19.11.2007 | 09:38
Limra hótel eða Limra Park hótel?
Við lögðum af stað um kl. 5 á laugardagsmorgni og hittist hópurinn kampakátur á Leifsstöð vel fyrir kl. 6. Þar skipti greinilega máli hvort fólki ætti stafinn H fremst í nafninu sínu því aðeins þeir fengu að tékka inn farangurinn sinn alla leið til Antalya! Við hin sem heitum alls konar öðruvísi nöfnum urðum að sæta lagi og eyða norska tímanum okkar í því að sækja farangurinn og tékka hann aftur inn. Eftir það var ráfað um flugstöðina þar til norsurunum þóknaðist að bjóða okkur um borð og já þetta var býsna tómleg vel sem skilaði okkur þó á áfangastað á réttum tíma. Við komuna til Antalya biðum við fyrir utan flugstöðina eftir norðmönnum sem ekki fengu töskurnar sínar en þeir áttu að vera samferða okkur til Kemer. Allt tókst þetta að lokum og vorum við orðin býsna lúin þegar liðinu var mokað inn á Limra hotel rétt um kl. 22. Við tók biðröð 1, 2 og 3 þar sem við fengum 1 stimpil, 2 myndatöku og 3 passann okkar! Þá var komið að því að fá herbergin okkar. Huumm! Herbergin, já sko þá þurfið þið að gang út, niður götuna, til vinstri og fara yfir götuna þar og á hótelið sem er í myrkrinu þar! Það var ekki alveg það sem við höfðum pantað og greitt fyrir og þar sem frú Edda var frekar þreytt og ekki alveg til í enn eitt Frakklandsævintýri tók ég á rás til baka út í myrkrið, yfir götuna, til hægri og upp götuna að 5 stjörnu hótelinu. Þegar ég settist á móti Mr. Koran frá tyrkneska skáksambandinu var augljóst að frúin var í ham enda rauk úr eyrunum og nasavængirnir blöktu. Þegar yfir lauk var búið að lofa okkur öllum þeim lúxus sem okkur var seldur í upphafi og skildi það afgreiðast kl. 10 næsta dag. Allir fóru þá býsna sáttir í kvöldverð og skriðum undir lakið um og eftir miðnætti. Fólk svaf reyndar misvel og vöknuðu einhverjir við bænakall heimamanna undir 6 í morgun. Trúlega eitthvað sem venst með tímanum en er alltaf jafn skrítið fyrir okkur sem þekkjum þetta ekki.Morgunmaturinn var nokkuð fjölbreyttur og var Hildur Berglind hamingjusamari en oft áður að morgni þegar hún gat fengið nýbakaðar amerískar pönnukökur með tilbehör. Nutella súkkulaðismjör á smjörkexið og girnilega ávaxtasafa af ýmsum gerðum. En kl. 10 fengum við ekki herbergin sem búið var að lofa. Frú Edda fór fljótlega í ham aftur enda full ástæða til og benti Mr. Koran á að heiður hans væri í húfi því ég hefði nú ekki gleymt einu orði af fagurgali hans frá því kvöldinu áður. Eitthvað brá prinsinum yfir því að ljóshærða hjúkkan úr Kópavogi væri eins ákveðin og raun ber vitni og setti því allt í gang í annað sinn en í þetta sinn máttum við bíða til kl. 17. Í ljósi þess að aðstaða til undirbúnings var fráleit náðist lítið að undirbúa krakkana sem reyndu þó að æfa sig með taflborðin á rúmunum hjá Helga og Palla. Kl. 14.30 byrjuðu ungir skákmenn að streyma inn á skákstað sem var algjörlega til fyrirmyndar að flestu leyti en þó má segja að stúlkur u-14 séu með verulega slakan sal sem er þröngur og loftlaus og var Jóhanna hálfskrítin í framan þegar hún kom út! Foreldar og þjálfarar fengu að koma inn þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og gekk allt ljómandi vel fyrir sig. Krakkarnir hafa aðgang að djúsbar og vatni enda nokkuð heitt. Pörunin í fyrstu umferð var nokkuð misjöfn og flestir tefldu upp fyrir sig en aðeins tveir náðu að stúdera almennilega fyrir umferðina. Hjörvar , Hallgerður og Dagur Andri unnu sínar skákir en hinir náðu ekki vinning að svo stöddu en tefldu flest mjög vel.Og svo varð klukkan 17 og hvað? Nei því miður það er verið að þrífa herbergin og sum verða í útihúsunum. Þá brá nú mörgum því þeir sem höfðu séð fátæklegt herbergi stórmeistarans vissu að það var ekki vænlegt til vinnings enda hann í því allra minnsta og dapurlegasta herbergi sem sést hefur í Tyrklandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Má segja að þarna hafi gripið um sig ákveðin skelfing og setti ég aftur í hörkugírinn. Mr. Koran var eitthvað að malda í móinn en þá kom þessi yndislega stúlka úr lobbýinu og sagðist ætla að ganga frá þessu fyrir okkur. Hún lofaði að allir fengju góð herbergi, betri og stærri en á Limra Park hotel sem var í myrkrinu hinu megin við götuna en þau yrðu ekki laus fyrr en kl.20. Á þeirri stundu vorum við orðin verulega þreytt á ástandinu þar sem við höfðum í raun verið á vergangi í allan dag. Við skelltum okkur í kvöldmatinn þegar krakkarnir voru komin af skákstað og fengum okkur í svanginn og má segja að þrátt fyrir mjög fjölbreyttan mat þá er tyrknesk matargerð ekki mjög hátt skrifuð hjá okkur ennþá. En mikið er þó um gott grænmeti sem bjargar málunum. Krakkarnir eru líka alsæl með desertana sem eru í öllum heimsins litum, grænir, bláir, bleikir osfrv. En kl. 20 fórum við síðustu ferðina í lobbýið þar sem stúlkan var að verða tilbúin með nýja herbergislykla. Og viti menn eftir sólarhrings vergang fengu allir ný herbergi í Limra hotel aðalbyggingunni og svo miklu miklu stærri og betri. Svo nei Frakklandsævintýri verður þetta ekki þrátt fyrir brösótta byrjun. Þegar þetta er skrifað eru flestir að koma sér fyrir í nokkuð góðum herbergjum og bíðum við nú eftir pöruninni fyrir næstu umferð. Palli er að þjálfa yngri krakkana og fara yfir skákirnar þeirra og einhverjir eru hjá Helga.
Hér í Antalya er búið að vera fallegt og gott veður í mest allan dag. Fljótlega eftir kl. 15 fór að þykkna upp og hefur verið létt rigning í kvöld. Það dimmir fljótlega eftir kl. 16 en himininn var þó reyndar vel upplýstur vegna magnaðra þruma og eldinga. Á morgun kemur nýr og enn betri dagur í Antalya þar sem allir verða ljómandi kátir og vel stemmdir og munu verða landi og þjóð til sóma.
Það er svolítið erfitt að ná sambandi á mbl og íslenskar síður svo treglega hefur gengið að pósta færslurnar. Ég held þó ótrauð áfram og ætla mér að standa mig sem skrásetjari ferðarinnar.
Með kveðju í kuldann á Íslandi
Edda
Um bloggið
Edda Sveinsdóttir
Tenglar
Skáktenglar
- Skákfréttir
- Skáksamband Íslands Heimasíða Skáksambands Íslands
- Taflfélagið Hellir Heimasíða Taflfélagsins Hellis
- Salaskólaskák Heimasíða Salaskóla
- Taflfélag Garðabæjar Heimasíða Taflfélags Garðabæjar
- Skákdeild Fjölnis Heimasíða Skákdeildar Fjölnis
- Skákskóli Íslands Heimasíða Skákskóla Íslands
- FIDE Heimasíða Alþjóðaskáksambandsins
- The week in chess
- Heimasíða heimsmeistaramótsins
Líkamsræktin
- Crossfitþjálfun crossfit.com
- CrossFit í Sporthúsinu CrossFit
- Þjálfun.is Þjálfun.is
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott að vita að allt gengur loksins vel. Allir komnir á sinn stað. Ég sendi ykkur baráttukveðjur og óska ykkur alls hins besta.
Kær kveðja
Anna Björg Thorsteinson
Anna Björg (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 12:23
Glæsileg frammistaða. Nei, það valtar enginn yfir kópavogshjúkkur! Sérstaklega ekki ef þær eru ljóshærðar!
Kveðjur héðan út og til hamingju með nýju herbergin. Ég sendi meil út í gær og sagði honum að þið væruð öll í TR og ættuð því rétt á betri herbergjum!! haha.
En jæja, baráttukveðjur
Snorri
Snorri Bergz, 19.11.2007 kl. 12:27
Gaman að lesa pistilinn. Ég sendi baráttukveðjur út. Ekki gleyma að hafa gaman að þessu.
Hrannar Baldursson, 19.11.2007 kl. 13:53
Já mikið er nú hópurinn heppinn að hafa Eddu með í för! og alla hennar fjölskyldu að sjálfsögðu. Spes kveðja til Dags Andra frá mér (joklab.) Kær kveðja Ásta Kristín
Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 15:08
Þetta er skemmtileg lesning. Það er ekki ónýtt okkur sem heima sitjum að hafa foreldri eins og Eddu með í för. Takk kærlega, Edda. Ég hlakka til að lesa næstu færslu.
Bestu kveðjur.
Svanhildur Kr. Sverrisdóttir
Svanhildur Kr. Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 17:37
Góð Edda!!! Það þýðir ekkert nema harkan sex! Þeir hafa ekki vitað á hverju þeir áttu von hjá ljóshærðu hjúkkunni úr Kópavoginum! Takk fyrir líflegan pistil og við hlökkum mikið til að fá að fylgjast með ykkur - sendu endilega líka myndir ef þú getur, bestu kveðjur til allra, við erum stolt af ykkur! Lilja
Guðfríður Lilja (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.