Með ísbjörn í kvöldmatinn....

Enn ein helgin í Skagafirðinum síðast liðna helgi og 250 nýjum trjám bætt við á Silfrastöðum! Ísbjörnin lét það alveg vera að heimsækja okkur eins og sá síðasti sem kom við í Skagafirðinum en hjá okkur hefði hann án efa fengið mun betri næringu heldur en eggin úr æðavarpinu. Ég hefði til dæmis skellt nokkrum steikum á grillið fyrir hann og farið svo meðan í sund og ísbíltúr út í Varmahlíð í góða veðrinu! Það hefði amk verið mun viturlegra ef hann hefði átt að halda lífi hjá okkur því ef hann hefði farið í gæsavarpið nú svo ég tali nú ekki um rjúpuvarpið þá hefði byssan verið sótt mun hraðar en nokkuð annað og hann sjálfur lent á grillinu hjá kotbændum Silfrastaða og fólkinu af óðalssetrinu og úr Fjallabrekku verið boðið í mat med det samme! En þar sem hann lét ekki sjá sig var bara unnið á fullu og sat Tommi í gröfunni mest alla helgina og gróf fyrir vatnslögn úr fjallalindinni og niður í landið okkar. Eitthvað var hann sjálfsagt að dreyma í gröfunni þegar hann tók símastrenginn í sundur og gerði óðalssetrið símasambandslaust en þar sem bóndinn er vel búin gsm tækninni var þetta ekkert til að svitna yfir og eru menn frá Mílu að leiðrétta þessi leiðindamistök í þessum skrifuðu orðum. Sjálf var ég að planta og sinna börnum og lét ég millistykkin taka hressilega á því í góðum crossfitæfingum. Þeim fannst þetta hrikalega spennandi enda hellings kraftur í svona krökkum.

Elín Edda 4 ára tók: 3 armbeygjur, 5 uppsetur og 10 hnébeygjur 4 lotur á 3:56
Hildur Berglind 9 ára: 5 armbeygjur, 10 uppsetur og 15 hnébeygjur 4 lotur á 4:09

Að vísu var ekki tekin tími á þeim í fyrra skiptið en við ætlum að halda þessu áfram í sumar og gera skemmtilegar crossfit æfingar úti í góða veðrinu. Jóhanna slapp þar sem hún var í skákbúðum á Laugarvatni sem voru víst svona geðveikt skemmtilegar!!!

Í morgun var svo ætt niður í Sporthús um hálf ellefu þar sem við stelpurnar höfðum sofið yfir okkur og fórum ekki á fætur fyrr en hálf tíu! Æfing dagsins var frekar skemmtileg en afar erfið:

Axlarpressa 20 kg x 21
Bakfettur x 21
5 lotur og helvíti voru síðustu lyfturnar í axlarpressunni erfiðar. Nú það má til dæmis ekki nota fótakraftinn svo lyftan þarf að koma algjörlega frá öxlum og höndum svo maður var farin að skjálfa verulega.....  Tíminn 27:46  En nú tekur við framhaldsæfing dagsins sem er heimilisstörf eins og tiltekt og skúringar. Fátt skemmtilegra en einmitt það að draga tusku yfir gólfið og anda að sér ilmandi ajaxlyktinni. Svo er það garðurinn sem nú er að verða fullsmíðaður en þá þarf að fara að færa til plöntur og kaupa nýjar í öll nýju blómakerinn. Grasið vex líka mun hraðar en hárin undir höndunum sem þýðir að ef vel ætti að vera þyrfti ég að slá daglega Gasp


Crossfit æfing dagsins WOD

Eftir frábæra útilegu í Skagafirðinum, nánar tiltekið í landi Silfrarstaða þar sem við hjónin plöntuðum nákvæmlega 399 trjám (ýmsar víðitegundir, sólberjarunnum, reynitrjám, birki, blátoppum ofl.) var ekki á dagskránni að setja fæturnar upp í loft! Samviskusamlega startaði ég upp tölvukvikindinu á mánudagsmorgni og leitaði eftir æfingu dagsins sem var nokk spennandi. Hlaup og ekki bara hlaup heldur 800 m hlaup og 400 m hlaup aftur á bak og svo tvær lotur í tímatöku! Shit segi ég nú bara. Var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að fara að þessu svona á meðan ég var að gefa dætrunum yngstu morgunmatinn. Komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ógerlegt nema ég færi út að hlaupa á hlaupabraut. Svo planið var að taka æfingu sunnudagsins sem var ekki síður áhugaverð:

12 Burpees (armbeygjur úr froskastöðu og endað með hoppi - jebb asskoti lúmsk æfing)
12 upphífingar (ekki svo auðvelt að hífa upp grillrassinn sem nýtur sín í útilegum)
10 lotur í tímatöku!

Þegar ég var að raða dætrunum í bílinn, komin í leikfimisdressið þá hringdi síminn!!! Mín ástkæra vinkona að austan var stödd í höfuðborginni og langaði að kíkja með krakkana í morgunkaffi. Nú eftir að hafa misst af brúðkaupinu hennar hér um árið að því að ég las ekki föstudagur á boðskortinu heldur laugardagur þá fórna ég öllum plönum hugsunarlaust fyrir þessa frábæru konu sem hjúkrar sjúkum á Höfn. Auk þess er hún aðal dílerinn minn. Já það er sennilega rétt að taka það fram að hún er humardílerinn minn sem veigrar sér ekki við að skella humri í flug á gamlársdag svo gestirnir mínir fari ekki svangir heim í nýja árið Cool. Æfingu dagsins var sumsé sleppt en sinnti ég börnum og búi þeim mun betur. Kvöldinu var svo varið með hjúkkuklúbbnum í ljúffengum fiskidinner og síðan í Háskólabíó þar sem við fylgdumst með Carrie Bradshaw og vinkonum takast á við kynlífskomplexa eftir fertugt. Fínasta afþreyging og var mikið um hlátur og gleði.

Morguninn hófst í Sporthúsinu þar sem var tekin æfing sunnudagsins. Eftir 5 lotur var ég orðin frekar léleg í höndunum og upphífingarnar orðnar ein og ein. Finnst frekar hallærislegt að hætta þegar ég er hálfnuð svo ég píndi mig gegnum eina lotu í viðbót áður en ég gafst upp í fyrsta skiptið síðan ég fór að æfa crossfit. Meðan ég var að ná andanum og jafna mig eftir æfinguna hringdi eiginmaðurinn sem spurði hvort ég treysti mér til að moka smá mold í garðinn. Að sjálfsögðu var ég til svo ég skrapp með honum í hádeginu eftir smá mold. Var bara aðeins búin að gleyma því að kerrann okkar er ekki eins og flestar kerrur og tekur því um 1,5 rúmmetir af mold eða svona eitt TONN. Kerrunni var svo haglega komið fyrir neðan við Skjólsalina og húsbóndinn kvaddi. Ég leit á moldarfjallið og hugsaði hvernig ég ætti að leysa þetta verkefni á sem skemmtilegastan hátt. Nú niðurstaðan var í anda crossfit og skeiðklukkan sett í gang! Æfingin var eftirfarandi:

Moka amk einu TONNI af mold í hjólböru
Keyra hjólböru upp rampinn inn í garðinn
yfir grasið og upp rampinn inn á pallinn
Sturtað í blómakerin stóru
og jafnað

Eins margar lotur og þarf til þess að tæma kerruna!
Tími 88:54:15  og ég er bara nokkuð ánægð með mig. Verð þó að játa það að ég tók 12 mínútna pásu eftir svona 700 kg en ég er viss um að rassvöðvarnir hafa fengið að vinna fyrir grillmat helgarinnar og poppsins frá því í gærkvöldi. Nú ætla ég að safna kröftum í smá stund því Tommi er væntanlegur heim á næstunni og stendur til að sækja meiri mold, grastorf og sennilega nokkur tré. Mölin verður að öllum líkindum sótt á morgun........

 


Grænir fingur

Nú er skólanum loks að ljúka og verður vorhátíð og skólaslit haldið í dag í blíðviðrinu í Kópavogi. Þetta er sjötta árið sem Salaskóli slítur starfi sínu og að ég held fyrsta skiptið sem það rignir ekki! Það gæti þó breyst því enn eru ein klukkustund og 38 mínútur þar til hátíðin hefst! Í gær fórum við í foreldraviðtölin með dætrunum sem voru afar ánægjuleg enda frammistaðan afburðagóð. Jóhanna var með bestu einkunir frá upphafi og endaði í meðaleinkunn 9,5 sem er afar fullnægjandi ef með eru talin öll ferðalög vetrarins vegna skákmóta erlendis. Samræmt próf í stærðfræði var líka mjög gott en þar náði hún 8. Hún var reyndar ekki alveg sátt þar sem viðmiðið var 9 en hún má taka það aftur næsta vor ef hún hefur áhuga!!! Næsta ár er svo 10. bekkur með öllu sem því fylgir.

Skákmótin eru orðin færri nú þegar farið er að hlýna en Meistaramóti skákskólans lauk um síðustu helgi. Þar stóð Jóhanna sig ágætlega og verður gaman að sjá nýjan stigalista því hún hefur verið að ná sér í fullt af stigum á síðustu mótum. Hildur Berglind er líka mjög áhugasöm um skákina og teflum við stundum. Hún er líka dugleg að tefla á ICC og gengur alveg ágætlega. Við mæðgur skelltum okkur í skólagarðana í gær og rökuðum garðinn. Settum niður kartöflur og spergilkál. Næstu daga verður svo meira sett niður og stefnt á mikla uppskeru í haust. Annars er Hildur á leið í sumarbúðir á föstudaginn. Ölver er staðurinn! Mikil spenna og tilhlökkun. Restin af fjölskyldunni stefnir á útilegu í nýja ferðavagninum sem við höfum komið fyrir við Silfrastaði. Um síðustu helgi fóru fram vegaframkvæmdir þar sem við vorum tilneydd til þess að skella vegslóða niður á landið okkar og um þessa helgi á að grafa fyrir vatni úr fjallinu og planta nokkur hunduð trjám. Trén eru víst komin á staðinn og bíða eftir sterkum höndum til þess að koma sér í góðan jarðveg en búið er að plægja svæðin sem skjólbeltin eiga að vera og leggja í hann sérstakan plastdúk sem auðveldar trjánum að dafna! Svo megum við grisja skóginn og sækja okkur 1,5m plöntur og koma fyrir í okkar landi! Þórdís og Elín Edda áttu frábærar stundir um síðustu helgi þar sem þær voru úti alla helgina og léku sér í móanum, skottuðust á eftir Snata og þvældust um með mömmu sinni á fjörhjólinu (fjórhjólinu) upp um fjöll og firnindi. Elín sem er mesta náttúrubarnið fannst frábært að mega pissa úti, vaka lengi, vera drulluskítug og þurfa ekki að fara í bað fyrr en við komum heim!

Nú frú Edda er að sjálfsögðu farin að láta sjá sig aftur í Sporthúsinu en fer þó rólega í gang, þe. tek ekki of miklar þyngdir né hleyp of langt. Átti fína æfingu í gærmorgun þar sem ég tók Róður (1000m, 750m, 500m) og hopp á kassa (25, 50, 75) - sem sagt þrjár lotur. Tíminn varð slakari en síðast þegar ég tók þessa æfingu 23:31 en er samt sátt þar sem ég er bara að byrja aftur eftir 3 vikna hvíld. Samt er ég nú reyndar búin að vera dugleg í garðinum hér heima og búin að bera á allt þetta nýja sem við hjónin höfum verið að smíða að undanförnu. Verkefni dagsins í garðinum eru að bera á síðustu umferð og sækja mold í beðin og sand í nýja heimasmíðaða sandkassann! Svo er það bara hænsnaskíturinn og plöntur. Á morgun er stefnt á góða æfingu fyrir helgina Wink 


Stigamót Hellis

Í gærkvöldi hófst Stigamót Hellis í Mjóddinni og mættu 28 þátttakendur til leiks. Fyrstu fjórar umferðirnar fóru fram í gær og voru það atskákir sem tefldar voru. Í dag eru svo tvær umferðir (kappskákir) og morgun sú síðasta. Það er óhætt að segja að stelpurnar Jóhanna Björg og Hallgerður Helga hafi átt frábærar fyrstu umferðir og skiluðu 3 vinningum af fjórum. Þessir vinningar voru ekki svo auðfengnir enda afar öflugt mót á ferðinni. Jóhanna tefldi við Sævar Bjarnason (2220) í fyrstu umferð en laut í lægra haldi eftir vel teflda skák. Því næst vann hún Birkir Karl (1290) en í 3. og 4. umferð átti hún stórleiki þegar hún lagði bæði Jorge Fonseca (2058) og Stefán Bergs (2102). Eftir þennan árangur hefur hún hækkað sig um 42 stig og ætti því að vera komin yfir 1700 atskákstig. Hallgerður átti líka gott kvöld og sigraði meðal annars Rúnar Berg (2121) en laut í lægra haldi fyrir Halldóri B. (2221).

Í dag hófst 5. umferð kl 9:30 og þótti mörgum skákmanni erfitt að vakna svo snemma. Við mættum tímanlega niður í SÍ þar sem síðustu þrjár umferðirnar fara fram. Þar tók Gunzó á móti okkur með rúnstykkjum og tilbehör. Jóhanna tefldi með hvítt á móti Hjörvari og náði ekki yfirhöndinni. Núna þegar aðeins hálftími er í júróvisjón er hún að tefla á móti Atla Frey sem kemur alltaf á óvart.

Annars er unglingurinn á kafi í prófum þar sem fyrsta prófið var í gær og svo halda prófin áfram á mánudag og út vikuna. Jóhanna tók samræmt próf í stærðfræði í byrjun mánaðar og gekk bara mjög vel. Framundan eru svo að sjálfsögðu fleiri skákmót og eitt öflugasta skákmót landsins fer fram um næstu helgi en það er Meistaramót Skákskóla Íslands. Gífurlega vel sótt mót með öllum efnilegustu börnum og unglingum landsins. Það verður óneitanlega spennandi að fylgjast með því.

En það er nú óhætt að segja að frúin sé komin í létt æfingarfráhvarf og hefur því ákveðið að mæta á æfingu á miðvikudaginn í næstu viku. Mér finnst virkilega komin tími til þess að hætta að hvíla því öllu má nú ofgera og líka hvíldinni. Ég gerðist svo öflug að mæta á laugardagsfund sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í morgun því þar var verið að fjalla um íþróttir og tómstundir í litla bænum mínum. Þetta var ákaflega upplífgandi og skemmtilegt því ég hef ekki gert þetta áður og held hreinlega að ég hafi verið eina nýja andlitið sem hefur litið inn í þennan sal í einhverjar vikur!! Að minnsta kosti var vel tekið á móti mér og ýmsir spurðu mig spjörunum úr. Ég fann mig að sjálfsögðu knúna til þess að ræða málefni skólaskákarinnar og nefndi í því samhengi Skákakademíu Reykjavíkur sem mér finnst stórkostlegt framtak svo lengi sem hún fer í gang og virkar - og ég hef fulla trú á! Ætli ég verði kannski að skella mér út í bæjarpólitíkina?? Hins vegar komst ég að því á þessum fundi að það er til keppni um sterkasta prest í heimi! Veit ekki hvað hann tekur í bekknum en veit þó að hann tekur 240kg upp að hnám! Hvað ætli sterkasta hjúkka í heimi taki? Er ekki viss, en eins og flestir vita þá hef ég áhuga og er alvarlega farin að pæla í ólympiskum kraftlyftingum......W00t


Uppskeruhátið þrekmeistara

AlbumImage[12]Glæsilegur hópur þrekmeistara úr Sporthúsinu sem tóku þátt í apríl 2008. Á myndina vantar aðeins eina Sporthúskonu, Hrund Scheving sem var að keppa í liðabúning wc stelpna meðan myndin var tekinTounge.  Annars eru þessir á myndinni: Kristín, Alda, Jóna, Guðrún Helga, Soffía, Eddan, María og Ingunn og strákarnir: Kolbeinn, Hilmar, Leifur Geir og Annas.

Í kvöld ætlar hópurinn að hittast ásamt hettumanninum í tilefni þess hve dugleg við erum. Við ætlum ekki að hoppa og skoppa að þessu sinni heldur ætlum við að borða mishollan mat og fullt af eftirréttum! Einhverjir munu að sjálfsögðu skála í gosdrykkjum - jafnvel sykruðum og skola þannig niður súkkulaðikökum og ís! Þrautseygja, keppnisskap og frábært viðhorf er einkenni fólksins sem er á öllum aldri og stefna allir á þátttöku í nóvember nk. Það eru sumsé fleiri en ég sem eru létt bilaðir og hafa ánægju af því að þenja vöðvana til hins ítrasta á degi hverjum.

Annars hef ég samviskusamlega hvílt nú í viku samkvæmt læknisráði og mun gera það áfram næstu viku. Eftir það get ég nú fljótlega farið að æfa rólega aftur. Reyndur hlaupari sem hefur lent í samskonar áverka á fótum sagði mér að ef vel ætti að vera þýddi það hvíld í þrjá til fjóra mánuði - WELL þeir sem þekkja mig myndu segja þá þarf að sækja ólarnar! Nú ég ætla að bæta tímann minn djöfullega mikið í næstu keppni, hef reyndar ekki sett markmiðið á Ingunni en ætla að ná einhverri hinna Cool.

 


Berlín, Skáksamband Íslands og handstöðuarmbeygjur!

Það er óhætt að segja að Berlín sé nútímaborg með einstökum nútímaarkitektúr sem er algjörlega framúrskarandi. Magnað að sjá eina alls ekki svo stóra borg breytast á svona ótrúlega skömmum tíma. Síðast kom ég til Berlínar 2002 og fannst mikið til hennar koma. Að þessu sinni naut ég borgarinnar enn betur enda hafði ég rýmri tíma til þess að spóka mig um í borginni og drekkja mér í byggingarlist og menningu. Það er líka óhætt að segja að sennilega hafi margur burðarþolsfræðingurinn fengið að svitna yfir teikniborðinu þegar beðið var eftir teikningum af hinum ýmsu glerhöllum og skyggnum sem virtust engar undirstöður hafa! Þegar múrinn féll hér um árið var ég enn óharnaður unglingur í 5. bekk í Versló. Eiginmaðurinn var ennþá bara kærastinn minn og saman höfðum við stærðfræðikennarann Lúðvík sem áttir rætur sínar að rekja til austur hluta Berlínar. Daginn eftir þennan stórviðburð flaug Lúðvik heim á leið í fyrsta sinn frá því hann yfirgaf heimaslóðirnar. Tveimur vikum síðar fengum við stærðfræðikennsluna aftur og með fylgdu tugir múrbrota sem kennarinn sýndi okkur afar stoltur. Ég get fúslega viðurkennt það að ég kann mun betur að meta og skilja þetta í dag en þá! En öll fengum við brot úr veggnum ógurlega sem enn stendur í einhverri mynd á víð og dreif um borgina.

Meðan dvöl minni í Berlínarborg stóð fór fram í Faxafeninu aðalfundur Skáksambands Íslands þar sem nýr formaður var kjörinn. Björn Þorfinnsson eðalskákmaður og að sjálfsögðu Hellismaður náðir þar ótvíræðu kjöri. Í stjórn var líka valin Edda nokkur Sveinsdóttir sem fékk titilinn gjaldkeri SÍ. Þetta fynnst mér afar ánægjulegt enda hef ég endalausar hugmyndir um ýmsa þætti er snúa að skák á Íslandi. Eðlilega eru mér efst í huga málefni barna og unglingaskákar en það er að sjálfsöfðu mjög mikilvægur þáttur í starfssemi SÍ. Er því viss um að koma að gagni enda hafi einn helsti áhugamaður Íslands um skák og Skáksambandið mikla trú á því að ég sem eina konan í stjórninni geti starfaði til jafns við þær fjórar sem áður voru!!! -eða eitthvað svoleiðis..... Engu að síður er ég bara mjög spennt fyrir þessu og hlakka mikið til þess að vinna með þeim frábæru einstaklingum sem þarna eru.

Nú ég hef að sjálfsögðu verið dugleg í ræktinni síðan ég kom frá Berlín enda þörf á því þar sem matarmenningin var líka einkar skemmtileg! Átti ég til dæmis skemmtilega æfingu á dögunum með Leifi og Reyni þar sem við æfðum handstöðu. Ég átti reyndar ekki í vandræðum með handstöðuna heldur fékk ég þann heiður að kenna Leifi að standa á höndum. Það hafði hann ekki gert síðan hann var í barnaskóla og hafði lent í einhverskonar hremmingum í leikfimi. Ekki vorum við að æfa handstöðu til þess að sjá veröldina á hvolfi heldur til þess að geta tekið Crossfit æfingu sem inniheldur 21-15-9 handstöðuarmbeygjur - og hverjum finnst það ekki spennandi! Ég get það en mikið helvíti erfitt sem það er! Þarf örugglega svolítin tíma til þess að ljúka þessum lotum en ég er viss um að í lok sumars verður þetta auðveldara en hjá sjálfum Íþróttaálfinum.

Þessa vikuna sit ég hins vegar heima og þá næstu líka. Nú er highly important að hvíla vöðvafesturnar í kálfunum enda ögraði ég þeim endanlega í síðustu viku þegar ég var úti á plani í sippukeppni við ungviði götunnar og börnin mín að sjálfsögðu. Ég vann! En fæturnir þoldu ekki hoppið á stéttinni í þunnbotna Pumaskvísuskónum.  Skynsemin segir mér að hvíla núna á vordögum og eiga allt sumarið í góða þjálfun enda séu aðeins rétt tæpir 6 mánuðir í næstu keppni.


Og áfram er æft!

Það er ljóst að ég verð að halda áfram að hamast eins og óð manneskja ef ég ætla að ná markmiðunum í haust. Ég er reyndar rétt nýbyrjuð að æfa aftur eftir veikindin og mæti fyrst á föstudaginn síðasta. Lagði nú ekkert gríðarlega á mig en mætti gallvösk í ástandmælingu á Leifsa á laugardagsmorgun kl. 8. Eftirtaldar æfingar voru gerðar eins oft og við gátum:

Bekkpressan 30kg: x24
Upphýfingar (haka uppfyrir stöng og engar pásur): x3
Hné upp að olnboga (hangandi á priki): x14
Axlarpressa (stöng m. 12,5 kg -of létt): x70

Á mánudag tók ég létta hlaupaæfingu og nokkrar styrkæfingar. Tók t.d. 2x50k í bekknum eftir að hafa tekið 45kg x5. Þarna var ég undir harðri hendi Reynis sem sagði að ef ég gæti gert 5 sinnum 45kg þá gæti ég alveg tekið 1-2 x 50kg. Nú er markið sett á eina og hálfa líkamsþyngd hehehehe!
Af einskærri leti mætti ég ekki á þriðjudag og tók þá upplýstu ákvörðun um að þrífa frekar heimilið mitt. Skúra og solleis! Það tekur líka á og brennir fullt af kaloríum. En hef nú ekki trú á því að það auki þolið! Í morgun staulaðist ég svo inn í Sporthúsið kl.10 þar sem ég átti stefnumót við Kristján þjálfara sem fékk að klípa í mig og mæla hlutföllin og get ég upplýst að það kom afar hagstætt út fyrir mig og gott að sjá það svart á hvítu að einhver árangur er á fituforðanum. Á einum og hálfum mánuði hef ég losað mig við amk 2kg af fitu og tel ég það nú býsna gott! En þegar ég kom í salinn var nú bara hlegið að mér enda finnst Reynsa ekki mikið til mælinga koma. Segir mig hugsa um ótrúlega fyndna hluti - jó en ekki hvað? Ég er ljóshærð hjúkka!!! Lagði Reynir svo til að ég myndi æfa mig upp í ólympiskar kraftlyftingar og stakk upp á 300 thursterum enda eigi ég ekki skilið að skála í kampavíni um helgina! Njah smá ýkjur. Baðst undan thrusterum og sagðist frekar vilja hamast því það er mun betri undirbúningur fyrir helgina en harðsperruæfingar. Og verkefni dagsins var:
Róður 1000m
hopp á kassa 25
Róður 750m
hopp á kassa 50
róður 500m
hopp á kassa 75
Tíminn 21:43
Á morgun á svo að skella sér í Bláa Lónið, fá sér huggulegan hádegisverð og skella sér svo á Leifsstöð enda stefnan tekin á Berlín þar sem ég ætla að eyða helginni með Tomma og 34 vinnufélögum hans og mökum. Frábært eins og ávallt því þessi hópur er einstaklega hress og skemmtilegur. Hvítvín og kampavín ásamt góðum mat - hvað getur klikkað? humm, annað en að seinka fluginu frá Íslandi um 8 tíma og láta mann ekki einu sinni vita......

Svona í restina er tilvalið að benda ykkur á að kíkja inn á síðu Þrekmeistarahópsins (hér til vinstri í tenglum) og skoða myndir úr keppninni. Þær eru einstaklega vel valdar þar sem allir í hópnum að einum aðila undanskildnumAlien, eru afar einbeittir á svip.


Skákin

Jæja það er komin tími til að taka saman smá pistil um gengi dætranna sl. vikur í skákinni. Þær fóru til Osló 18.-21. mars og tóku þátt í norðurlandamóti stúlkna sem var haldið í annað sinn. Jóhanna átti afar fínt mót sem hún lauk með 3 vinninga af fimm og endaði í 5. sæti í flokknum 13-16 ára. Þar af var aðeins eitt tap en tvö jafntefli. Samkvæmt lærimeistaranum tefldi hún vel en gleymdi sér aðeins á miðju móti og tefldi aðeins of hratt en það er hennar helsti veikleiki. Hildur Berglind 8 ára tefldi í flokkinum yngri en 13 ára og var lang yngsti keppandinn á mótinu. Hún tefldi ágætlega og gerði tvö jafntefli við mun sterkari andstæðinga. Hildur vakti mikla athygli á mótinu fyrst og fremst fyrir að vera mjög ung og tefla vel en líka fyrir það hversu mikil skvísa hún er! Kannski ekki ýkja erfitt innan um skandinavann en við erum jú að tala um Hildi skvísu. Pabbanum og dætrunum tveimur fannst afar dýrt að vera í Osló og áttu bágt með að skilja hvað útlendingum finnst dýrt að vera á Íslandi enda hafi þau borgað 6500 isk fyrir þrjár litlar pizzur og kók á skyndibitastað. Ekki nóg með það þurftu þau einnig að borga fyrir að fá að nota klósettið inni á veitingastaðnum sem og á öðrum stöðum í borginni. OG það var sko alls ekki ódýrt - heilar 150isk á hvert piss!

Strax degi eftir heimkomu var haldið Kjördæmamót Reykjaneskjördæmis í Salaskóla. Sá sem hampar efsta sæti á því móti fær sæti á Landsmóti. Tveir efstu úr mótum sveitafélaganna innan kjördæmisins (í flokkunum 1.-7. og 8.-10. bekkur) öðlast þátttökurétt á Kjördæmamóti. Jóhanna sem er krýndur Kópavogsmeistari tók þetta mót algjörlega í nösina þegar hún vann alla andstæðinga sína hvern á fætur öðrum í hörku einbeitingu enda hafði hún meðtekið allt sem Helgi lærimeistari hamraði á í Oslóarferðinni. Með þetta að leiðarljósi vann hún sér inn rétt á Landsmót sem fór fram á Bolungarvík sl. helgi. Þar tefldi hún ágætlega en náði ekki eins langt og hún hafði vonast eftir. Hún hefur reyndar einu sinni náð þriðja sæti á þessu móti en hingað til hefur engin stelpa unnið þetta mót. Það var Patrekur bekkjarbróðir hennar sem vann mótið af miklu öryggi enda vann hann allar skákirnar sínar 11 og geri aðrir betur. Hallgerður kom á eftir honum í 2. sæti og Svanberg í því þriðja. Jóhanna endaði í 5. sæti með 6,5 vinninga. Meðan á þessu stóð tók Hildur Berglind þátt í sumarskákmóti Fjölnis í Rimaskóla á sumardaginn fyrsta. Þar landaði hún þremur vinningum af fimm og endaði í öðru sæti stúlkna á eftir Hrund Hauksdóttur.

Framundan er ágætis skákhvíld - svona sirka fram að meistaramóti skákskóla Íslands sem er trúlega í lok maí, byrjun júní. Þangað til verður bara lært og lært enda stefnir stúlkan á samræmt próf í stærðfræði þann 8. maí. Hún hefði gjarnan viljað taka íslenskuprófið líka en eitthvað virtist skorta á upplýsingaflæði milli kennara því íslenskukennarinn stóð föst á því að 9. bekkingar mættu ekki þreyta samræmt próf í íslensku. Þegar þetta var loksins komið á hreint voru rétt tæpar 3 vikur til stefnu og tók Jóhanna þá ákvörðun að segja sig úr prófinu enda verði hún að hafa eitthvað að gera í skólanum næsta vetur Wink


Og þvílík sæla....

Alsæl Edda með litlu strumpana tvoLoksins komnar heim eftir nokkuð góð bílferð frá Akureyri. Markmiðið var að komast sem lengst meðan Þórdís svæfi enda sárlasin. Og viti menn, hún rumskaði í Hreðavatnsskála þar sem við mæðgur tókum pissustopp og héldum strax aftur heim á leið. Meðan þær systur sváfu í bílnum var ég strax komin á flug. Þrátt fyrir að vera í raun enn sárlasin þá var ég byrjuð að plana það hvernig ég gæti platað Tomma með mér á mótið í nóvember. Hann þarf jú hvort eð er að þjálfa sig upp fyrir rjúpugöngurnar auk þess sem það er bara helvíti þungt að bera hreindýr á öxlinni niður heiðarnar fyrir austan! Jebb verð að nýta sannfæringakraftinn minn til þess að draga hann með mér fyrr en seinna í næstu keppni. Sumir staldra kannski við hér og telja mig endanlega geðveika - eðlilega enda á ég fjögur börn! Kannski er ég bara enn með óráði eða í sigurvímu yfir þessu öllu saman. Það er ljóst að ég lagði á mig eld og brennistein til þess að ná þessum árangri og þó ég hafi ekki náð settu markmiði þá er víst að ég geri það næst. Ég gerði ekki ráð fyrir neinum frávikum í þetta skiptið og mun ekki gera það næst heldur. Ég gefst heldur ekki upp fyrr en ég verð komin undir 20 mínúturnar svo líklega verða akureyringar að venja sig við komur mínar til bæjarins. Ekki svo að skilja að það þurfi mörg skipti til þess að ég nái settu marki!

Auk Tomma og dætranna sem hafa veitt mér óbyljandi stuðning frá fyrsta degi þá eru tveir einstakir menn sem hafa líka átt sinn þátt í þessum árangri. Þeir eru Leifur Geir sem bauð mér á stefnumót einn laugardagsmorgun í Sporthúsinu og vildi sjá hvernig ég gerði þessar uppsetur sem ollu því að ég gat ekki tekið þátt! TÆKNILEG mistök voru þar að verki og kenndi hann mér að þetta gæti ég vel gert. Þann dag gat ég að vísu ekki gert EINA en núna get ég ENDALAUST jafnvel þótt búið sé að skera magavöðvana mína FIMM sinnum í sundur! Leifur kenndi mér líka að nota róðravélina og síðast en ekki síst að hlaupa. Og það er bara svolítið gaman. Þolið var og er það sem ég þarf helst að vinna í og hef ég nógan tíma til þess fram að næstu keppni. Hinn maðurinn í þessu öllu er sjálfur Hettumaðurinn Reynir sem hefur með ótrúlegri tækni og lagni náð tökum á mér hvað varðar allar æfingar og viðmót. Hann hefur tekið mig og allan hópinn rækilega í gegn, bæði líkamlega og andlega. Öll viðhorf eru allt önnur og reyni ég markvisst að hugsa aldrei um takmörk mín heldur fyrst og fremst markmið mín! Reynir hefur sett mér fyrir ótrúlegustu æfingar og svo hefur hann líka kennt mér á klukku. Nú er ég orðin hrikalega lagin á að taka tímann á öllu sem ég geri jafnvel hve langan tíma tekur að stytta sippuband með stálvír - 27 sekúndur! Jebb hann kenndi mér líka að sippa - sippa tvöfallt, það er alveg að koma Reynir!
Ég má nú samt ekki gleyma honum Kristjáni mínum Jónssyni einkaþjálfara hjá Þjálfun.is sem er einn af mínum bestu vinum og á óneitanlega hlut í árangri mínum. Takk enn og aftur fyrir allt sem þið hafið gert fyrir mig - og munið gera fyrir mig í framtíðinni Wink

Svo er ég búin að setja inn nýtt myndaalbúm sem sýnir aðallega sjálfa mig í Þrekmeistarakeppni helgarinnar. Þrátt fyrir að vera himinlifandi og alsæl með keppnina þá er það ekki ástæðan fyrir því að allar myndirnar eru af mér sjálfri heldur var það klappliðið mitt sem var með myndavélina allan tímann og því eiginlega engar myndir teknar af öðrum en mér.....


Þreikmeistaranum 2008 lauk í dag

Jæja nú er þessu bara lokið og gekk nú alls ekki þrautarlaust! Við mæðgur keyrðum inn í höfuðborg norðurhjarans rétt um kl. 18 á fimmtudagskvöld eftir frekar þægilega bílferð með pissustoppi á Blönduósi og akút í spreng pásu við Silfrarstaði í Skagafirðinum. Fórum beint í Bónus og keyptum vistir og komum okkur svo fyrir í Hrafnagilsstrætinu. Það var einmitt þá sem frú Edda fór að finna fyrir óþægindum í hálsi og andþyngslum sem ágerðust þegar líða tók á kvöldið. Laufey akureyrarmey kom til hjálpar hjúkkunni með töfradrykk sem hún blandaði og fyllt mig af alls kyns sólhöttum og engiferi. Föstudagurinn var afar dapurlegur í sólinni þar sem öll fyrirheit um sundlaugarferðir með börnunum og rölt í bænum voru rofin með veikindum mínum. Ég hélt mig að mestu heimafyrir í tedrykkju og sólhattaáti. Milli þess reyndi ég að borða kolvetni svona bara til öryggis ef ég gæti tekið þátt. Þegar líða tók á kvöld var ég orðin afar döpur og leið yfir að vera komin alla þessa leið, ein með tvo unga og í toppformi og geta svo ekki tekið þátt. Ég verð líka að viðurkenna það að ég réði ekki við þessa tilfinningu og leyfði mér bara að syrgja það. Kl. 21 mætti ég svo ásamt Ásgeiri á undirbúningsfundinn í Höllinni og sá alla stemmninguna. Það gerði bara illt verra og leið mér í raun enn ver. Sporthúsfélagarnir sögðu mig líta ansi veiklega út enda náföl sem dauðinn - afar upplífgandi Frown. Það var því afar slöpp og leið hjúkka sem fór að sofa í gærkvöldi og hún var ekki á leið í keppni dauðans AKA Þrekmeistarann!

Eftir þokkalegan svefn vaknaði ég fyrir sjö í morgun og leið nú ögn skárr. Eftir samtal við heimilislækninn minn í gær þá hafði ég tekið þá ákvörðun að ef ég væri með hita í morgun myndi ég ekki taka þátt enda hafði hann þrívegis ráðlagt mér eindregið frá því! Það var því ekki annað að gera en að mæla frúna og taka ákvörðun eftir það. Engin hiti svo ég var því ekki að svíkja lækninn! Þar sem líðanin var ágæt undirbjó ég mig eins og ég myndi taka þátt og kl. níu var ég lögð af stað niður í íþróttahús. Þar sem fæstir bjuggust við að sjá mig var vel tekið á móti mér og ég ágætlega stemmd þrátt fyrir augljós veikindi og þunga öndun. Svo ég ákvað að taka þátt! Ég var í 14 umferð og varð þetta lokarennsli einstök upplifun dauðans! Ég tók strax þá ákvörðun að hugsa ekki um markmiðin mín og keyra þetta á mun hægara tempói enda væri engin skynsemi í öðru eins og ástatt var fyrir mér. Hjólið varð mér fáránlega erfitt en það hef ég aldrei upplifað áður. Hvort það var vegna veikindanna eða hjólið bara vitlaust stillt or something þá tók það alltof mikið frá mér. Róðurinn var öruggur og niðurtogið líka. Fótalyfturnar voru frekar erfiðar þar sem grindin sem maður hangir í var miklu breiðari en ég er vön svo ég átti mjög erfitt með að halda stöðunni. Pásaði þar að ég held tvisvar frekar en einu sinni. Svo komu armbeygjurnar í einum rykk eins og alltaf!!! en svo kom æfingin frá helvíti - uppstigin. Það var langerfiðasta æfing dagsins enda dómaraskottið afar ósanngjarnt að mínu mati og ég gerði minnst 120 því ekkert var nógu gott fyrir hana. Eftir á sögðu allir áhangendur mínir að þeir hefðu verið vissir um að þarna myndi ég gefast upp enda hef ég ekki tölu á pásunum. Hreint helvíti á jörðu en uppgjöf er ekki til í orðaforða fjögurra barna móður - það þykir ekki góð fyrirmynd þótt einhverjir hefðu sjálfsagt skilið mig.....  Þegar þessu lauk var komið að æfingunni sem ég hélt að ég gæti ekki hérna í janúar og ætlaði því ekki að taka þátt í keppninni. 60 uppsetur gerði ég prýðilega vel með tveimur stuttum pásum. Þarna var frábær dómari sem var bæði leiðbeinandi og hvetjandi. Held ég hafði svo klárað axlarpressuna í einum rykk án þess þó að vera viss en dómarinn var sífellt að segja mér að fara neðar sem var gjörsamlega ómögulegt þar sem tækið komst aldrei neðar. Hún gerði sér sjálfsagt ekki grein fyrir því að ég væri ekki jafn hávaxin og Cameron DiazGrin. Og svo var komið að hlaupabrettinu sem að þessu sinni var ekki erfiðast bara ógeðslega löng æfing. Ég tók brettið frekar hægt enda átti ég mjög lítið eftir af orku og ætlaði mér að klára þetta og lifa! Náði aldrei að hlaupa enda vissi ég að ég yrði að eiga eitthvað eftir fyrir bekkinn. Ég var eiginlega mjög ánægði þegar þangað kom því þá vissi ég að þetta myndi taka enda - þið vitið eins og þegar maður er óléttur og líður hræðilega illa þá er öruggt að það mun taka enda á ákveðnum degi! Já það var einmitt þetta sem ég hugsaði þegar kom að bekknum. 25 kg eru ekkert mál jafnvel í 40 lyftum. En í þetta skiptið tók ég bekkinn í þremur pásum og þurfti að arga á drengstaulann sem var dómari því hann var aðallega að horfa út í loftið en ekki að fylgjast með! Ég lauk keppni í dag á 32:5++++ Man ekki nákvæmlega og ég er svakalega ánægð af því að ég bjóst hreinlega ekki við að geta tekið þátt í dag. Svo var ég ekki í neðsta sæti heldur því næst neðsta svo ég er mjög hamingjusöm í dag.

Ég vil þakka mínu frábæra klappliði sem keyrði mig í gegnum þetta í dag. Öskrin og hvatningin var mér mikils virði og hefði ég sjálfsagt náð botnsætinu ef þeirra hefði ekki notið við. Í mínu einkaklappstýruliði var fyrirliðin Frú Hildur Vernudóttir sem hefur stutt við bakið á mér á erfiðu æfingartímabili en henni til fulltingis voru eftirtaldir:
Elín Edda Jóhannsdóttir
Þórdís Agla Jóhannsdóttir
Sigurlaug Jóhannsdóttir
Ásgeir Jóhannsson
Jóhanna Freyja Ásgeirsdóttir
Katrín Ósk Ásgeirsdóttir
Laufey Gunnarsdóttir
og svo að sjálfsögðu Sporthúsfólkið mitt og nokkrir aðrir dyggir stuðningsmenn.

Í kvöld hittist svo Sporthúshópurinn á Greifanum og áttum við saman yndislega stund yfir góðum mat og frábærri súkkulaðiköku með fullt af próteinríkum rjóma.

Nú svo til að kóróna allt saman veiktist Þórdís Agla líka í dag og var hún með 39,4°c þegar hún fór að sofa og sömu andþyngsl og ég hef haft. Hún er reyndar mun veikari en ég hef verið enda töluvert yngri og viðkvæmari en hugsanlega verðum við að kíkja til læknis á morgun áður en við höldum í bæinn. Heimferð ein með veikann stubb er ekki spennandi tilhugsun en heim vil ég komast!

Að ári liðnu mun ég án efa taka þátt að nýju og stefna þá að mun betri tíma enda hef ég nú þegar tekið þá ákvörðun að veikindi eru ekki í boði (frekar en þau voru núna!).
Svo gleymdist snúran úr myndavélinni í tölvuna heima svo ég get ekki sett inn myndir strax en mun gera það við fyrsta tækifæri.

Takk enn og aftur fyrir allan stuðninginn og hvatningun......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 820

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband