Með púlsinn í 300...

... eða hér um bil! Eftir alltof löng veikindi í síðustu viku er ég að sjálfsögðu byrjuð að æfa aftur. Það hefur alls ekki verið auðvelt því ég er greinilega ekki orðin nógu þrekmikil ennþá. Mánudagsæfingin var tekin samkvæmt plani en ég fann strax að ég gat ekki sett allt í botn. Fór í gegnum prógramið og þegar kom að uppsetunum ógurlegu fékk ég ónotstilfinningu og hálfgert panickast sem endaði í 60 magaæfingum. Þolið hefur ekki verið sérlega gott svo ég þurfti aðeins að pása á milli en góðu fréttirnar eru þær að af þessum 60 voru amk 40 sem náðu alla leið. Það er framför!!

Í dag gerði ég ráð fyrir að vera orðin miklu betri en í gær og mætti eldhress til þolþjálfunar og nú átti sko að taka á því. Fyrst hljóp ég 1,5 km í 3% halla - gekk fínt. Skottaðist svo yfir á þrekstigann og tók þar 10 mínútur sem urðu eitthvað óvenjuerfiðar og mæðin gerði vart við sig Frown. Mér fannst ég samt verða að halda áfram svo ég ákvað að taka 500m róður. Það tók reyndar aðeins 2:08 sem er ekki alslæmt en ég var svo móð að ég stóð ekki upp alveg strax. Var reyndar með púlsmælinn á mér og ef ég hefði staulast að næsta Technogym tæki hefði mælirinn án efa sýnt amk 300 slög/mín. Eða þannig leið mér amk. Crying  Þegar mig hætti að svima og púlsin komin niður í 130 tók ég fótalyftur og maga. Teygði vel úr öllum limum og fór heim í fýlu!

Eftir svona æfingu dettur maður úr öllu stuði og langar að gefa skít í Þrekmeistarann! En ég á tvo góða mánuði eftir og get án efa bætt mig töluvert á þeim tíma....


Íslandsmót stúlkna 2008

Helgin var fjörug hjá íslenskum skákstelpum þar sem tvö mót voru haldin hjá SÍ. Á laugardag var haldið Íslandsmót grunnskólastúlknasveita 2008 og tóku 8 sveitir þátt í keppninni. Salaskóli átti tvö lið en þau voru skipuð frekar ungum stelpum að Jóhönnu undanskilinni. Í A-sveit Salaskóla var Jóhanna á fyrsta borði og Hildur Berglind 8 ára á öðru borði. Sveitin stóð sig mjög vel gegn öflugum liðum Rimaskóla A-sveit og grunnskólans á Seltjarnarnesi A-sveit. Í A-sveit Rimaskóla voru þær Sigríður Björg og Hrund Hauks á fyrsta og öðru borði en þær Geirþrúður og Stefanía á fyrstu borðum Seltjarnarness. Báðar sveitirnar höfðu flottar sveitir sem leiddu þær í fyrsta og annað sætið en sveit Salaskóla fylgdi þeim fast eftir í þriðja sætið með 20 vinninga. Hildur Berglind stóð sig frábærlega enda vann hún 5/7 skákum og tapaði aðeins fyrir Hrund (´96) og Stefaníu (´94). Jóhanna átti líka góðan dag á laugardaginn en hún vann 6/7 skákum og fékk því borðaverðlaun fyrir fyrsta borð ásamt Siggu og Geirþrúði.

 IMG_6323

Það eru verulega efnilegar stelpur sem eru að tefla þessa dagana og var fjörið mikið þennan dag enda mikil spenna í loftinu. Hjallaskóli kemur líka sterkur inn með tvær sveitir sem eru skipaðar nokkuð ungum stelpum og Hólabrekkuskóli er að taka þátt í fyrsta sinn með efnilegar stelpur. B-sveit Salaskóla kom líka verulega á óvart enda fullskipuð ungum stelpum sem hafa ekki mikla þjálfun fengið þar má nefna yngstu stelpu helgarinnar sem heitir Signý og er systir Birkis Karls úr Heimsmeistaraliði Salaskóla. Signý er fædd 2000. Sveitinn var í fyrsta sæti B-sveita en í 5. sæti í heildinna með 7,5 vinning.

IMG_6328
  

IMG_6364Á sunnudeginum var svo Íslandsmót grunnskólastúlkna 2008 (einstaklingskeppni). Þar var keppt í tveimur flokkum: 1992-1994 og 1995 og yngri. Efnilegustu stelpur landsins öttu kappi í eldri flokk og var býsna jafnt á köflum. Sigríður Björg og Hallgerður voru í 1-2. sæti með 3,5 vinninga og eiga eftir að tefla einvígi um fyrsta sætið. Jóhanna endaði í þriðja sæti eftir tvö jafntefli og tvö töp, þe. 1/4. Því miður reyndist þessi sólarhringur Jóhönnu gríðalega erfiður vegna fráfalls í fjölskyldunni og átti hún mjög erfitt með að einbeita sér á sunnudeginum. Í framhaldinu hefur hún ákveðið að taka ekki þátt í Meistaramóti Hellis sem hefst í kvöld þar sem kistulagning og jarðarför er framundan.

IMG_6430Hildur Berglind stóð sig frábærlega í einstaklingskeppninni og náði þriðja sæti sem þykir nokkuð gott fyrir 8 ára skvísu í flokki 12 ára og yngri. Hún fékk 5/7 og var á eftir Hrund Hauksdóttur 7/7 og Huldu Rún 6/7 en Hildur tapaði aðeins gegn þeim tveimur. Þær stelpur sem vour í 2. - 5. sæti, Hildur, Hulda, Sonja og Sóley munu svo tefla 3 langar skákir um sæti á Norðurlandamóti stúlkna í flokkinum 12 ára og yngri. Hrund hefur nú þegar unnið sér inn rétt til þátttöku á mótinu og Jóhanna mun keppa í flokki 13-16 ára. Mótið fer fram í Osló Þrekmeistarahelgina 18.-20. apríl nk.

 

Palli, Helgi Árna og Guðfríður Lilja stóðu skákstjórnarvaktina báða dagana og gerðu það frábærlega eins og alltaf. Frú Edda lagði hjálparhönd og gerðist hirðljósmyndari mótsins auk þess að skrá úrslit. Ég verð alltaf betri og betri skákstjóri með hverju mótinu Cool. Birna TR sjoppukona vakir eins og engill yfir keppendum og bakar hverja vöffluna á fætur annari ofan í keppendur og stjórnendur. Annars vil ég geta þess að það var sérstaklega ánægjulegt hve margir foreldrar komu og fylgdust með skvísunum. Ég hitti meira að segja eina af þremur systrum mínum sem var þar með stjúpdóttur sinni sem tefldi á öðru borði í B-sveit Hjallaskóla. Báða dagana voru svo dregin út ógrynni af happdrættisvinningum og varð Hildur frekar heppin því hún var dregin út báða dagana og Jóhanna þann fyrri!IMG_6308

Það voru ekki bara Jóhanna Björg og Hildur Berglind sem voru á skákmóti um helgina heldur var Elín Edda mætt á laugardeginum til þess að hvetja systur sínar áfram og styðja sveitir Salaskóla. Elín Edda er mjög dugleg að mæta á skákmót og hefur tvisvar sinnum fengið viðurkenningar frá Skáksambandi Íslands fyrir að vera besti áhorfandinn á móti. Á laugardaginn mættu fréttamenn frá RÚV og tóku við hana viðtal sem birtist í fréttunum í gærkvöldi. Á þessum link má sjá viðtalið við fröken Elínu Eddu Jóhannsdóttur upprennandi skákdrottningu: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397832/21

IMG_6311


Allt frábæra fólkið í lífinu

 Ég á ógrynni af frábærum vinum og kunningjum svo ekki sé minnst á alla stórfjölskylduna sem ég er svo rík af. Mér þykir líka óendanlega vænt um alla mína vini og ættingja og líka þá sem eru mér bara sem kunningjar. Af einhverjum orsökum kynnist ég afar mikið af fólki og má segja að það sé hvert öðru betra og skemmtilegra. Það er nú líka staðreynd að ég er mikil félagsvera og hef gaman af alls kyns mannfögnuðum. Jafnvel því að sitja með sama fólkinu helgi eftir helgi á skákmótum því þar hef ég svo sannarlega kynnst fyrsta flokks foreldrum, börnum, skákfólki og öðru áhugafólki.

Þakklæti er það sem ég er að reyna koma frá mér núna! Ég er svo þakklát fyrir ykkur öll því öll skiptið þið máli í lífi mínu á einhvern hátt. Á laugardagsmorgun hitti ég eina af þessum einstöku vinum sem ég á. Það er hún Rut mín, hjúkka, sölufulltrúi og nuddari. Rut er frábær í einu og öllu. Við eigum okkar skemmtilegustu stundir þegar hún kvelur mig af hjartans list á nuddbekknum sínum. Stundir sem ég mun minnast í ævisögu minni þegar ég verð orðin borgarstjóri í Kópavogi! Rut er ein af þessum konum sem ég hef án efa secretað til mín, ómeðvitað gegnum allt lífið. Hún er stelpan sem átti heima í Selásnum þegar ég var strumpur í Hraunbænum og var með systur hennar í bekk. Hún er ein sú fyrsta sem ég hitti þegar ég byrjaði í hjúkrun á síðustu öld og hún fór fljótlega að vinna á sama vettvangi og ég í lyfjageiranum. Ég man þegar hún nuddaði axlirnar á mér í fyrsta sinn. Jebb þetta hljómar eins og ástarsaga!!! En það var einmitt á rómantískum stað í miðju Bláa Lónsins. Rut þjarkaði mér gegnum tvær meðgöngur. Í gær vorum við að rifja upp þegar hún þurfti að nýta fyrstu 30 mínúturnar af nuddtímanum til þess að komast í gegnum 100 metra vökvalag mitt, bjúginn þegar ég var 30 kílóum þyngri en ég er í dag. Við Rut höfum átt okkar stundi - svo sannarlega! Elsku Rut TAKK fyrir að vera til. 

Eitt finnst mér merkilegt og það er hvernig leiðir margra vina minna hafa tengst mínu lífi í gegnum árin án þess að við höfum náð að kynnast fyrr en jafnvel nú í seinni tíð. Eva Björk er ein af þeim sem hefur alltaf verið í kringum mig frá því ég var 4 ára gömul í Hvassaleitinu, 6 ára í Ísaksskóla, í Hraunbænum, Í MR þegar ég var í Verzló, í hjúkrun og svo urðum við vinkonur á þessari öld þegar hún var ráðin inn í Lyfjaumboð I með mér og Jóni.

Ég er viss um að þrátt fyrir að við getum valið okkur vini þá eru alltaf einhverjir þarna úti sem eru ætlaðir okkur eða hafa kannski bara valið okkur!


Eiga mömmur veikindadaga?

Ég hafði orð á því í síðustu færslu að ég hefði verið smá slöpp á sunnudaginn. Jebb, það varir enn! Ég var ekki sú hressasta í gærmorgun en af því að ég gat stígið fram úr fannst mér ég alveg eins geta klætt mig í íþróttagallann. Nú svo af því að ég þurfti hvort eð er að fara á leikskólann með Elínu Eddu og fara til tannlæknis klukkan ellefu gat ég allt eins farið í ræktina. Enda Jóhanna heima og til í að gæta örverpisins. Eftir tiltölulega stutt hlaup á brettinu var mér farið að verkja hér og þar og slappleikinn að ná yfirhöndinni en þar sem var alveg klukkutími tannsa þá staulaðist ég á þrekstigann og silaðist þar í 20 mínútur áður en ég datt inn í sturtuna og fór á vit tannlækna! Þegar heim var komið var að sjálfsögðu enginn tími til veikinda en um hálf ellefu í gærkvöldi var hægt að slaka aðeins á. Ég hafði fulla trú á því að dagurinn í dag yrði svo miklu betri.

Ónei. Öskudagur byrjaði með eymslum í hálsi og vonlausum slappleika. En húsbóndinn dreif sig í vinnuna og því varð að koma þremur yngstu ungunum í búning og tilbehör. Það lá í augum uppi að ekki yrði þetta veikindadagur mömmunar svo ég fór í Sporthúsið með örverpið í gervi Tígra og frumburðinn í gervi unglingsdóttur. Ég reyndi að sína smá skynsemi og tók létta efripartsæfingu. Tók þó vel á bekkpressunni og niðurtoginu. Fékk símtal úr Smáralindinni þar sem ég átti norn á sælgætisveiðum. Reyndi að sækja hana en hún galdraði mig út í bíl án hennar Wizard. Nú er ég komin heim með sofandi örverpi og ungling sem ætlar að veita mér veikindaleyfi í um 2 klukkustundir eða meðan unginn sefur...... En þá tekur við akstur barna, leikskólapikkupp, eldamennska, þvottur og önnur húsmóðurstörf W00t enda er metnaður minn á þessu sviði alveg jafnsvakalegur og í ræktinni!

Til allrar hamingju er ég mjög frísk og lífsglöð kona og þarf afar sjaldan að nýta mér þessa ófáanlegu veikindadaga mæðra.


Alþjóðlegt unglingamót Hellis 2008

Um helgina fór fram alþjóðlegt unglingamót Hellis í húsnæði Skáksambandsins. Við mættum sprækar til leiks á föstudagsmorgni. Vigfús var búin að leggja á borð fyrir krakkana sem streymdu á skákstað ásamt níu erlendum keppendum. Einn dönsku keppendanna náði ekki flugi fyrir fyrstu umferðina og fékk því skottu. En í annarri umferð var Hildi Berglindi boðin þátttaka og tefldi hún á mótinu sem lifandi skotta! Jóhanna tefldi fyrst við Daða Ómars. Hún var með hvítt en náði sér ekki á strik og tapaði fyrstu umferð. Í annarri umferð paraðist Jóhanna með svart á móti Hildi Berglindi og varð sú skák býsna hressileg fyrir þær sakir að Jóhanna misreiknaði sig stórlega og hóf þessa skák örugg um að vinna systur sína. Það leið ekki á löngu þar til Hildur var komin með yfirburða stöðu og Jóhanna orðin frekar stressuð. Skákstjórar höfðu mikin áhuga á skákinni sem var vel tefld hjá þeirri yngri en Jóhanna gerði sér mun erfiðara fyrir. En Jóhanna veit hvernig Hildur teflir og hvernig hún hugsar. Lauk skákinni með sigri Jóhönnu, henni til mikils léttis! Í þriðju umferð tefldi Hildur við Gumma Lee sem heimaskítsmátaði hana í 9 leikjum. Hildur var nú ekki hress með það en viðurkenndi að hafa misreiknað sig svolítið. Jóhanna tefldi við Paul og lauk þeirri skák með jafntefli. Í fjórðu umferð tefldu systurnar við Dagana báða. Jóhanna gerði jafntefli við Dag Andra en Hildur tapaði fyrir Degi Kjartans. Í fimmtu umferð tefldi Hildur við "unglinginn Gest" sem var "gestur" frá Akureyri! tapaði! En Jóhanna átti frábæra skák gegn dananum Mads Hansen (1924 stig). Að lokum lét Jóhanna í minni pokann fyrir Bjarna Jens en Hildur átti prýðilega vel teflda skák gegn öðrum akureyring Mikael Jóhanni sem sat eldrauður í framan gegn litlu lifandi skottunni. Svo kom að því að litla lifandi skottan lék af sér og akureyringurinn náði sér á strik. Hann hafði orð á því eftir skákina hve lúmsk hún væri og þetta hefði verið erfið staða hjá honum en varð svo heppinn!

Í gær kom ég á skákstað eftir rennslið í Sporthúsinu og sá glorsoltin börnin mín narta í súkkulaðikökur. Áður en ég vissi af var ég búin að grilla samlokur ofan í haug af krökkum og byrjuð að baka vöfflur. Eftir tveggja tíma pásu mættum við Hjördís á staðinn og settum á 100 rjómabollur sem voru étnar með bestu lyst.

Jóhanna lauk þessu vel heppnaða og flotta móti Hellis með 50% vinningshlutfall eða 3 vinninga og hækkar um 25,5 stig sem er verulega gott. Hún er greinilega á góðu róli núna enda annað mótið í röð sem hún er að hækka töluvert á stigum. Skeljungsmótið gaf henni 33,8 stig.

Um næstu helgi eru svo tvö stúlknamót. Á laugardaginn er Íslandsmót grunnskólastúlknsveita og fer Salaskólim með 3-4 sveitir en þær systur skipa fyrsta og þriðja borð A-sveitar. Á sunnudaginn verður svo íslandsmót grunnskólastúlkna fæddar 1992 og síðar.


Að spýta blóði eða gefast upp?

Eftir að hafa sinnt veikum börnum í nokkra daga og setið yfir skákmót var komið að því að prufa rennslið í Þrekmeistaranum. Jebb! kl. 10 í gærmorgun skrölti ég inn í Sporthúsið, smá kvíðin en líka svolítið spennt. Hópurinn var saman komin í salnum og var þegar byrjaður tímatöku. Þar sem ég mætti nánast síðust þá mátti ég bíða um það bil klukkustund áður en kom að mér. Það var reyndar mjög gott þar sem ég gat fylgst með þessu vana fólki fara í gegnum þrautirnar og lært af því! Flestir í hópnum hafa keppt áður en þó er amk ein ásamt mér að fara í fyrsta skipti. Stelpurnar voru að keyra prógramið á 24 -29 mínútum sem mér finnst nokkuð gott. Það má reyndar taka það fram að við þurftum að hlaupa um salinn milli tækja sem þarf ekki að gera í sjálfri keppninni þar sem öll tækinn eru staðsett hlið við hlið. Meðan ég fylgdist með krökkunum keyra þetta svona súper vel þá fylltist ég svolitlum kvíða og varð eiginlega bara hrædd við þetta allt saman. Hugsaði meira að segja hvort ég væri biluð! Kannski ekki ný hugsun en átti svo sannarlega vel við í morgun.

Svo kom röðin að frú Eddu! Fyrsta æfingin var hjólið 1,5 km og svo strax á eftir róður 500 m. Gekk bæði nokkuð vel en fann þó fyrir mæði enda þolið einn veikasti hlekkurinn. Þriðja æfingin var niðurtog 25 kg x 50 og hlaupið þaðan beint í fótalyfturnar 60. Þegar þarna var komið var frúin orðin býsna móð og þreytt en tók samt armbeygjurnar með einni stuttri pásu. Svo voru það uppstigin og þá var verulega farið að halla undan fæti!!! Eftir 40 uppstig var mér allri lokið. Hugsanir farnar að ganga út á það að gefast upp, hvort ég væri geðveik að ætla mér þetta helvíti og svo framvegis. Svo leit ég í augun á stelpunum sem hvöttu mig með ráðum og dáðum. Pásan varð helst til löng en ég keyrði í gang aftur og klárað 100 ógeðsleg uppstig með blóðbragð í munninum og stutt í tárin. Þá voru aðeins þrjár æfingar eftir, hver annarri erfiðari en ég vissi að ef ég þraukaði magaæfinguna þe. uppseturnar þá myndi ég lifa þetta af. Ég tók fyrstu tuttugu magaæfingarnar alla leið en þó með öndina í hálsinum. Síðustu 40 voru lélegar og náðu fæstar þeirra upp að læri en með pásu náði ég þó að klára æfinguna og skreið nánast yfir salinn á hlaupabrettið sem var stillt í 10% halla sem heitir á íslenskri tungu brekkuhlaup! Þar voru 800 m sem biðu mín og ég átti ekkert eftir af orku né þoli. Ég drattaðist áfram á afar hægri stillingu fyrstu 300m svo smá jók ég ferðina og endaði í röskri göngu í stillingu 6,5. Ég er ekki viss hvort þessir 800m tóku 11 mínútur eða 13 mínútur en ég lauk þeim og þambaði úr brúsanum. Þá var bekkpressan ein eftir. Ég hef nú aldrei verið í vandræðum með þyngdirnar þar en þessi 25kg voru líkt og 300kg í þetta skiptið. Tók samt fyrstu 25 lyfturnar með sóma, pásaði aðeins og hristi armana (sem höfðu ekkert lengst við upplyfturnar með lóðum!) tók næstu 10, dróg andann og kláraði síðustu 5. Þar með var hringnum lokið á löngum 38,32 mínútum. En ég lifði og er svakalega ánægð að hafa klárað enda voru nokkur móment þar sem ég var við það að játa mig sigraða!

Í dag er ég reynslunni ríkari og veit hvað ég þarf að þjálfa betur. Það er fyrst og fremst þetta lélega þol sem hefur fylgt mér alla tíð. Kannski hef ég verið of góð við mig í gegnum árin - ég veit ekki! En ég veit þó að ég er með margfallt betra þol í dag en fyrir hálfu ári svo ég get verið stolt af því! Nú veit ég líka að ég á eitthvað til að stefna að og er viss um að ég get bætt mig svo um munar. Það er því draumur minn núna að ná niður í 30 mínútur í næsta rennsli.

Að lokum vil ég þakka stelpunum þennan frábæra stuðning meðan ég var að hamast. Ef þið hefðuð ekki verið þarna til að hvetja mig áfram hefði ég mögulega gefist upp. Já og Guðrún, þú náðir algjörlega til mín þarna á brettinu á lokasprettinum. Takk fyrir mig!

Það var nánast örgmagna frú Edda sem skrölti út í bíl og fór á skákstað þar sem við tók samlokugrillun og vöfflugerð!


Veik börn

Var komin í æfingargallann og byrjuð að koma stelpunum á fætur þegar sú næst yngsta sýndi lítil viðbrögð og sagðist vera þreytt. Elín Edda þreytt eftir klukkan átta að morgni er mjög óvenjulegt enda er það hún sem bíður í rúminu sínu þar til hún heyrir í vekjaraklukku foreldranna og veit þá að það er komin dagur! Unginn var hitalaus og mamman þráaðist við að gera allt tilbúið og koma hinum út úr húsi. Klukkan hálf níu varð ég þó að játa mig sigraða og sætta mig við að vera heima með veikt barn - aftur! Veit reyndar ekkert hvað er að henni. Hún er hitalaus, þreytt, "sorgmædd" í maganum - ekki svona úrill í maganum eins og þegar maður þarf að gubba, heldur bara "sorgmædd" í maganum! Nú þegar klukkan er orðin hálf ellefu ákvað  ég að fara úr æfingargallanum og í sómasamleg föt enda frekar ólíklegt að ég nái æfingu í dag. Á sunnudaginn stefni ég á að hitta þrekmeistarahóp Sporthússins þar sem á að fara yfir greinarnar eða taka eina generalprufu. Er reyndar býsna kvíðinn fyrir þessu því þau hafa öll tekið þátt áður og hljóta því að vera hrikalega öflug. Í kvöld fer ég reyndar og ætla að hitta hópinn. Það verður spennandi enda veitir mér ekkert af að fá góð ráð og kannski svolítið pepp Cool

Við hjónin ílengdumst fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi og enduðum á því að horfa á heilan Opruh þátt. Það gerist sjaldan hjá okkur báðum! Í gær ræddi hún um The Secret. Mjög áhugavert! Ég er reyndar komin vel inn í miðja bók og búin að horfa á myndina. Það var samt gaman að hlusta á fólkið í þættinum því það var að benda á þætti sem maður kannski meðtekur ekki strax. Ég fór strax að heimfæra hugsunarháttinn á mínar hugsanir og gildi. Fann að ég er að gera rétt með því að taka ákvörðun um að stefna á Þrekmeistarann. Í fyrsta lagi er þátttakan  eitthvað sem mig langar til að gera og þá kemur að því sem er í öðru lagi og sennilega eina leiðin til þess að ná árangri og það er að framkvæma! Nú er ég að framkvæma og geri ekki ráð fyrir öðru en að ná árangri Wizard

Annars er framundan frábær helgi og ekki síður annasöm. Alþjóðlegt meistaramót Hellis hefst á morgun kl. 10 og eru væntanlegir 10 erlendir unglingar til landsins á næsta sólarhring. Jóhanna Björg mun taka þátt í mótinu sem verður án efa spennandi og skemmtilegt enda nokkuð álíka sterkur hópur að keppa. Af 29 keppendum er Jóhanna nr 20 í styrkleika en fjölmargir keppendur eru með um og yfir 2000 stig. Jóhanna stóð sig mjög vel á Skeljungsmótinu og hækkaði töluvert þar á stigum sem koma fram á næsta stigalista. Nú er bara um að gera að standa sig vel á þessu móti líka.  Á þessari slóð er svo hægt að fylgjast með úrslitum jafnóðum og þau birtast:

http://chess-results.com/tnr9799.aspx?tnr=9799&art=0&lan=1&flag=30&datatyp=2&mm=-1&m=-1

 


Mánudagur til mæðu...

Mikið geta mánudagar verið ógeð erfiðir! Ég skreið inn í Sporthúsið rétt fyrir tíu í morgun, kom örverpinu fyrir hjá henni Freyju og fór á hlaupabrettið samkvæmt æfingaplaninu. Er byrjuð að hækka hallann smám saman en mikið sem lífið var erfitt þessar 10 mínútur! Næst var það 1km róður sem hafðist á nokkuð góðum tíma svo við Hildur viðskiptafræðimenntaði þjálfarinn minn vorum sáttar. Við tóku lóðin, svo sem bekkpressan og fleira. Gekk það allt ágætlega en einhver þreyta í frúnni. Sjálfsagt vegna þess að fröken Elín Edda taldi sig sjá fullt fullt af pöddum í rúminu sínu um fjögurleitið í nótt og var með þónokkuð vesen sem raskaði nætursvefni örverpisins líka Blush en kannski þarf ég líka að borða meiri morgunmat en ég er vön að gera núna þegar ég er að keyra á vöðvaþolið. AB mjólk með músli eða próteinshake er venjulegur morgunmatur hjá mér en svo líður alltaf um klukkustund þar til ég er komin á æfinguna. Verð greinilega að skoða þetta nánar. Annars er prógramið það langt að ég næ ekki alltaf að klára allar 10-11 æfingarnar á þeim rúma klukkutíma sem ég hef í salnum. Ég neyðist víst til þess að sækja barnið í barnagæsluna!! Verð þó trúlega að fara að fórna sturtutímanum og vera lengur í salnum ef ég á að ná þessu öllu saman fyrir miðjan apríl. Meira að segja armbeygjurnar 30 voru teknar með tveimur stuttum pásum í dag og uppseturnar töluvert erfiðari en fyrir helgina. En svona getur lífið verið!

Ég er ekki bara að byggja upp vöðvaþol þessa dagana heldur líka draslþol þar sem heilu skáparnir, frystikistan og ýmis útvistarfatnaður skreytir borðstofuna hjá mér þessa viku. Verið er að taka bílskúrinn í gegn, leggja í gólfið til að leiðrétta hallann og svo á að leggja epoxisteinsalla yfir allt bílskúrsgólfið svo maður geti spókaði sig um þar inni í sparifötunum! Ég hef líka verið að stinga upp á því við eiginmanninn að kannski væri sniðugt að koma upp smá æfingaraðstöðu þarna inni en áhuginn er akkurat engin enda er bílskúrinn heilagt athvarf eiginmanna - eða svo er mér sagt! Ég er viss um að margar konur þekkja það að þegar von er á gestum þá hafa eiginmennirnir gjarnan þá tilhneigingu að laga til í bílskúrnum Crying. Ég skil þetta vonandi þegar ég verð eldri...


Hildur Berglind Íslandsmeistari barna u-10 ára 2008

Íslandsmót barna u-10 Stúlkur 1. - 4. sætiIMG_6288Þessi laugardagur var helgaður skák eins og svo margir aðrir hjá Skjólsalafjölskyldunni. Við byrjuðum morgunin í Skákskóla Íslands þar sem var að hefjast nám á vorönn og Hildur Berglind verður í framhaldsflokknum næstu 10 vikurnar. Eftir æfinguna var svo brunað heim og börnin fóðruð og gerð tilbúin fyrir mót dagsins. Íslandsmót barna undir 10 ára fór fram í húsnæði Skáksambandsins og TR milli 13-18. Nýta þurfti báða salina þar sem fjöldinn fór langt fram úr væntingum enda rúmlega 100 krakkar undir 10 ára aldri sem hófu þar keppni. Telfdar voru 8 umferðir og umhugsunartími 15 mínútur á mann. Litlu stubbarnir mínir tveir, Elín Edda og Þórdís Agla voru á staðnum fyrstu tvær umferðirnar en svo kom pabbinn og bjargaði þeim og fór með þær í heimsóknir til ömmu og afa! Hildur Berglind var eini keppandinn úr okkar fjölskyldu en ég og Jóhanna Björg komum skákstjórn til aðstoðar og skráðum niðurstöður og héldum um pörun enda nóg að gera fyrir þrjá skákstjóra á jafnfjölmennu barnamóti. Krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel og má nefna að tveir leikskólastrákar fæddir 2002 tóku þátt í mótinu. Það kom líka skemmtilega á óvart hve margar stelpur tóku þátt.

Veitt voru verðlaun fyrir 1. - 3. sæti í heildina auk þess sem voru veitt sérstök stúlknaverðlaun (eins og hefur tíðkast í skákinni) fyrir 1. - 3. sæti. Einnig eru ávallt veitt verðlaun fyrir Íslandsmeistara í hverjum aldursflokki fyrir sig, þ.e. hvern árgang. Í fyrra vann Hildur sinn aldursflokk og í ár varð Hildur Íslandsmeistari stúlkna undir 10 ára með 5,5 vinning af 8 mögulegum. Þess má nú líka geta að annarri tapskákinni tefldi hún gegn Kristófer Gautasyni úr eyjum sem vann mótið! Hildur hefur annað tækifæri á Íslandsmeistaratitli stúlkna því sérstakt Íslandsmót stúlkna verður haldið 9. febrúar nk og mun sigurvegari í aldursflokknum 12 ára og yngri vinna sér inn rétt til þátttöku á norðurlandamóti stúlkna sem haldið verður í Osló sömu helgi og Þrekmeistarakeppnin verður haldin. Líklegt er að Jóhanna Björg muni fara til Osló en mikið væri nú gaman ef þær systurnar ættu báðar kost á að fara aftur saman í keppnisferð.


Hið óvænta í lífinu

Jebb það kom á óvart að Villi væri aftur að taka við borginni og það með Ólafi. Mér finnst samt mjög skrýtið hve vinstri menn eru hissa á þessu öllu saman. Léku þeir ekki nákvæmlega sama leikinn fyrir nokkrum mánuðum? Baktjaldamakk hefur alltaf fylgt pólitíkinni um mun ávallt gera. Upp úr því koma óvæntar uppákomur og það getur líka verið skemmtilegt. Dag hef ég þekkt síðan ég var í stúdentapólitíkinni hér um árið og áttum við fín samskipti þar enda um skemmtilegan karakter að ræða. Gísla Martein þekki ég af sama vettvangi en var líka á sama tíma og hann í Verzló hér um árið. Mér fannst lætin í Ráðhúsinu í hádeginu í dag vera dónaleg og þessum ungu stuðningsmönnum vinstri manna ekki til framdráttar. En hvað sem því líður þarf ég ekki að velta mér upp úr vanda Reykjavíkurborgar þar sem ég er Kópavogsmær með öllu og verð örugglega bæjarstjóri Kópavogs fyrr en varir Tounge. En þangað til ætla ég að vera mamma, hjúkka og síðast en ekki síst þrekmeistari!!!

Það kom mér líka á óvart í gær þegar ég fór 100 uppstig á of háan kassann með 5kg lóð í hvorri hendi. Þetta var ógeð erfitt en eftir æfinguna réði ég mér viðskiptafræðing sem þjálfara og klappstýru númer 1. Ég er ekki viss um að ég hefði klárað ef Hildur hefði ekki verið með mér! Svo tóku við uppseturnar ógurlegu og fór ég 30 stykki alla leið án hlésWizard. Ekki bara óvænt heldur líka kraftaverk. Ég gerði 70 æfingar með 2 stuttum hléum svo ég næði andanum og af þessum 70 voru 40 alveg réttar. Mér finnst ég færast nær einstaklingskeppninni með hverjum deginum sem líður. Það er ljóst að Hildur verður að fylgja mér alla leið og hver veit nema á endanum keppi hún bara líka. Elsku Hildur þú gerir þér án efa grein fyrir mikilvægi þínu í þessari þjálfun og að þú færð aðallega greitt með ást minni og umhyggju en það er einmitt sá gjaldmiðill sem ég nota á dæturnar fyrir létt heimilisstörf. En við munum áreiðanlega skála apríl í ísköldu kampavíni.

Það eru hins vegar fleiri óvæntir þættir í lífinu og það eru óvissuþættirnir eins og veikindi barna en ég er heima í dag með tvö veik millistykki. Á morgun hef ég þó pössun ef veikindin vara enn svo ég verð hreinlega að púla tvöfallt á hverri æfingu - ekki satt?

Fleiri óvæntir hlutir hafa átt sér stað sl. daga. Jóhanna Björg kom sjálfri sér skemmtilega á óvart þegar hún vann Helga Brynjars í 8. umferð Skeljungsmótsins í gær. Jóhanna sem er alltaf með svart þegar hún teflir við Helga satt og stúderaði vel og lengi fyrir umferðina því nú skildi tapvítahringurinn með Helga vera brotinn upp! Æfingin skapar meistarann - það fer sko ekki á milli mála. Og svo má síðast nefna að eftir rúmlega 5 ára búsetu í núverandi húsnæði hafa hjónin tekið sig til og sett upp handklæðaslár, gengið frá hurðarhúnum/læsingum og þess háttar! Já lífið getur endalaust komið á óvart!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband