20.11.2007 | 13:01
Önnur umferð á HM
Í morgun, mánudaginn 19. Nóvember var loksins komin ágætis rútína á hópinn. Krakkarnir mættu hvert á fætur öðru hjá þjálfurunum frá morgni til rúmlega tvö en hópurinn náði þó að taka sér stund til snæðings. Skiptar skoðanir eru á matnum en þrátt fyrir að vera fjölbreyttur þá er spagettí , hrísgrjón og hvítt brauð vera megin uppistaða í fæðuvali margra. Þá á ég reyndar ekki við íslenska hópinn neitt sérstaklega en það hefur óneitanlega vakið athygli mína hve margir hér á mótinu virðast lifa á hvítu brauði sem skorið er í 10 cm þykkar sneiðar og fylla matardiska margra barna!
Ég get nú bara dáðst að krökkunum okkar hve dugleg þau eru að liggja yfir skákborðunum og tölvunum milli þess sem þau hitta þjálfarana og mæta á skákstað. Nokkur þeirra hafa bókstaflega stúderað frá því þau vöknuðu og fram að umferð. Ég dró mínar tvær í göngutúr eftir hádegismatinn svona rétt til þess að viðra þær og kom hótelgarðurinn skemmtilega á óvart. Þrátt fyrir að hér sé komið haust er virkilega fallegt umhverfi og nóg um að vera. Það er áreiðanlega mjög mikið stuð hér yfir sumartímann enda gríðalegt úrval sundlauga, vatnsrennibrauta ofl. Á hótelinu er líka töluvert af eldri borgurum sem virðast njóta sín hér við að spila, dans og skemmta sér. Í garðinum var líka boðið upp á magadanskennslu og ekki laust við að maður hafi verið farin að dilla sér í takt við músikina enda mjög grípandi. Undir lok göngutúrsins var Jóhanna Björg orðin óþreyjufull og vildi ólm komast í tölvuna og undirbúa sig enda átti ekkert að gefa eftir í dag. Hildur Berglind og Hrund tóku líka góðar æfingar og mætu sprækar til leiks í dag. Það má segja að þrautseygja hafi verið í íslensku keppendunum en allir notuðu tímann sinn mjög vel í dag og var sú yngsta fyrst út eftir tæplega tveggja tíma törn en því miður með tapað. Einhver uppákoma varð milli hennar og þeirrar rússnesku sem varð til þess að Hildur varð að tefla lélegum leik sem olli lélegri stöðu hjá henni. Má segja að hún hafi verið frekar fúl en það var nú fljótt að ganga yfir og ætlar hún bara að standa sig enn betur á morgun! Um kl. 18 fóru þessi eldri að týnast út úr skáksalnum hvert á fætur öðru. Fóru leikar þannig að Jóhanna, Elsa og Sverrir unnu sínar skákir og Svanberg gerði jafntefli. Í kvöld hefur svo verið farið yfir allar skákirnar og þegar pörunin kemur verður hópurinn tekin í smá undirbúning fyrir morgundaginn. Þess má geta að pörun var ekki birt fyrr en snemma í morgun. Það olli smá óánægju meðal krakkana en þjálfararnir voru tilbúnir með allt þegar þau mættu í morgun svo það kom alls ekki að sök.
Í dag var líka lokað á foreldra og aðra en aðalþjálfara inn á skákstað, þar af leiðandi var mun meiri friður inni hjá krökkunum en stressaðir foreldrar og aðstoðarþjálfarar gengu um gangstéttirnar fyrir utan. Helgi sem var með VIP passann kom reglulega út og vorum við orðin býsna sterk í að lesa úr svip meistarans. Það ríkir mikil gleði meðal þáttakenda og góð stemmning í öllum hópnum. Eldri krakkarnir sýna þeim yngri virðingu og eru dugleg að tefla við þau og leyfa þeim að vera með. Þó er stutt í alvöruna og þau eru dugleg við að hvetja hvert annað og styðja vel við bakið hver á öðru. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessum félagsskap og upplifa allt sem þessu fylgir. Þrír vinningar í gær, þrír og hálfur í dag og á morgun gerum við enn betur!Með baráttukveðjum úr LimrahöllinniÍþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 09:38
Limra hótel eða Limra Park hótel?
Við lögðum af stað um kl. 5 á laugardagsmorgni og hittist hópurinn kampakátur á Leifsstöð vel fyrir kl. 6. Þar skipti greinilega máli hvort fólki ætti stafinn H fremst í nafninu sínu því aðeins þeir fengu að tékka inn farangurinn sinn alla leið til Antalya! Við hin sem heitum alls konar öðruvísi nöfnum urðum að sæta lagi og eyða norska tímanum okkar í því að sækja farangurinn og tékka hann aftur inn. Eftir það var ráfað um flugstöðina þar til norsurunum þóknaðist að bjóða okkur um borð og já þetta var býsna tómleg vel sem skilaði okkur þó á áfangastað á réttum tíma. Við komuna til Antalya biðum við fyrir utan flugstöðina eftir norðmönnum sem ekki fengu töskurnar sínar en þeir áttu að vera samferða okkur til Kemer. Allt tókst þetta að lokum og vorum við orðin býsna lúin þegar liðinu var mokað inn á Limra hotel rétt um kl. 22. Við tók biðröð 1, 2 og 3 þar sem við fengum 1 stimpil, 2 myndatöku og 3 passann okkar! Þá var komið að því að fá herbergin okkar. Huumm! Herbergin, já sko þá þurfið þið að gang út, niður götuna, til vinstri og fara yfir götuna þar og á hótelið sem er í myrkrinu þar! Það var ekki alveg það sem við höfðum pantað og greitt fyrir og þar sem frú Edda var frekar þreytt og ekki alveg til í enn eitt Frakklandsævintýri tók ég á rás til baka út í myrkrið, yfir götuna, til hægri og upp götuna að 5 stjörnu hótelinu. Þegar ég settist á móti Mr. Koran frá tyrkneska skáksambandinu var augljóst að frúin var í ham enda rauk úr eyrunum og nasavængirnir blöktu. Þegar yfir lauk var búið að lofa okkur öllum þeim lúxus sem okkur var seldur í upphafi og skildi það afgreiðast kl. 10 næsta dag. Allir fóru þá býsna sáttir í kvöldverð og skriðum undir lakið um og eftir miðnætti. Fólk svaf reyndar misvel og vöknuðu einhverjir við bænakall heimamanna undir 6 í morgun. Trúlega eitthvað sem venst með tímanum en er alltaf jafn skrítið fyrir okkur sem þekkjum þetta ekki.Morgunmaturinn var nokkuð fjölbreyttur og var Hildur Berglind hamingjusamari en oft áður að morgni þegar hún gat fengið nýbakaðar amerískar pönnukökur með tilbehör. Nutella súkkulaðismjör á smjörkexið og girnilega ávaxtasafa af ýmsum gerðum. En kl. 10 fengum við ekki herbergin sem búið var að lofa. Frú Edda fór fljótlega í ham aftur enda full ástæða til og benti Mr. Koran á að heiður hans væri í húfi því ég hefði nú ekki gleymt einu orði af fagurgali hans frá því kvöldinu áður. Eitthvað brá prinsinum yfir því að ljóshærða hjúkkan úr Kópavogi væri eins ákveðin og raun ber vitni og setti því allt í gang í annað sinn en í þetta sinn máttum við bíða til kl. 17. Í ljósi þess að aðstaða til undirbúnings var fráleit náðist lítið að undirbúa krakkana sem reyndu þó að æfa sig með taflborðin á rúmunum hjá Helga og Palla. Kl. 14.30 byrjuðu ungir skákmenn að streyma inn á skákstað sem var algjörlega til fyrirmyndar að flestu leyti en þó má segja að stúlkur u-14 séu með verulega slakan sal sem er þröngur og loftlaus og var Jóhanna hálfskrítin í framan þegar hún kom út! Foreldar og þjálfarar fengu að koma inn þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og gekk allt ljómandi vel fyrir sig. Krakkarnir hafa aðgang að djúsbar og vatni enda nokkuð heitt. Pörunin í fyrstu umferð var nokkuð misjöfn og flestir tefldu upp fyrir sig en aðeins tveir náðu að stúdera almennilega fyrir umferðina. Hjörvar , Hallgerður og Dagur Andri unnu sínar skákir en hinir náðu ekki vinning að svo stöddu en tefldu flest mjög vel.Og svo varð klukkan 17 og hvað? Nei því miður það er verið að þrífa herbergin og sum verða í útihúsunum. Þá brá nú mörgum því þeir sem höfðu séð fátæklegt herbergi stórmeistarans vissu að það var ekki vænlegt til vinnings enda hann í því allra minnsta og dapurlegasta herbergi sem sést hefur í Tyrklandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Má segja að þarna hafi gripið um sig ákveðin skelfing og setti ég aftur í hörkugírinn. Mr. Koran var eitthvað að malda í móinn en þá kom þessi yndislega stúlka úr lobbýinu og sagðist ætla að ganga frá þessu fyrir okkur. Hún lofaði að allir fengju góð herbergi, betri og stærri en á Limra Park hotel sem var í myrkrinu hinu megin við götuna en þau yrðu ekki laus fyrr en kl.20. Á þeirri stundu vorum við orðin verulega þreytt á ástandinu þar sem við höfðum í raun verið á vergangi í allan dag. Við skelltum okkur í kvöldmatinn þegar krakkarnir voru komin af skákstað og fengum okkur í svanginn og má segja að þrátt fyrir mjög fjölbreyttan mat þá er tyrknesk matargerð ekki mjög hátt skrifuð hjá okkur ennþá. En mikið er þó um gott grænmeti sem bjargar málunum. Krakkarnir eru líka alsæl með desertana sem eru í öllum heimsins litum, grænir, bláir, bleikir osfrv. En kl. 20 fórum við síðustu ferðina í lobbýið þar sem stúlkan var að verða tilbúin með nýja herbergislykla. Og viti menn eftir sólarhrings vergang fengu allir ný herbergi í Limra hotel aðalbyggingunni og svo miklu miklu stærri og betri. Svo nei Frakklandsævintýri verður þetta ekki þrátt fyrir brösótta byrjun. Þegar þetta er skrifað eru flestir að koma sér fyrir í nokkuð góðum herbergjum og bíðum við nú eftir pöruninni fyrir næstu umferð. Palli er að þjálfa yngri krakkana og fara yfir skákirnar þeirra og einhverjir eru hjá Helga.
Hér í Antalya er búið að vera fallegt og gott veður í mest allan dag. Fljótlega eftir kl. 15 fór að þykkna upp og hefur verið létt rigning í kvöld. Það dimmir fljótlega eftir kl. 16 en himininn var þó reyndar vel upplýstur vegna magnaðra þruma og eldinga. Á morgun kemur nýr og enn betri dagur í Antalya þar sem allir verða ljómandi kátir og vel stemmdir og munu verða landi og þjóð til sóma.
Það er svolítið erfitt að ná sambandi á mbl og íslenskar síður svo treglega hefur gengið að pósta færslurnar. Ég held þó ótrauð áfram og ætla mér að standa mig sem skrásetjari ferðarinnar.
Með kveðju í kuldann á Íslandi
Edda
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.11.2007 | 22:07
Hildur Berglind sigraði Geir H. Haarde í hraðskák í dag!
Í dag hittist hópurinn í Faxafeninu og voru allir býsna kátir og spenntir fyrir ferðinni. Fjölmargir blaðamenn mættu á staðinn og var fljótt ljóst hver var stjarna dagsins. Eftir hópmyndatökuna settist Hildur Berglind pollróleg við taflborðið (að sjálfsögðu við hvítu mennina) og beið eftir andstæðingnum. Geri H. Haarde settist gegnt henni og tókust þau í hendur. Það er skemmst frá því að segja að bæði tefldu með nokkru öryggi en Hildur "lagði fyrir hann gildruna sína" og "hann hefði getað fært biskupinn en hann bara gerði það ekki!" Þar með var hún búin að vinna forsætisráðherra Íslands á aðeins örfáum mínútum. Ljósmyndararnir tóku mikið af myndum og voru viðtöl tekin við báðar systurnar, Hildi og Jóhönnu. Geir sat þó áfram við skákborðið og tefldi af miklum móð við flesta hina krakkana og héld ég að ég hafi séð til hans og Lilju tefla í lokin. Hjörvar og Hallgerður unnu bæði eftir harða baráttu en því miður veit ég ekki hvernig gekk hjá hinum.
Guðfríður Lilja og Óttar tóku svo sannarlega vel á móti hópnum með skemmtilegum ræðum og veitingarnar voru ljúffengar. Við þökkum kærlega vel fyrir okkur nú að kvöldi næst síðasta dags fyrir brottför :o)
Kveðja,
Edda
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.11.2007 | 13:08
Móttaka fyrir heimsmeistaraMÓTSfarana
Í dag fimmtudaginn 15. nóvember kl. 16 verður móttaka fyrir heimsmeistarafarana í húsnæði TR í Faxafeninu. Þar munu þau taka á móti meðal annars fjölmiðlum, forsætisráðherra og fulltrúa Kaupþings sem er aðalstyrktaraðili ferðarinnar. Boðið verður upp á veitingar og allir vinir og vandamenn hvattir til þess að mæta.
Að athöfninni lokinni verður ekkert gefið eftir því þá hefst síðasta formlega æfingin fyrir mótið
Hlökkum til að sjá ykkur
Edda
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2007 | 23:51
Undirbúningur fyrir Heimsmeistarmót barna og unglinga í Antalya 2007
Verið velkomin á heimasíðu barna og unglinga sem keppa á Heimsmeistarmóti barna og unglinga í Antalya í Tyrklandi dagana 17.-29. nóvember 2007. Ætlunin er að skrá á síðuna það sem drífur á daga hópsins á meðan á mótinu stendur. Í hópnum eru níu kappsamir krakkar en mörg þeirra hafa áður keppt á þessu móti undanfarin ár. Upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu þess (sjá tengil) en ég reikna með að úrslit verði birt þar jafnóðum auk þess sem ég geri ráð fyrir að skrifa daglega um leiki dagsins. Veit þó ekki hvort ég verði sjálf með djúpar pælingar um hverja og eina skák en þjálfarar hópsins geta kannski komið þar sterkir inn!
Íslensku krakkarnir eru:
Hjörvar Steinn Grétarsson U-14
Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir U-16
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir U-14
Svanberg Pálsson U-14
Elsa María Kristínardóttir U-18
Sverrir Þorgeirsson U-16
Dagur Andri Friðgeirsson U-12
Hrund Hauksdóttir U-12
Hildur Berglind Jóhannsdóttir U-8
Keppt er í stelpu og strákaflokkum en Hjörvar Steinn og Svanberg eru einu tveir sem lenda í sama aldursflokki. Hildur Berglind er jafnframt yngsti keppandi sem farið hefur á þetta skákmót fyrir Íslands hönd og verður því gaman að fylgjast með.
Krakkarnir hafa undanfarnar vikur verið í stífri þjálfun, flestir hjá kennurum Skákskóla Íslands. Helstu kennarar eru Helgi Ólafsson, Omar Salama, Lenka Ptacnikova, Davið Ólafsson, Snorri Bergsson ofl. og kunnum við þeim bestu þakkir.
Fararstjórn og þjálfun á sjálfu mótinu er í höndum Páls Sigurðssonar, Helga Ólafssonar og Braga Kristjánssonar.
Mótið er haldið í Antalya sem tilheyrir tyrknesku riverunni og hljómar það býsna vel í eyru þeirra sem tóku þátt á mótinu 2005 þegar það var haldið í Belfort í Frakklandi. Þar gistu börnin og foreldrar þeirra í afar dapurlegri gistingu en það sem var verst var sjálfur skákstaðurinn en teflt var í illa loftkældri skautahöll í allt að 40°hita. Í ár er mótið haldið á fimm stjörnu LIMRA hotel sem rúmar víst alla þátttakendur, aðstandendur og mótið sjálft. Mjög vel er látið af staðnum og því þó nokkur tilhlökkun í hópnum.
Ég hvet alla sem hafa áhuga að fylgjast með síðunni í nóvember og skrifa skilaboð og hvetja krakkana áfram.
Með kveðju,
Edda Sveinsdóttir
Íþróttir | Breytt 14.11.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Edda Sveinsdóttir
Tenglar
Skáktenglar
- Skákfréttir
- Skáksamband Íslands Heimasíða Skáksambands Íslands
- Taflfélagið Hellir Heimasíða Taflfélagsins Hellis
- Salaskólaskák Heimasíða Salaskóla
- Taflfélag Garðabæjar Heimasíða Taflfélags Garðabæjar
- Skákdeild Fjölnis Heimasíða Skákdeildar Fjölnis
- Skákskóli Íslands Heimasíða Skákskóla Íslands
- FIDE Heimasíða Alþjóðaskáksambandsins
- The week in chess
- Heimasíða heimsmeistaramótsins
Líkamsræktin
- Crossfitþjálfun crossfit.com
- CrossFit í Sporthúsinu CrossFit
- Þjálfun.is Þjálfun.is
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar