þó nokkurn spöl frá skákhöllinni í átt að Villunni okkar en þó í verulegri fjarlægð frá Villunni. Meðfram ströndinni voru þessar týpísku strandasjoppur sem selja allt og ekkert, glyngur og rusl. Þarna var líka urmull af veitingastöðum sem flestir ilmuðu nokkuð vel. Alls staðar var hægt að finna girnilegan ís og þurftum við dívurnar bókstaflega að draga hvor aðra frá ísbúðunum enda fáum við ís í eftirrétt tvisvar sinnum á dag hér á hótelinu. Nú en inn á milli allra strandbúðanna mátti finna eina og eina fallega búð sem seldi gæðalegar vörur og þá kannski helst það sem okkur konum finnst afar áhugavert - SKÓR! Hér eru líka fallegar barnafataverslanir með gæðafatnaði á merkilega góðu verði þrátt fyrir kreppugengið sem er á evrunni.   Við rákum inn nefið í stóra súpermarkaðinn sem var með fínu vöruúrvali og hátt til lofts og vítt til veggja. Við komumst t.d. að því að svartfellingar borða reykt kjöt að hætti íslendinga.

Hér í Herceg Novi eru göturnar afskaplega þröngar. Svo þröngar að sjálf Birna Þórðardóttir sem er jú glæsikvendi sem gengur um dillandi mjöðmunum eins og heimsborgari, yrði keyrð út í vegg því engar eru gangstéttirnar og bílarnir ýta því öllu til hliðar sem dillist meðfram götunum. Það er kannski þess vegna sem það eru bara nokkrir alvöru bílar í bænum en flestir eru þeir með hliðarspeglana lafandi á einni snúru meðfram bílunum því það er löngu búið að keyra þá niður.  Einstefnugöturnar eru bara einstefnur á pappírum og samkvæmt skiltum. Ekki í augum íbúa. Ef þeir þurfa að snúa við og keyra til baka, þá bara gera þeir það. Jafnvel þótt það sé ekki vinnandi vegur að snúa bílkvikindinu við á punktinum. Í dag sem og aðra daga fórum við upp í strætó af árgerðinni 1950 sem var keyrður ca 590.000 km eða meira. Hann hafði einhverntímann fullnægt þörfum lundúnarbúa en gefin til Svartfjallalands þegar var verið að safna dósum til styrktar Igalo hótelsins. Þetta er svona liðamótastrætó sem er ofur langur og inn í hann er hægt að troða 124 mannverum og 124.000 túnfiskum eða svo heldur bílstjórinn amk því ekki lokar hann hurðinni fyrr en 2-3 eru orðnir bláir í framan og einhver byrjaður að kasta upp. Þá er komin tími til að leggja af stað! Mengunin frá vagninum liggur svo beint inn í hann þar sem við hóstum hvert á annað og horfum upp í loftin eftir súrefni og sjáum að það er búið að skrúfa niður öll neyðarop í þaki bílsins. Eini ljósi punkturinn í þessari aumu veru í vagninum er sá möguleiki að geta tekið nokkrar hressilegar upphífur í láréttu rimlunum sem eru hugsaðir til að halda sér í (sem þarf náttúrulega ekki því það er svo þröngt að ekkert getur færst til).  Svo opnar maður augun og áttar sig á því að jafnvel þótt það væru helmingi færri í vagninum þá myndi ég samt sparka í 12 manns svona rétt á meðan ég tæki þá fyrstu. En eftir það yrðu næstu 20 ekkert mál!

En talandi um upphífur! Þá lögðum við Hjördís leið okkar inn á allra versta hótelið við ströndina. Hótel Tamaris. Okkur hafði jú verið tjáð um það að þrátt fyrir að hótelið væri það allra slakasta þá væri þar „privat gym" eins og maðurinn orðaði það með stoltan glampa í augunum. Já ég veit varla hvað ég á að segja. Þetta var gym og það voru nokkur tæki, þar var þjálfari sem naut þess að þjálfa tvær ungar konur sem voru bara að dúllast þarna inni. Hann var líka mjög lipur og stoltur að sýna okkur Hjördísi aðstæðurnar og bauð okkur velkomnar fyrir aðeins 3 evrur - one time! Mikið andskoti sem var skítugt, þröngt og lágt til lofts þarna inni. En ég er samt að hugsa um að skella mér þarna inn á morgun og fá smá útrás fyrir yfirvofandi vöðvaóróleika! Það er nú samt ágætur hreyfimórall í hópnum og þá sérstaklega fullorðna fólkinu sem veit hvað þetta er hollt og gott. Stefán gengur um allt og er gjarnan með körfuboltann við hendina og alltaf skoppar Friðrik með eins og hann hafi takmarkalausa orku. Friðgeir er líka afar sprækur og hleypur eins og sjálfur Hasselhof meðfram ströndinni á hverjum morgni. Kemur lafmóður og sveittur inn og teygir eins og sannur hlaupari. Sjálf skellti ég mér í galllann í morgun og hljóp en þarf nauðsynlega að fara að gera eitthvað meira.

Í dag fengum við fleiri vinninga en í gær. Þetta var til dæmis góður dagur hjá stelpunum sem fengu 3 af 4 þegar Jóhanna, Hallgerður og Geirþrúður unnu en Tinna tapaði. Hjá strákunum var meira um svona jafntefli og solleis! Hjörvar og Friðrik gerðu jafntefli en Sverrir Daði og Patrekur töpuðu. Patti skrapp svo í göngutúr í stóra súpermarkaðinn en fann bara músikbúð og keypti sér fjóra geisladiska hvern öðrum ljúfari, Sound of Music, Flashdance, Xanadu og svo sýndist mér sá síðasti vera Panthom of the Opera en ég er ekki alveg viss!!!

Hér að ofan var skrifað í gærkvöldi (17. sept) en í dag hefur netsambandið verið lélegt og nú erum við komin heim af skákstað og búin að borða kvöldmat. Leikar fóru þannig að Hjörvar, Friðrik, Hallgerður og Geirþrúður gerðu jafntefli, Patrekur, Jóhanna og Daði unnu en Tinna, Sverrir og Dagur  töpuðu sínum skákum. Á hverjum degi fáum við aðeins fleiri vinninga en daginn á undan. Við byrjuðum með 3 síðan 3,5 og í gær 4 en í dag fengum við 5 góða vinninga og má geta þess að Dagur var með unna stöðu gegn um 2200 stiga manni en missti niður stöðuna. Á morgun föstudag er svo síðasta umferð fyrir frídaginn sem við ætlum að nýta vel!

Bless í bili,
Edda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir enn einn litríkan pistil. Þú færir okkur sem heima sitjum bæjarbraginn beint í æð. Gaman að heyra líka af búðunum, sem eru óumdeilanlega það mikilvægasta á hverju ferðalagi. Meiri skófréttir, takk!

Börnin standa sig aldeilis frábærlega í taflinu, allir nú þegar komnir á blað á þessu sterka móti. Tímasería heildarvinninga stefnir látlaust upp á við, megi það halda áfram sem lengst. Það er mikið hugsað til ykkar og pistlar bæði Eddu og Davíðs vel vaktaðir. Gangi öllum vel í 5. umferð!

Elín Friðriksmamma (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 19:40

2 identicon

Búðir og skór nei takk. held ég snúi mér bara alfarið að pistlunum hans Davíðs.

En þetta er allt að koma.

Strákarnir taka næstu umferð. (líka hlutfallslega)

gangi ykkur sem best.

Páll Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband