16.4.2008 | 16:54
Jarðgöng til Vestmannaeyja!
Vá hvað þetta er fljótt að líða. Bara ein æfing eftir og svo keppnin. Í morgun mætti ég fyrir hálf sjö og tók nokkuð létta æfingu með hópnum. Svona klassískur Reynir sem var þar á ferðinni en þó tiltölulega dempraður þannig að ég geri ekki ráð fyrir harðsperrum eða nokkru slíku enda tók æfingin bara 9:09 mínútur! Eftir það voru línurnar settar og allir komnir í hörku keppnisfíling. Ég er ekki frá því að fæturnir séu aðeins betri enda fór hún Rut mín mjúkum en aflmiklum höndum sínum yfir skankana og aðra vöðva í gærkvöldi. Ég er því bara nokkuð vel stemmd og hlakka bara mikið til. Í dag hef ég verið að pakka eldri dætrunum niður enda þær að fara í flug með eiginmanninum í fyrramálið. Ég, Elín Edda og Þórdís erum líka að verða ferðafærar enda ætlum við að leggja í hann fljótlega eftir lokaæfinguna. Þetta er allt orðið svo vel planað að jafnvel þó eitthvað klikki þá er plan B og C algjörlega á hreinu!
Á eftir förum við hjónin á Jazzballettsýningu hjá dansskóla Birnu Björns þar sem hún Hildur okkar ætlar að taka sporið í gellufötunum sem hún vældi út úr móður sinni í Benetton um daginn. Þetta eru svakalega flottar sýningar og ekki laust við að ég hlakki til. Í framhaldi af sýningunni er svo ferðafundur og myndatökur af NM stúlkunum sem eru á leið til Noregs þar af leiðandi kemur það sér vel að vera langt komin í ferðatöskurnar enda verður klukkan orðin ansi margt þegar við komum heim í kvöld til að klára að pakka niður.
Pollýanna sem ég leitaði af og fann er hjá mér svo sterk á þessari stundu. Þarf þó reyndar ekki alveg að treysta á hana 100% því ég hef mikla trú á sjálfri mér fyrir þessa keppni. Það er deginum ljósara að jákvætt hugarfar hefur komið mér þangað sem ég er í dag en þeir sem mig þekkja vita fyrir víst að ég trúi hvorki á bölsýni né annars konar neikvæðni. Ég er þó mannleg eins og allir og á mínar vonleysistilfinningar en sem betur fer hefur mér lærst með árunum að ég er fær um að flytja fjöll ef ég set viljann í verkið. Stundum þarf ég klettinn minn til þess að hjálpa mér að taka stórar ákvarðanir sérstaklega ef þær geta haft áhrif á fjölskylduna eins og þessi þátttaka mín óneitanlega gerir. Ég tala ekki um annað, hugsa ekki um annað og geri lítið annað en að stúdera og æfa fyrir Þrekmeistarann. Ég veit hvaða árangri ég er búin að ná. Ég veit hvaða árangri mig langar að ná og ég veit hvaða tíma ég mun ná og það verður ekkert sem stöðvar mig.
Í fyrsta sinn á ævinni tek ég eitthvað jafn sjálfselskt verkefni fram yfir börnin mín (þe. dæturnar tvær sem eru á leið til Noregs og gerðu ráð fyrir mér þar). Þótt Tommi sé nú orðin svolítið þreyttur á pælingum um hlaupatíma og þyngdum í bekknum þá er hann hrikalega stoltur af mér og því sem mér hefur áunnist sl. vikur. Þrátt fyrir að þreytan hafi stundum náð yfirhöndinni er ég gríðalega ánægð með ákvörðunina, árangurinn og nýja líkamann. Ég mun taka þátt aftur að ári liðnu og þá verð ég búin að vinna upp mjög gott grunnþol svo ég mun brjóta 20 mínútna múrinn með svo miklum stæl að íþróttahöll Akureyrar myndar sjálfkrafa jarðgöng til Vestmannaeyja
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2008 | 14:06
Aðeins fimm dagar....
Jæja nú var mætt á æfingu í morgun eftir helgarhvíld. Er reyndar ferlega slæm í fótunum og eru mjaðmirnar farnar að kvarta hástöfum síðasta sólarhring. Í morgun hitti ég Reyni, Leif og Annas í crossfit horninu og fékk ég smá aukabúst frá þeim þótt drusluleg hafi verið. Ákvað að taka ekki alltof stífa æfingu þar sem ég þarf eiginlega bara að safna kröftum fyrir laugardaginn. Tók því hluta úr Þrekmeistarnum en ekki á fullum hraða.
Hjól 2km á level 7
Þrekstiginn á level 10 í 10 mínútur
Niðurtog 25 kg x 50
Fótalyftur x 60
Armbeygjur x 30
Uppstig 5kg í hvorri x 100 (ákvað að taka tímann 3:50)
Uppsetur x 60 (án pásu og alla leið - jibbý)
Teygði svo geðveikt vel og fór heim að olíubera eldhúsborðplöturnar
Nú markmiðið hjá mér er að stytta uppstigstímann um ca 1 mínútu sem ég hlýt að geta þegar ég næ þeim á 3:50 núna semiþreytt en á 5:40 í rennslinu síðast. Ég ætla að taka 20 og 20 á hvorn fót helst tvisvar sinnum og pása fyrir síðustu 10 og 10. Hlaupið þarf ég að stytta líka um tæpa mínútu. En hvernig sem ég fer að því þá ætla ég að bæta mig um 2:22 og fara þar af leiðandi niður í 24:58 lifa það af og fagna
Þetta er sem sagt ofurdraumamarkmiðið og nú er vissara fyrir ykkur öll sem lesið þessa síðu en skrifið ekkert að senda mér hvatningu og kveðju svona síðustu dagana fyrir keppni! Hér kemur svo sundurliðun og ofurdraumamarkmiðinu:
Hjól: 2:55
Róður: 2:40
Niðurtog: 1:18
Fótalyftur: 1:20
Armbeygjur: 0:30
Uppstig: 4:40
Uppsetur: 1:30
Axlarpressa: 0:30
Hlaup: 7:40
Bekkur: 1:50
Heildartími: 24:58
Allar áskoranir, áheit eða veðmál gera þetta bara skemmtilegra
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.4.2008 | 13:08
Íslandsmóti grunnskólasveita 2008 lokið
Salaskóli getur verið stoltur af frábærri frammistöðu nemenda sinna á Íslandsmóti grunnskólasveita 2008. Skólinn átti flestar sveitar á mótinu, A,B,C,D,E sveitir og allar náðu þær árangri. D og E sveitirnar fengu verðlaun í sínum flokki. C-sveitin var jöfn C-sveit rimskælinga með 17 vinninga en þeir síðarnefndu unnu á stigum. B-sveit Salaskóla var í öðru sæti aðeins hálfum vinning undir B-sveit Laugalækjarskóla og A-sveitin átti í gríðalega spennandi keppni um fyrsta sætið allan sunnudaginn! Úrslitin réðust ekki fyrr en í langsíðustu skák dagsins milli Patreks og Svanbergs úr Hvaleyrarskóla og tapaði Patti á síðustu sekúndu. Hefði hann unnið þá hefði orðið bráðabani milli Rimaskóla og Salaskóla en úrslitin voru ljós og vann Rimaskóli með 32 vinninga og Salaskóli varð í öðru með 31 vinning. Frábær árangur og hrikalega spennandi keppni.
Salaskóli átti fleiri sigurvegara á mótinu en Jóhanna (2. borð 8/9), Palli (3. borð 8,5/9) og Eiríkur (4. borð 8,5/9) fengu öll borða verlaun. Rimskælingarnir Hjörvar (1. borð 9/9) og Sverrir (8,5/9) fengu einnig borðaverðlaun. Mamman er alveg hrikalega stolt af sínum stelpum því eins og áður sagði fékk Jóhanna 8 vinninga af 9 mögulegum og Hildur Berglind stóð sit líka frábærlega á 2. borði í c-sveit (reyndar á 1. borði í 9. umferð og sigraði þá) með 6 vinninga af 9 mögulegum. Frábær undirbúningur fyrir norðurlandamótið sem hefst nk föstudag 18. apríl í Noregi. Ég veit að þær eiga báðar eftir að standa sig vel þar enda í hörkuþjálfun og góðum gír. Framundan hjá Jóhönnu er svo Kjördæmamót strax daginn eftir heimkomu frá Noregi og svo kannski Landsmót sem haldið verður á Bolungarvík um þar næstu helgi.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 10:10
Íslandsmót grunnskólasveita í skólaskák 2008
Þessi helgi átti að sjálfsögðu að fara í hvíld enda er kroppurinn í frekar þungu ástandi aðeins viku fyrir keppni. Reyndar verð ég búin að keppa á þessum tíma eftir viku en endalaus þroti í fótum og herðum - harðsperrur í rénum og þess háttar er farið að setja mark sitt á frúna. Með góðri samvisku hef ég ekki einu sinni keyrt framhjá Sporthúsinu síðan á föstudag og ætla að eyða deginum í dag með eldri dætrunum á skákmóti. Næsta æfing verður á morgun kl. 9 og ætla ég að vera skynsöm og sennilega taka létta þolæfingu, smá hjól, smá hlaup og svo kvið kvið kvið. Annars var ég að skoða video frá Bootcamp fólkinu sem keppti í haust og leist bara mjög vel á. Fyrst hafði ég á tilfinningunni að þetta væri á vitlausum hraða en þegar ég horfði í þriðja og fjórða sinn þá sá ég að þetta var mjög eðlilegt en þeir sem virtust vera á vitlausum hraða voru bara í liðakeppni
http://www.drengsson.net/trekmeistarinn/ Hvet ykkur endilega til þess að skoða þetta video og fá smjörþefinn af því sem ég er að fara að gera um næstu helgi og hlakka svona hrikalega mikið til.....
Nú um helgina stendur yfir Íslandsmót grunnskólasveita í skólaskák í Faxafeninu og áttum við geysilega skemmtilegan og spennandi dag í gær. Dæturnar tefla báðar fyrir Salaskóla og er Jóhanna komin á 2. borð í A-sveit og eftir fimm umferðir í gær er hún með 4 vinninga eftir að hafa tapað fyrir Herði Aroni úr A-sveit Rimaskóla. Patti er á fyrsta borði og ég held að hann sé líka með 4 vinninga og hafi því aðeins tapað fyrir Hjörvari rimskæling. Salaskóli A-sveit er einum vinning undir Rimaskóla A-sveit en báðar sveitirnar hafa nú þegar teflt saman og teflt við Laugalækjaskóla A sveit sem er eitt af sterkustu liðum keppninnar. Á eftir mun A-sveit Salaskóla tefla fyrstu umferð (6.umf.) gegn grunnskólanum á Seltjarnarnesi og stefnan sett á 4-0 að sjálfsögðu. Salaskóli B-sveit er núna efst B-sveita og Salaskóli C sveit efst C sveita! Hildur Berglind er á 2. borði í C-sveit og stóð hún sig frábærlega í gær eð 3/5 vinningum. Það verður erfið og hörð baráttan í dag þessar fjórar umferðir sem eftir eru en sigurvegarar mótsins fá þátttökurétt á norðurlandamóti grunnskólasveita sem fram fer í Noregi í ágúst. Við Palli Sig stöndum vaktina í skákstjórn en hann fær að sinna allri dómgæslu án minnar aðstoðar þar sem færni mín á því sviði er ekki alveg jafn mikil og í bekkpressunni. En ég er góð í öllu hinu og virðast tölurnar liggja vel fyrir ljóshærðu hjúkkunni á skákstað.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2008 | 12:59
Og nú verður ekki aftur snúið!
Í gærkvöldi skráði ég mig og borgaði þátttökugjaldið. Nú verður ekki aftur snúið!
Æfingarbrjálæðið sem ég hef verið með undanfarnar vikur er óneitanlega farið að skila sér í góðu formi, auknum styrk, meira þoli, betri líðan og líka sterkari sjálfsmynd . Fötin passa öðruvísi og betur á mig og elstu æfingarbuxurnar leka niður á hné þegar ég hleyp og svo stíg ég í skálmarnar og dett. Sama má segja um brjóstin sem virðast leka álíka langt niður en þau er ekki hægt að setja í saumavélina og þrengja eða lyfta....
. Hins vegar eru þessar æfingar líka farnar að taka sinn toll og er ég frekar þreytt þessa dagana. Að einhverju leiti þó vegna veikinda Dísunnar en æfingarálagið er þá aðalástæðan. Ég er líka býsna utan við mig og er nú farin að velta því fyrir mér hvort ég sé farin að brenna gráu sellunum samhliða þessum hvítu sem eru mun dreifðari um kroppinn en þær gráu. Gallinn við það að tapa þessum gráu er sá að þær koma aldrei aftur! Þessar hvítu sem nærast fyrst og fremst á kaloríum úr fitu þær bara minnka en hverfa ekki - mikil synd
. Til marks um það að viðkvæmni mín er líka í hámarki verð ég að opinbera að bæði í gær og í dag lagðist ég í rúmið mitt við hliðina á barnarúminu rétt fyrir hádegið þegar Dísin átti að fara að sofa. Þreytan í skrokknum gerði mig svo þunga að ég gat engan vegin hreyft búkinn svo ég kveikti á hljóðlausu sjónvarpinu meðan hún var að sofna og ég að ná úr mér sleninu. Báða dagana var þátturinn Extreme makeover - home edition á dagskrá og náði ég að horfa á lokasenurnar þegar fjölskyldurnar voru að koma heim. Í gær horfði ég á dansarann, tiltölulega unga einstæða móður tveggja drengja sem var orðin illa haldin af MS og gat því ekki dansað lengur. Tilfinningaflóð hennar og sonanna var svo magnað að þreytta húsmóðirinn og þrekmeistarinn í Skjólsölum gat ekki annað en tárast yfir herlegheitunum. OG ég er EKKI ólétt..... Já og sama var upp á teningnum í dag, prestsekkja og móðir fimm barna sem hafði nýlega misst húsbóndann og aftur brutust tárin fram hjá Skjólsalafrúnni. Hættum nú alveg! Ég kveiki ekki á sjónvarpinu á morgun þegar strumpurinn fer að sofa - ég hef bara ekki orku í þessa tilfinningabombu!
Á morgun er ég að hugsa um að skella mér á eina svona eldsnemma morgunæfingu og vera komin heim fyrir skóla hjá genginu. Heimilsverkin þau vinna sig nefnilega ekki sjálf og tel ég að heimilisstörf séu stórlega vanmetin verkefni. Þegar ég var þriggja barna móðir og vann 300% vinnu ef með eru talin öll ferðalögin innan lands og utan þá hafði ég konu í vinnu við einmitt þessa iðju. Að þrífa heimilið. Við svoleiðis aðstæður er mun auðveldara að þrífa. Kvöldið fyrir komu hreingerningarkonunnar er lagað til í öllum rýmum og svo kemur hún og hespar af þrifunum á ca 4 klst. Þetta getur húsmóðir ekki. Hún þarf að byrja á því að laga til og skapa hreingerningaraðstæður. Það getur reynst erfitt þegar eftirlitsmaðurinn er undir tveggja ára aldri. Mér þótti því afar vænt um konuna sem þreif hjá mér. Þegar prófessorinn á kvennadeildinni hótaði að leggja mig inn á síðustu meðgöngu til þess að hemja hjá mér hreingerningarþörfina lofaði ég því að ég skildi hringja í konuna mína góðu. Hún kom og sinnti sínu af mikilli natni. Svo mikilli natni að þegar ég var að bögglast við að skipta á rúmunum - svona til þess að vera að gera eitthvað meðan hún var á fullu (komst nefnilega ekki fyrir bakvið stýrið á bílnum og var því kyrrsett heima!), þá átti hún það til að taka af mér rúmfötin og reka mig í aumingjastólinn og segja: Edda þú átt hvíla þig, ég þrífa og gera allt þetta. Þú átt að passa þig ekki satt? Og ég hlýddi, hrundi í stólinn og oftar en ekki varð ég vör við það að hún breiddi yfir mig lakið áður en hún læddist út úr húsinu og skipaði dætrunum að hafa hljótt þegar þær voru að koma heim. Hún gerði svo miklu meira en var ætlast til af henni og er ég henni enn afar þakklát. Það var erfitt að taka við af henni aftur þegar ég hafði jafnað mig eftir keisarann og svo kviðslitsaðgerðina en nú er ég tekin við og er bara hreinlega að drukkna í heimilisverkum - kannski af því að ótrúlega orka fer í Þrekmeistarann! En aðeins vika þar til ég fer norður.
Já og ég fer ein norður með tvær yngri dæturnar með mér. Tommi fer með skákdrottningarnar á norðurlandamót stúlkna til Noregs þann 17. apríl en þann dag ætla ég að taka síðustu æfinguna fyrir mótið. Er jafnvel að hugsa um að bruna svo af stað norður fljótlega eftir æfinguna svo ég verði búin að koma mér vel fyrir og stelpurnar búnar að sofa eina nótt á nýjum stað svo þær sofi sem best nóttina fyrir keppni. Tvær klappstýrur ætla þó að fylgja og eru það heiðurshjónin Hildur og Siggi sem ætla að gista hjá mér og verða þau með sína unga tvo sem eru á sama aldri og strumparinir mínir. Þetta verður því frábær helgi hjá okkur og ég verð ekki alein með stelpurnar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 11:58
Vor í garðinum
Í morgun mætti ég sæl og kát í Sporthúsið kl. 9 með litla Pjakk Púkason sem var reyndar ekki alveg jafn sæl og kát og ég sjálf. Hún er orðin frísk og allt það en bara svolítið geðstirð og vill helst láta halda á sér. Hún var reyndar afar hamingjusöm yfir því einu að fá að fara út og titraði af ánægju þegar ég var að losa hana úr stólnum við Sporthúsið. Brosti sínu blíðasta til Freyju en vildi svo bara vera í fanginu á henni allan tímann. Ég sá fram á frekar stutta æfingu eða svona klukkutíma.
Upphitun á hlaupabrettinu og í crossfit horninu svo tók ég þungar efripartsæfingar. Náði þessu á góðum tíma svo ég átti smá tíma eftir í uppstigsæfingar og bar undir Sensei Reyni hvernig best væri að taka lærin svona á lokasprettinum. Hann horfði á mig með þessum drápsaugum sem við erum nú farin að þekkja býsna vel og svo kom glottið! Dró mig inn í stóra sal og sagði: Þú færð nú reyndar harðsperrur eftir þessa æfingu en hún er góð! Svo verða uppstígin eins og fyrir aumingja ef þú gerir þetta vel (eða eitthvað svoleiðis ). Og æfingin var: einhverskonar dauðaganga yfir allan salinn, stór skref og hnén niður í hverju skrefi. Hendur mega ekkert snerta og horfa beint fram. Að sjálfsögðu var þetta í tímatöku og ferðirnar voru ekki 2 -4 heldur 10 já 10. Kláraði dæmið en gleymdi að taka tímann þar sem ég var ekki með skeiðklukkuna á mér aldrei slíku vant. En harðsperrurnar sem ég fæ verða ógeð......
Annars er bara að vora hér í Skjólsölunum því fyrstu tvær kryddjurtirnar eru farnar að skríða upp úr moldinni. Graslaukurinn sem er algjörlega ódrepandi með öllu og því tilvaldinn í garðinn minn, var fyrst sýnilegur fyrir um það bil viku. Þegar ég fór út um helgina og hreinsaði frá nýju stönglunum sá ég að steinseljan er líka að skríða úr hýðinu. Nú þarf kannski ekki nema svona mánuð og þá get ég farið að stinga niður því sem ekki vex aftur eftir veturinn og verður fyrst farið í það að setja niður salat og spínat. Ekki svo að skilja að hann Tommi minn sé búinn að smíða kerin undir matjurtirnar ennþá en ég bjarga mér þar til það kraftaverk gerist. Þegar ég kom svo heim eftir æfinguna fórum við Þórdís út í dúkkuhúsið í garðinum og tókum aðeins til þar. Sópuðum gólfið og tókum allt sem hægt var að setja í þvottavélina og komum því í þvott. Ég er bara að verða nokkuð spennt fyrir vorverkunum og þarf greinilega að fara fljótlega í Byko og kaupa timbur í restina af því sem þarf að gera....
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2008 | 12:12
Lokamarkmiðið......
Það sagði engin að það væri auðvelt að vera frábær! Þetta er bara heljarinnar vinna. Maður er bókstaflega svo upptekin af vellíðan að maður má varla vera að því að sinna börnum og búi! Það hefur þó ekki verið kvartað eftir ísinn í gær og svo ... já smá meira svindl, pizzuna sem við mæðgur fengum okkur í gærkvöldi. Ég var bara alltof ánægð og þreytt til þess að standa í einhverri eldamennsku! Hvað sem pizzunni leið þá svaf ég eins og engill í nótt og varð ekki einu sinni vör við bóndann þegar hann kom heim úr þessari langþráðu vélsleðaferð. Sjúklingurinn svaf líka en er alls ekki orðin góð. Hún vaknaði þó býsna spræk í morgun en það entist stutt. Fljótlega gaf hún í skyn að meiri innivera væri ekki í boði og sótti hún skóna sína, úlpu, húfu og bíllyklana. Kallaði á mömmuna og gekk að útidyrunum - við fórum í smá bíltúr!
Þar sem ég átti akkúrat ekkert erindi út fyrir hússins dyr og bókstaflega ráfaði eftir götunum úr hverfinu fékk ég þá snilldar hugmynd að kíkja í Distica - EAS og athuga hvort ekki væru einhver fæðubótaefni sem gætu nýst mér á lokasprettinum. Afgreiðslumaðurinn er sjálfur á leið í keppnina og var því afar hjálpsamur (þótt honum hafi fundist ég helst til óróleg) sýndi mér eitt og annað en hvatti mig fyrst og fremst til þess að drekka kolvetni á æfingunum. Að minnsta kosti fór ég út með semi fullan poka af dóti og spenning. Satt að segja er ég orðin hrikalega spennt fyrir þessu og get nú varla beðið eftir keppninni þó mér veitti svo sem ekkert af 2-3 vikum í viðbót til þess að bæta þolið.
Eftir að hafa setið yfir millitímunum mínum hef ég fundið út að ég er nú bara mjög góð í mörgu eins og t.d. niðurtoginu, armbeygjunum, axlarpressunni og bekknum. Ég verð mjög sátt við að halda þeim tímum óbreyttum (bæting er þó alltaf í boði) ef ég get nælt mér í tvær extra mínútur niður! Þessar tvær mínútur þarf ég að klípa af uppstíginu og hlaupinu. Næstu dagar verða tiltölulega rólegir æfingadagar (hvíldi með sjúklinginum í dag) en vonandi get ég unnið áfram í þolinu fram að keppni og ef það er fræðilegur möguleiki að bæta þolið enn frekar á þessum tólf dögum sem eftir eru þá get ég sett mér markmiðið 26:00. Nú vil ég endilega fá viðbrögð frá æfingarfélögunum um raunhæfi þessa markmiðs
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2008 | 15:31
"Því ég er frábær"
Nú þegar klukkan er orðin þrjú er ég búin að ná andanum ágætlega, búin að gera ýmsa nauðsynlega hluti fyrir börnin mín, þvo eina vél, ganga frá hér og þar í húsinu og svo síðast en alls ekki síst búin að búa til og borða heimalagaðan bragðaref með dætrunum. Já eimitt - til þess að fagna því ég á það svo skilið
Eftir bara nokkuð svefngóða nótt í Skjólsölum vaknaði frúin rétt fyrir níu sem telst nú bara býsna gott! Það var ekki annað að gera en að koma sér í gírinn og fá sér góðan morgunmat. Þrátt fyrir þennan góða svefn dreymdi ég ótrúlega mikið og var allur draumurinn í tímatöku enda einkenndist hann algjörlega af þrekmeistaraæfingunum 10. Eitthvað hef ég verið að hugsa um tímann minn áður en ég sofnaði en það var alveg sama hve mikið ég reyndi í draumum mínum ég náði bara aldrei niður fyrir 34 mínútur. Assskotinn! Ekki góð byrjun á rennslisdegi. Ég var því afar stressuð, spennt og upptjúnuð þegar ég staulaðist inn í Sporthúsið um 9:20 í morgun. Brautin tilbúin og allir í góðum fíling! Allt var ofur vel skipulagt af Leifi höfðingja og átti ég að hefja rennslið um 11. Eftir ágætis upphitun og hvatningu frá hópnum var lagt í hann. Komst ótrúlega vel frá byrjuninni þrátt fyrir að taka eina hvíldarpásu í fótalyftunum - sem kom sjálfri mér reyndar á óvart. Síðan tóku við armbeygjurnar í einum rikk og þá var komið að því sem ég hata næst mest - uppstigin hundrað. Ég var orðin lúin þar og þurfti örugglega að gera amk 105 uppstig þar sem nokkur töldust ekki með - læt það aldrei koma fyrir aftur! Svo skellti ég mér á bakið af stakri færni enda með reynslu! Tók uppseturnar 40 og 20 minnir mig - geggjað ánægð því engin var ógild! Axlarpressan með stæl og svo var það HELVÍTIS hlaupabrettis ógeðið. Þar var ég búin að áætla 8:30 mínútu sem stóðust upp á sekúndu. Ég átti alltof erfitt með brettið og það voru ekki fótaræflarnir heldur mæðin. Ég hafði reyndar tvo frábæra hvatningarmenn á bakinu sem komu mér lifandi í gegnum þetta, Takk Kristín og Reynir. Leifur gaf mér upp tímann minn þegar ég kom á brettið og það gaf mér vissulega búst en ég þarf að passa vel upp á þolið. Það var lítið hlaupið, aðeins skokkað en mest gengið rösklega. Þegar þetta HELV... var búið hljóp ég á bekkinn og tók hann með stæl 20-15-5 (minnir mig). OG TÍMINN VAR - já haldið ykkur og minnist markmiðisins undir 30 mín - 27:20. Og haldiði að ég sé ánægð og já ég er öskrandi ánægð og svo ég steli orðum hans Imma ananas (úr ávaxtakörfunni) ÞVÍ ÉG ER FRÁBÆR!
Er sem sagt enn að melta þessa frábæru frammistöðu sem kom sjálfri mér langmest á óvart. Nú hlakka ég bara til að sjá millitímana þegar Leifur gefur sér tíma til þess að birta þá svo ég geti sett mér markmið fyrir þann 19. apríl. Nú er ég líka viss um að Reynir er hrikalega stoltur af stelpunni og Leifur getur nú líka verið ánægður með mig því það var jú hann sem hvatti mig mest til þess að kýla á einstaklingskeppnina. svo þegar hjúkkan er búin að reikna út árangurinn þá telst mér til að ég hafði náð 29% tímabætingu frá fyrsta rennsli. ÞVÍ ÉG ER FRÁBÆR!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2008 | 19:44
Eftir nákvæmlega tvær vikur mun ég skála
Jæja, þessi helgi er ekkert öðruvísi en aðrar, þ.e. skákmót. Í dag fór ég með Jóhönnu og Hildi á stúlknamót Reykjavíkur en titilinn getur aðeins unnið stúlka úr Reykjavík eins og gefur að skilja. Hallgerður Helga vann mótið með 6/7 vinningum en hún tapaði aðeins fyrir Jóhönnu sem varð í 2-3 með 5,5 vinninga ásamt Siggu Björgu sem var þó hærri á stigum í þriðjustigaútreikningarumferð. Hildur Berglind hafði það af að verða í 5-6 sæti með 4 vinninga en hún tapaði fyrir stelpunum í 1.-4. sæti fyrir utan Jóhönnu sem hún tefldi ekki við. Svo þetta hlýtur að teljast frábær árangur hjá stelpunum. Það fyndna er að Hallgerður sem var að vinna þetta mót í 5. sinn og Sigga Björg eru þær einu í 6 efstu sætunum sem eru úr Reykjavík. Á næsta ári verða þær báðar komnar í menntó svo það verður sjálfsagt mjög ung Reykjavíkurmær sem hampar titilinum stúlknameistari Reykjavíkur og ætla ég að veðja á Hrund Hauksdóttir sem var fjarri góðu gamni í dag.
Að öðru leiti fékk ég ágætis svefn loksins nú í nótt og er það ekki því að þakka að Þórdísi sé að batna ónei! Heldur var það eiginmaðurinn sem tók vaktina og sinnti vesenisgemsanum svo ég fengi svefn. Svo ég er í þokkalegu standi og á þann draum einan núna að svo megi aftur verða næstu nótt því á morgun verður síðasta rennslið fyrir keppni. Markmið morgundagsins er fyrst og fremst að ná niður í 30 mínútur og helst niður fyrir það. Ég eyddi morgninum í að stúdera tímana mína frá fyrsta rennsli og búin að gera alls konar útfærslur á bætingu. Ég ætla mér að sjálfsögðu stóra hluti en hef í rauninni enga tilfinningu fyrir því hverju ég muni áorka á morgun svo ég ætla að bíða með stóru orðin þar til ég er komin heim aftur á morgun og búin að ná andanum. Þrátt fyrir að kvíða fyrir þá hlakka ég líka til því ég er viss um að bætingin verður góð og ég verði ánægð með árangurinn. Nú ef ekki - þá ætla ég...... ble ble ble Ég ætla bara ekkert að hugsa um það enda veit ég að ég mun standa mig vel eins og alltaf þegar ég geri mitt besta og svo eftir nákvæmlega tvær vikur mun ég gera mitt allra allra allra besta síðan ég gerði mitt allra allra allra besta síðast! - OF flókið líka fyrir mig..... Hey eftir nákvæmlega tvær vikur verð ég einmitt að skála fyrir frábærum árangri og að springa úr monti bara fyrir það eitt að hafa tekið þessa ákvörðun og verið með.
Ætli það fáist ekki örugglega kampavín á Akureyri? Sennilega best að taka það bara með úr borginni.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2008 | 14:31
Er næturæfing orðin morgunæfing þegar vorar?
Skrítið hvað sumir hlutir geta breyst án fyrirvara! Vegna þess hve vorið á Íslandi er skrýtið þá er varla hægt að segja með góðri samvisku að ég hafi farið á næturæfingu í morgun þrátt fyrir kalt loft. Um hálfsjö er farið að birta töluvert og reyndar var verið að slökkva á ljósastaurunum þegar ég kom í Sporthúsið í morgun. Þetta var sum sé allra síðasta næturæfingin mín en verið fleiri slíkar í næstu viku þá neyðist ég til þess að kalla þær morgunæfingar
Annars var planið við Sporthúsið þéttsetið í morgun og dívan afar illa sofin eftir langa og heita nótt. Örverpið sem hafði fengið öll hjúkrunaráð í gærkveldi, parasupp, nezeril og alles kom fljótlega upp í og umlaði í mömmunni á svona 40 mín fresti þar til ég stakk af úr rúminu um kl. 6. Fjölmennt var í hópnum okkar og var Reynir í saman morgunstuðinu og flesta morgna og skellti okkur í sömu Tabata æfinguna og við tókum held ég í síðustu viku. Tveir og tveir saman 4x4 mín (ein mínúta á hverri stöð) æft í 20 sek (talið) og hvílt í 10 sek. Æfingarnar voru Burpess (froskaarmbeygjur niður í gólf), sipp (aðeins talið þegar bandinu er sveiflað tvisvar í einu hoppi, eða það reynt), bekkur m. 30kg (konur) og hné í olnboga. Þetta gekk bara vel þrátt fyrir þreytu en nú ætla ég að hvíla á morgun eða svona eins og maður gerir með barnastóð og svo er rennsli á sunnudaginn. Ég verð snögg að flytja ykkur fréttirnar um það hvernig það fer en ég hef hrikalega væntingar til sjálfrar mín og sett mér það markmið að klára þetta á undir 30 mín.
Nú þegar unglingurinn er komin heim úr skólanum ætla ég að semja um smá pössun og skjótast eftir sushi í kvöldmatinn fyrir okkur hjónin. Jummý, veit bara ekki hvað ég ætla að gefa börnunum sjálfum - hvað með bara að poppa
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Edda Sveinsdóttir
Tenglar
Skáktenglar
- Skákfréttir
- Skáksamband Íslands Heimasíða Skáksambands Íslands
- Taflfélagið Hellir Heimasíða Taflfélagsins Hellis
- Salaskólaskák Heimasíða Salaskóla
- Taflfélag Garðabæjar Heimasíða Taflfélags Garðabæjar
- Skákdeild Fjölnis Heimasíða Skákdeildar Fjölnis
- Skákskóli Íslands Heimasíða Skákskóla Íslands
- FIDE Heimasíða Alþjóðaskáksambandsins
- The week in chess
- Heimasíða heimsmeistaramótsins
Líkamsræktin
- Crossfitþjálfun crossfit.com
- CrossFit í Sporthúsinu CrossFit
- Þjálfun.is Þjálfun.is
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar