1,5km hjól í staðinn fyrir 800m hlaup

Það má segja að öll ráð hjúkkunar hafi dugað í nótt enda svaf Pjakkur Púkason ágætlega þrátt fyrir hita og sjálfsagt önnur einkenni. Hún var ekkert fullkomin - en þó þannig að það náðist prýðilegur svefn hjá foreldrunum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að mæta á æfingu um hálfsjö í morgun og taka vel á því. En það er bara svo miklu miklu miklu erfiðara á nóttunni en á daginn!

Engu að síður keyrði ég í gegnum æfinguna, skipti út 800m hlaupinu (x4) í 1,5km hjól (x4) og lauk þessu á 33:24. Tók svo milljón og eitthundrað kviðæfingar rétt áður en ég brunaði heim í hafragrautsframreiðslu. Pjakkurinn var afar druslulegur og vildi aðeins hanga á öxlinni, borðaði smá hafragraut með rjóma og drakk epladjús. Svo bara horfði hún á mig eins og hún þekkti mig ekki! Skildi ég hafa lagt svona mikið af síðan í gær???W00t  Nú sefur ræfillinn og móðirin fær tækifæri til áframhaldandi líkamsræktar í þvottahúsinu. Bíð spennt eftir föstudagsnæturæfingunni með skemmtilegu fólki.

Annars er ég ekki frá því að fæturnir séu að lagast aðeins. Skankarnir voru nuddaðir með laxerolíu fyrir nóttina og svo hefur kannski ekki komið að sök að ég hvíldi einn dag. Hver veit nema örlögin hafi gripið þar í taumana Alien

Og svona til þess að staðfesta það að ég hafi í raun og veru mætt á næturæfingu af sjálfsdáðun til þess að æfa ein þá hef ég fjölmörg vitni.


Er laxerolían málið?

Það er ljóst að veikindi eru skollinn á og hefur hitinn hækkað jafnt og þétt í örverpinu í dag. Nú í kvöld þegar hún var á leið í háttinn mældist hún með 39,2°. Hjúkkan brá á öll ráð til þess að tryggja sér nætursvefn - eða amk. gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að eiga möguleika á nætursvefni. Barnið var því nært að því marki sem hægt var, fékk svo mjólk í pela, hreina bleiu og 250mg parasupp. Unginn færður í nátttreyju og sett berleggjuð í rúmið svo rjúki af henni svolítið. Nú svo er maður bara reddý með meira parasupp ef hún fer að vera óvær þegar líður á nóttina.

Ég er hins vegar búin að setja stefnuna á næturæfingu á morgun því það liggur í augum uppi að ekki geti ég farið á æfingu með Dísina eins og venjulega. Æfingarplanið er einfalt:

1. Upphitun
2. 800m hlaup í 0%
    10 upphýfingar - höku upp yfir stöng
    15 armbeygjur - brjóst í gólf og rétta alvegf
    30 uppstig með 10kg í hvorri hendi
  4 lotur í tímatöku
3. 100 kviðæfingar með frjálsri samsetningu s.s. Reyniskviður, hné í olnboga (Leifskviður) eða bara eitthvað annað spennandi

Ég reikna þó með að skipta út hlaupinu fyrir hjól þar sem göngugreiningarmaðurinn ráðlagði það í nokkra daga meðan mesti þrotinn rennur úr fótunum með laxerolíunni! En svo er bara að sjá til hvernig mér líður ef ég prufa að hlaupa.

Nú styttist óðum í keppnisdaginn og er ekki laust við að maður sé orðin svolítið spenntur fyrir því að þetta æfingarferli fari að taka enda. Hins vegar er þetta búið að vera hrikalega gaman og enn skemmtilegra að fá að kynnast öllu þessu skemmtilega fólki sem ætlar að keppa fyrir Sporthúsið. Óneitanlega skemmtilegur hópur. Fyrir mig hefur líka verið frábært að kynnast þessu nýja æfingarformi sem felst í Crossfit þjálfun og hef ég verið að læra eitthvað nýtt á hverri æfingu. Þetta er svo sannarlega það sem ég þurfti á að halda til þess að koma mér á annað stig og ná árangri.

Á sunnudaginn verður svo síðast rennsli sem hópurinn tekur fyrir keppnina sjálfa og hlakka ég bara ótrúlega mikið til að sjá hvort ég hafi ekki bætt mig "heimskulega mikið" eins og ónefndur hvatningamaður hefur nokkrum sinnum haft orð á. Ég er alveg sannfærð um eigið ágæti hvað það varðar og verð illa svikin ef ég fer ekki niður fyrir 30 mínúturnar. Amk ætla ég að opinbera lokamarkmiðið eftir rennslið á sunnudaginn!


Hjúkrunarstörf í skiptum fyrir næturæfingu....

djö...
Til þess að tryggja það að ég myndi mæta á næturæfingu í morgun fór ég samviskusamlega í háttinn rétt fyrir kl. 22 í gærkvöldi. Það var ekki erfitt enda var ég víst búin að sofa í sófanum yfir lélegum sjónvarpsþætti amk tuttugu mínútur áður en ég hafði vit á því að koma mér í rúmið. Tommi kom fljólega en læddist svo að ég varð ekki vör við hann enda vissi hann hve mikilvægt það var hjá mér að ná góðum svefn fram að æfingunni. Svo byrjaði það! Örverpið fór að rumska fljótlega upp úr miðnætti og tók pabbinn að sér að sinna henni. Einhverntímann varð ég svo vör við að hann kom og tók hana upp í enda var hún að láta í sér heyra og greinilega ekki alveg sátt við lífið. Rúmlega tvö baðst pabbinn vægðar og hafði þá ekkert sofið og hún lá á milli okkar frekar pirruð en þó afar þreytt. Svo hjúkkan fór á vaktina og þegar ekkert hafði verið sofið til að verða fjögur og orðið ískyggilega stutt í æfinguna þá var ekki annað í stöðunni en að drífa barnið fram enda virtist hún vera komin með hita. Hún fékk því almenna skoðun á skiptiborðinu, hitamæld og lyfjagjöf í formi hitalækkandi parasupp stíla. Fljótlega eftir það náði hún að sofna en þó ekki svo vel að hún svæfi til morguns. Það var sem sagt rumskað og raskað á 50 mín fresti þar til klukkan var orðin skólatími. Þá var ég í rauninni þakklát fyrir að hafa sofið af mér næturæfinguna en þó andskoti svekkt því það er svo stuttur tími til stefnu. Skottið átti tíma hjá barnalækni í morgun sem sagði hana vera með veirusýkingu og við yrðum að gefa þessu tíma.... ble ble ble eins og ég hafi tíma!! Í dag hef ég þjakað sjálfa mig með samviskubiti og svekkelsi yfir að hafa ekki komist á æfinguna í morgun. Ég hef þó sterkan grun um það að æfingafélagarnir og sjálfur hettumaðurinn hafi saknað mín enn meira svo þar af leiðandi er ég enn svekktari! Og ég sem er búin að bera laxerolíu á veika fótavöðvana mína. Nú er víst ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og vonast til að þetta taki fljótt af.

Fullt baðker af mönnum

Um helgina var búið að plana hvíld fyrir þreyttan þrekmeistarakroppinn. Hvort ég náði þeirri slökun eða ekki þá var helgin ljómandi fín og tókum við frábæran sprett í Bláfjöllum á sunnudaginn í glampandi sól, gusti og -6°. Ég á oft mjög erfitt með að hætta þegar það er gaman og því varð Tommi að skikka mig niður úr fjallinu á þeim forsendum að börnin væru svöng, köld og þreytt! Færið var mjög gott og svo renndi maður beint í stólinn - hver vill hætta??

Þreyttir fætur frá fyrri viku voru frekar lúnir þegar bíllinn renndi í hlaðið í Skjólsölunum og óskaði ég mér þess að það væri komin heitur pottur í garðinn. Mér varð ekki að ósk minni en dætrum mínum var boðið í pottinn í næsta garði sem þær þáðu og ég sat ein uppi með litla grísinn sem var í miklu stuði meðan Tommi skolaði af bílnum. Þó ég lumi ekki á heitum potti í garðinum á ég afar rúmgott og notalegt baðkar. Það var því ekki annað að gera en að dæla í það mjög heitu vatni og gera tilraun til þess að mýkja vöðvana í fótunum. Þórdís Agla er sérstakur baðáhugamaður og stóð því vaktina yfir móður sinni ef hún skildi líða út af sökum hita. Komst reyndar fljótlega að því að hún var bara að bíða eftir tækifæri til þess að komast ofan í! Þegar hún var búin að rífa sig úr þeim fötum sem hún réði við og bera í mig hitt og þetta leikfangið var vatnið orðið nægilega volgt fyrir hana og lítið annað í stöðunni en að bjóða henni ofan í. Ég áttaði mig fljótlega á því hversu afdrifarík mistök ég gerði þegar fór að fjölga í baðikerinu. Innan stundar voru menn af ýmsum sortum farnir að vappa um milli mín og Þórdísar. Meðal þeirra leyndust tveir höfrungar og nokkrar endur. Taldi ég amk 17 karlmenn þegar mest var og þess má geta að meðal þeirra leyndust prinsar, verkamenn, riddari, íssölumaður, blökkumaður, já og ein kona og síðast en ekki síst jólasveinn án húfu! Allir komu þeir þó frá sama landinu Playmolandi sem hefur skotið út nýlendum víða um heim. Þegar ég loksins var orðin laus við þetta fjölmenni komu tvær ískaldar stelpur úr garðinum. Alþaktar líflausu grasi og skjálfandi undir handklæðum litu þær vonaraugum á aftur orðið notalega baðið mitt..... Þar með lauk sunnudagsslökuninni þegar ég laumaðist upp úr og inn í sturtunaBlush

Það var með mikilli tillhlökkun sem ég mætti með nýju skóna mína á æfingu í gærmorgun. Eitthvað var ég þó lúin þrátt fyrir heiðarlega tilraun til slökunar um helgina og ákvað að hafa hóflega æfingu. Skellti mér á brettið og ætlaði mér að hlaupa til nýju fjárfestinguna. En eymslin sögðu fljótlega til sín og ákvað ég að stoppa hlaupið eftir 3km og snéri mér að öðrum æfingum. Hildur var að sjálfsögðu mætt með svipuna og pískraði mér gegnum uppsetur, bekkpressu og armbeygjur Devil. Því miður þá enduðu fæturnir enn verri eftir þessa fyrstu æfingu á Benzanum. Ég reyndi að slaka vel á í gærkvöldi meðan ég kom öllu bókhaldi síðasta árs fyrir í möppum enda á síðustu stundu með það eins og svo margt sem er síður skemmtilegt Halo

Í morgun vöknuðu svo fúlir fætur sem voru með ömurlegan þrota um allt. Utan á sköflungi og innan á miðjum sköflungi og svo kom endalaust kvart og kvein frá iljunum utanverðum. Hvur andskotinn! Fór á æfingu og entist aðeins 1,5 km á brettinu og skellti mér í skaplegri æfingar eins og hné í olnboga x35, Reyniskviður og bekkpressa. Kallaði það gott og dreif mig heim. Tók mér hvíld í hádeginu og dreif mig svo með nýju skóna, gömlu skóna og eldgömlu skóna í Orkuhúsið þar sem var tekið á móti mér eins og prinsessu. Ég bar upp eymd mína og skýrði mál mitt. Sagði hvað væri framundan og óskaði eftir aðstoð þó ekki væri nema bara ást og alúð...... Og það fékk ég. Göngugreiningarmaðurinn sem ég held að heiti Grani bauð mér á brettið eftir að hafa fært mig úr skóm og sokkum og rúllað upp um mig brókinni. Síðan bauð hann mér sæti og saman horfðum við á reglulega rómantískt göngulag mitt í sjónvarpinu. Mikið hef ég sterklega kálfa! Júbb nýju skórnir voru hárrétt fjárfesting og sjálfsagt vandfundnir heppilegri skór fyrir dívuna. Það sem var hins vegar að eru eldri skórnir mínir sem eru með innan á styrk sem eru algjört eitur fyrir mínar fögru fætur. Þar hófst því vandinn sem ég er að súpa seyðið af núna. Þessa eldri skó er ég búin að nota síðan í október eða nóvember svo ég hef verið að keyra af miklum krafti á kolröngum skóm sem eru búnir að setja mark sitt á vöðvana. En Grani átti ýmis ráð uppi í erminni önnur en að skella stelpunni í hvíld sem er alls ekki optionalt þessa dagana. Eftir viðkomu í lyfjaverslun Salahverfis er ég nú komin með Voltaren í bólgueyðandi skömmtum til tveggja vikna, laxerolíu - já laxerolíu til þess að bera á vöðvana - allra meina bót segir Berghildur ef borið er volgt á svæðið. Nú svo er bara að nota nýju skóna áfram og henda þeim gömlu. Ekki hlaupa neitt á brettinu næstu daga en beita mér að öðrum hartaörvandi æfingu svo sem hjólinu. Vona svo innilega að þessi frábæru ráð dugi því ég ætla mér stóra hluti á næstu dögum.....


Að fjárfesta í hlaupaskóm

Þrátt fyrir að hafa staðið mig stórkostlega að undanförnu, verið geðveikt dugleg að æfa og gera allt hitt sem þarf að gera líka virðist sem tíminn nái ekki alveg að standa í stað - eitthvað er þetta nú skrítið bull! OK er búin að standa mig geðveikt vel og æft eins og lúní alla vikuna og búin bæta tímann í hverri æfingu á fætur annarri eins og markmiðið er Cool. Í nótt mætti ég svo á æfingu með hópnum kl. 6:30 og tók smá hamangang í morgunsárið endaði svo æfinguna í bekkpressunni með stelpunum þar sem ég lyfti tvisvar sinnum 50kg. með guðlegri aðstoð (eða kannski andlegri.....). Reynir lét sér það ekki duga heldur hengdi hann mig upp á handklæði og fannst tilvalið að þar skildi ég hanga þar til ég gæti hisjað mig upp nokkrum sinnum. Til að útskýra það nánar heldur hann því fram að við (mannfólkið) getum allt sem við ætlum okkur, við þurfum bara að vilja það og stundum þurfum við líka að trúa því að það sé ógeðslegur brún/grænn krókódíll með opinn skölltinn í rassinum á okkur. Þannig að auðvitað gat ég hisjað mig upp og haldið lífi.

Þegar heim var komið þurfti að moka öldungunum út úr húsinu en Elín Edda fékk frí í leikskólanum þar sem hitamælirinn sýndi nokkrar óæskilegar kommur ofan við 37 gráðurnar. Það kom ekki að sök þar sem hún gat leikið við Þórdísi með ég nýtti adrenalínið og allt efedrínið sem losnaði á æfingunni um nóttina og hóf heimilisþrif. Að þessu sinni voru þau ekki í tímatöku en þeim skildi lokið fyrir kl. 12 svo hægt væri að nærast og kannski eiga rólega stund til tvö. Það tókst EKKI. Þó ekki vegna þess að ég væri svona móð eða hægvirk heldur vegna þess að hingað kom smiður sem vildi endilega taka mál og fleira fyrir fínesringum sem komin er tími til að klára. Þórdís sofnaði því rétt um 13 svo ég rétt náði að skúra áður en ég þurfti að vekja hana kl. 14. Þá kom skríllinn heim úr skólanum með hungurverki sem hæfir ljóta krókódílnum hér að ofan svo vissara var að næra stóðina. Að svo búnu var hópurinn dressaður í útifötin og smalað út í bíl. Nú skildi eyða peningum eða öllu heldur strauja kortið hans Tomma. Skynsemin segir mér að nú sé komin tími á alvöru hlaupaskó. Þar sem Gunnar bæjarstjóri borgar mér aðeins 35.000 á mánuði fyrir að vera ábyrg móðir og nýta mér ekki dagvistunarmöguleika Kópavogs, þá er ljóst að kaup á skóm fyrir 16.990 er heilmikil fjárfesting og skildi því vanda valið. Orkuhúsið lumar á ljómandi fínu og bráðefnilegu starfsfólki sem virðist vita hvað það er að gera. Stúlkan grandskoðaði skóræksnin sem ég var í og hristi eitthvað hausin yfir því að ég skuli staulast um á háum hælum. Hún var ekki í nokkrum vafa þegar hún sagði mér að ég þyrfti hlaupaskó með sérstökum ytri styrk Asics nimbus 9. Mátaði þá tíu sinnum og svo aftur og rétti henni kortið. Nú er ég að drepast úr spenning eftir næstu æfingu sem verður líklega ekki fyrr en á mánudag. En hver veit, kannski get ég ekki beðið lengur en til sunnudags!

Þó ég hafi eytt allri þessari ósköp í skó sem ekki eru skvísuskór þá var ég ekki döpur en pínu hissa á íslensku verðlagi. Gleymdi því hins vegar algjörlega því rétt í þessu hringdi hingað heim maður sem kynnti sig og sagðist hjóla um alla borgina og lýsti því í stuttu máli. Það hvaflaði að mér að hann væri að safna styrkjum fyrir eitthvað en þegar hann fór að segja mér að hann hefði verið að hjóla milli lífs og dauða, þe. í Fossvoginum við kirkjugarðinn og Suðurhlíðarnar, og þar hefði hann komið auga á eitthvað bleikt inni á milli trjána, fór ég að hlusta nánar. Af forvitni kíkti hann frekar á þetta bleika sem reyndist vera barnahúfa sem á var letrað Þórdís Agla!!!! Ó mæ god! Jebb, bleika húfan sem ég keypti á örverpið og lét merkja er eina húfan sem ég hef nokkurn tímann týnt á lífsleiðinni og hvað hún var að gera á þessum stað er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja enda á ég aldrei leið um þessar slóðir, amk. ekki með barnið! En þessi elskulegi maður er víst á leiðinni í sund með fjölskylduna og fannst tilvalið að skella sér í Salalaugina (þá vitanlega á bíl) og ætlar að heimsækja Þórdísi Öglu og afhenda henni húfuna.

 


Að loknum páskum

Nú ætti lífið að fara taka sinn vanagang þegar skólinn byrjar og leikskólinn opnar! Mitt líf fer alltaf í skorður þegar skólinn tekur við sér enda er auðveldara að koma skrílnum í rúmið þegar það er skóli næsta dag. Páksarnir eru búnir að vera ljómandi fínir. Við áttum frábæran dag í sól og blíðu í suðurgilinu á föstudaginn langa. Vorum þar frá morgni til kvölds og skíðuðum eins og ofurhetjur. Það er nú reyndar þannig að flestir okkar vinir virðast koma á Ármannssvæðið því við þekktum næstum alla! Öll tengdafjölskyldan eyddi með okkur deginum sem kom sér frábærlega því einhvernvegin er það bara vonlaust verkefni þegar foreldrar reyna að kenna ungunum sínum að skíða. Þá komu Agla og Gunni afar sterk inn þennan daginn en þau voru eðaldugleg að þjóta bæði upp og niður með Elínu og Jökul. Hildur Berglind var líka hörkudugleg eins og alltaf en hún var svo upptekin við svígið að hún gaf sér jafnvel ekki tíma til þess að bregða sér á klóið Whistling

Páskadagur var hinn rólegasti hjá Skjólsalaveldinu og var Jóhönnu sárt saknað í páskaeggjaleitinni sem var þó með rólegra móti í ár. Maturinn var ekki af verri endanum, grillaður humar í forrétt og hreindýrasteik í aðalrétt. Stelpurnar fengu svo ís en móðirin reyndi að hafa þetta sem heilsusamlegast og sneiddi framhjá því orkuríkasta og lét t.d. páskaeggin algjörlega í friði. Nú þetta með páskaeggin skrifast fyrst og fremst á þá staðreynd að mjólkursúkkulaði er ekki hátt skrifað enda er ég díva og borða einungis eðalsúkkulaði frá Belgíu Halo

Í gær var þó farið af stað í Sporthúsið að nýju. Ekki var keyrt í botni enda er ég ekki alveg hin hressasta. Reynir pískraði mér þó áfram í endalausum uppsetum og verð ég að viðurkenna að eftir allar þessar mismunandi tilraunir og útgáfur af uppsetum er ég með harðsperrur í hálsinum í dag! Rut þessi elska var svo frábær að bjóða mér tíma í nudd seinnipartinn og mjólkaði hún sköflungsvöðvana svo úr þeim rann fáránlega mikill bjúgur sem var búinn vera að kvelja mig sl. daga. Er reyndar aðeins aum eftir þetta en líður samt mun betur. Var bara í góðum gír í morgun þegar ég skrölti með þrjár dætur mínar inn í Sporthúsið í morgun og tók eðalflotta æfingu:

1km skokk sem upphitun (nokkrar Reynisupphitunaræfingar líka)
aðalæfingin:
  400 m brekkuhlaup í 10% halla
  15 armbeygjur
  50 uppstig m. 5kg í hvorri hendi
  30 uppsetur
      5 lotur í tímatöku  40:37 mín
35 Leifskviður - hné í olnboga (hangandi í lykkjum)
30 Reyniskviður (kviðæfingar á bolta)

Þarna var ég orðin býsna þreytt og eitthvað aðeins farin að rugla - sem er reyndar ekkert nýtt!!!
Þegar ég kom inn í klefa þá fór ég aðeins að skjálfa og svo hristast. Var fljót að átta mig svo ég greip brúsann og ýtti konu frá vaskinum til þess að fá vatn og skellti í brúsann próteindjús (hristist reyndar svo mikið að það dreifðist töluvert). Hlammaði mér á bekki og sturtaði þessi í mig og beið nokkrar mínútur meðan ég jafnaði mig. Konu greyið starði á mig eins og hvern annan geðsjúkling enda örugglega með þokkalegan sturlunarglampa í augunum......  Jebb fór svöng að sofa og var svo upptekin við að koma skrílnum út úr húsi í morgun að ég steingleymdi að næra sjálfa mig. Drakk svo bara herbalifete á æfingunni og hamaðist eins og lúní. Þetta heitir blóðsykursfall og er alls ekki notalegt! Vona að ég læri af reynslunni því ég var jú ein með börnin og þetta hefði líka geta gerst í bílnum (reyndar ólíklegt því ég hefði fengið mér djúsinn hvort sem ég var í þessu falli eður ei!).

Annars er þetta að frétta af Jóhönnu minni sem hefur eytt páskunum í Svíþjóð á skandinavísku kvennaskákmóti. Mótið var hrikalega strembið en mjög lærdómsríkt fyrir íslensku stelpurnar sem allar hækka á stigum og voru að tefla töluvert uppfyrir sig enda flestar með rating performance 100-240 stigum hærra en þeirra eigin stig.

Jóhanna, Hallgerður og Elsa náðu allar 3,5 vinningum í mótinu og má segja þar hafi Hallgerður staðið sig best þar sem hún náði að gera jafntefli við nokkrar konur yfir 2000 stigum. Tinna var með 3 vinninga en Sigga með 2,5. Jóhanna sem er með 1617 alþjóðleg stig var með rating performance upp á 1864 ég er ekki viss um hvað hún hækkar um mörg alþj. stig eftir þetta mót en það verður einhver hækkun hjá þeim öllum. Hópurinn er svo væntanlegur til landsins á morgun og verð ég að viðurkenna að ég hlakka hrikalega mikið til þess að fá litla ungann minn heim enda hefur hún aldrei verið að heiman yfir hátíð áður - snuff snuff.......

Hægt er að skoða nánar frétt um skákmótið á skak.is: http://www.skak.blog.is/blog/skak/entry/484529/

 


Næturæfing

Já það kom að því! Ég mætti á næturæfingu kl. 6.30 í nótt. Var meira að segja mætt rétt fyrir hálf en þegar ég hoppaði út úr bílnum fattaði ég að ég var skólaus, þe. íþróttaskólaus! Lítið að annað í stöðunni en að bruna til baka og sækja kvikindin. Elín Edda var vöknuð og komin á fætur og fylgdi móður sinni til dyra þegar ég kvaddi hana lagði ég frá mér skóna svo þess vegna lenti ég í þessum hremmingjum! Nú þegar ég loksins kom 8 mínútum of seint var helvítið að hefjast. Fjórar æfingar hver í átta lotum 20 sek og hvíld í 10 sek. Æfingarnar voru súperfroska-armbeygjur, fótalyftur, bekkpressa m. 30 kg og hoppa jafnfætis upp á 3 æfingapalla (sem ná mér yfir hné). Reyndar gat ég ekki tekið þetta í einum rykk þar sem stóð á oddatölu og æfingin gerð tveir saman. Svo ég gerði fyrstu þrjár og svo varð ég að bíða yfir meðan fótalyfturnar voru gerðar þar sem aðeins ein grind er á staðnum sem hægt er að hanga í.

Þetta var verulega erfitt og þá sérstaklega þar sem það var enn nótt! Þegar heim var komið biðu mín brosandi andlit sem biðu eftir morgunmatnum sínum. En svona rétt til þess að ég héldi meðvitund ákvað ég að skella í mig morgunmat áður en ég byrjaði að mata ungann!

Nú verður hvílt fram á laugardag.........


Svona gerir brjálaða fólkið ........

Í morgun var tekin æfing að hætti brjálaðra! Eða svo gott sem enda var þessi æfing sérstaklega nefnd eftir mér!! Þeir sem "tóku" Edduna í morgun hófu daginn á upphitun og svo var hlaupið: 200m, 400m, 600m, 800m og síðast en ekki síst 1000m. Að sjálfsögðu var hlaupið í 10% halla þessar vegalengdir en á milli voru hlaupnir 200m í 0%. Hlaupið eitt og sér var hrikalega erfitt og voru lappirnar við það að gefa sig á síðustu metrunum. Ég get þó stolt sagt að ég hafi tekið þetta á 38 mínútum en þegar strákarnir í hópnum fóru að metast um það á hvaða tíma þeir tóku Edduna í morgun þá taldi ég það þeim ekki til framdráttar að ná þessu á 20+ mínútum! Nú eru meðlimir hópsins farnir að keppast um meira en tímann á hringnum. Nú vill hver og einn fá æfingu með sínu nafni! Nú eftir hlaupin þá var ekki í boði að leggja sig eða hvíla heldur tóku við kviðæfingar ein 50 stk á skábekk (uppsetur) og svona til þess að sem flestir fái að þjást aðeins var tilvalið að taka 50 fótalyftur í 90°með beinar fætur. Lovely.....

En ég lifi til frásagnar eða bara næstum því. Fæturnir eru bókstaflega að drepa mig enda hef ég aldrei hlaupið svona mikið í halla. Það má nú líka skjóta því að að ég er aðeins búin að sofa um 3 tíma í nótt og náði svo ca 40 mínútum í morgunsárið. Þurfti að koma frumburðinum á flugvöllinn þar sem hún var á leiðinni á skandivískt kvennaskákmót yfir páskana. Ég er þreytt og verulega lúin en ætla nú samt að taka þeirri áskorun að mæta að nóttu til á æfingu eða klukkan 6.30 í fyrramálið og taka hrottalegt púl. Kosturinn við þetta - ef ég lifi -  er sá að ég verð þá búin með æfinguna og komin heim fyrir átta! Þá hef ég nógan tíma til þess að laga til, þrífa og jafnvel skúra áður en ég fer í strípurnar í hádeginu. Síðan tekur við kistulagning og fjölskylduboð. Eitt er víst að fimmtudag og föstudag ætla ég að HVÍLA!!!!!

Í gær tók ég skemmtilega 5x5 æfingu sem byrjaði með upphitun. Þetta eru tilvaldar æfingar þegar þreytan segir til sín þar sem hamagangurinn er nánast enginn. Mestu þyngdir sem ég tók í gær voru:
Flug á skábekk 5x9kg (9kg í hvorri hendi)
Niðurtog 5x45kg
Axlarpressan 5x40kg
Upphýfingar 5x?
Hnébeygjur með stöng/lóð 5x? (svo rosalega þungt að minnið gaf sig)
Bekkpressan 5x45kg (þurfti smá stuðning í restina)
Kviðæfingar, uppsetur á skábekk 50 stk
Armbeygjur alveg niður í gólf 30 stk

Ætli ég verði ekki að stíga í lappirnar og skella mér í eldhúsið, baka aðra marenstertu og elda dýrindiskvöldverð úr hreindýrahakkinu!


Ofþjálfunareinkenni á síðustu og verstu tímum!

Ætli maður verði nú ekki samt að láta sig hafa það! Það er nokkuð ljóst að ég er komin með ofþjálfunareinkenni sem lýsa sér fyrst og fremst í þrota í skrokknum, almenni þreytu og vökvasöfnun. En hvað með það. Meðan viðhorfið er í lagi þá held ég áfram. Það eru aðeins 5 vikur til stefnu og því ekki tímabært að fara að vorkenna sjálfri sér. Ég tóka létta æfingu á föstudaginn og ætlunin var reyndar að hvíla yfir helgina en við hjónin ákváðum að skella okkur á æfingu í gærmorgun. Ég taldi mig hafa sannfært eiginmanninn um ágæti þess að breyta til og taka eina crossfit æfingu með mér en þegar á staðinn var komið taldi hann skynsamlegast að lyfta eins og hann gerir alltaf enda hafi hann misst af æfingunni sinni á föstudaginn!!!  Devil Hvað er þetta með karlmenn og íhaldssemina?? Jú hann tók sína easy going pumpuæfingu án þess að svitna - eða svona um það bil. Ég er nefnilega orðin þeirrar skoðunar að slíkar æfingar séu bara heppilegar ef maður er þreyttur og vill taka létta æfingu!! Í gærmorgun var ég þreytt eins og áður sagði. Reynir var upptekin við önnur verkefni og gat því ekki sett mér fyrir einhverja hrikalega æfingu svo ég ákvað að finna upp á einhverju sem væri tiltölulega þægilegt, tæki á en þó ekki of mikið, kæmi við það helsta sem mér finnst leiðilegt og það mikilvægasta var að æfingin þurfti að þenja þolið. Svo úr varð eftirfarandi æfing í fjórum lotum:

1. 500m hlaup í 4% halla
2. 500m róður á level 6
3. 1 km hjól á level 6
4. 30 armbeygjur

Í fjórum lotum var þetta keyrt og verð ég að viðurkenna að ég setti ekki í botn því ég var bara of þreytt. Ég mæðist algjörlega um leið og ég byrja og skrokkurinn virtist ekki ná neinu tempói. Sennilega hefði ég átt að halda mig heima en fyrst ég var búin að sannfæra eiginmanninn um gæði þess að fara á æfingu varð ég nátturulega að taka þátt!

Gærdagurinn varð nammidagur. Borðað brauð í óhófi og kvöldmaturinn var ofnbakaður kjúklingur með ofnbökuðum frönskum og heitri heimagerðri kjúklingasósu. Klikkaði ekki frekar en áður. Tókum DVD og sett snakk í skál og hraunbitakassi hafði verið gripinn um leið og diskurinn. Aðeins tveir bitar rötuðu til mín og örfáar snakk flögur og þar með var minni allri lokið. Varð frekar óglatt af þessu öllu saman og steinsofnaði yfir annars mjög spennandi mynd þegar aðeins 24 mínútur voru liðnar. Það liggur alveg í augum uppi að dagurinn í dag hefur verið tekin í meiriháttar leti eða svona eins og fjögurra barna mæður geta leyft sér og nú er fermingarveisla framundan svo von er á öflugri orkulind fyrir morgundaginn.......


Ein létt um helgina.....

Það var lúin kella sem mætti á æfingu rétt fyrir 9 í morgun. Þreytt eftir gærdaginn og tiltölulega stuttan svefn. Hettumaðurinn var að sjálfsögðu á staðnum og var ég nú svolítið stressuð þegar ég gekk til móts við hann enda ætlunin að segjast stefna á létta lyftingaæfingu í dag. Engan hamagang né hlaup! Það lá við að henda fengi að fjúka en það var sennilega uppgerð því hann sagði enn og aftur að ég ætti að hlusta á líkamann og hvíla þegar skrokkurinn segir svo. Við vorum því sammála um létta æfingu ef ég tæki 5x5 bekkpressu þar sem ég reyndi við sem mesta þyngd. Ég byrjaði með 25 kg., svo 27,5 kg., 30kg., 35 kg. og að lokum 40kg. sem reyndust alveg bærileg en síðasta lyftan var býsna hægfara. Svo var að sjálfsögðu haldið áfram með kvikindislegar kviðæfingar þar til komin var tími til þess að halda heim á leið. Það verður að viðurkennast að það er ósköp gott að koma heim af æfingu og finna ekki til örmögnunar Cool

Hettumaðurinn lét nú ekki þar við sitja heldur setti mér fyrir helgaræfingu ef ég kæmist ekki í Sporthúsið um helgina. Þá skellti hann á mig einni "LÉTTRI" sem ég get gert í stofunni heima. Jebb aðeins 16 mínútur. Fjórar æfingar í fjórar mínútur. Æfing í 20 sek og hvílt í 10. Svo er talið! Æfingarnar eru hnébeygjur, armbeygur, uppsetur og svo má ég velja þessa fjórðu sjálf. Spurning hvort það verði ekki bara tannburst!

Engin skákmót um helgina aðeins æfingar! Páskaeggjamót Hellis verður reyndar haldið á mánudaginn kl. 17 í Móddinni. Allir fæddir eftir 1992 eru velkomnir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband