Bekkpressan með bros á vör

Í morgun var tekið á því þótt fyrr hefði verið. Við Hildur mættum frekar seint í morgun og tókum mánudagsplanið sem samanstendur af hlaupum, róðri, hjóli og efri partsæfingum. Það má segja að salurinn hafi titrað svo mikill var hamagangurinn. Kannski hafði það smá áhrif að einnig var verið að smíða, bora, mála og hamra í Sporthúsinu enda er aðstaðan að verða betri og betri með hverjum deginum. Svo kom nú að bekkpressunni sem ég hef nú reyndar ekki gert lengi. Ekki er skynsamlegt að skella sér á bekkinn og kippa 20 kílóa stöng og sveifla henni upp og niður án þess að vita hvað maður er að gera. Þá var bara eitt að gera sem var að sjálfsögðu að grípa til daðurstækninnar Halo. Að þessu sinni fólst hún í því að ganga um lyftingarsalinn og brosa blítt í kringum sig. Fljótlega kom ég auga á stórann, sterkann og stæðilegan mann sem talaði ágæta íslensku. Spurði fyrst hvað stöngin væri þung og þar sem ekki stóð á svarinu kom næsta spurning alveg óhindruð! Ertu nokkuð til í að aðstoða mig, æ bara svo ég sé viss um að ég sé að gera rétt??? Áður en ég vissi af var þessi ágæti maður orðin bekkpressuþjálfarinn minn nr. 1.  Veit ekki lengur hvað ég gerði oft eða hve lengi en ég tók þungt og kláraði æfinguna og rúmlega það. Það sem meira er þá tók Hildur feykna vel á því líka enda þorðum við ekki annað en að segja já ok......

Þegar kom að armbeygjunum kom ungur maður til okkar og bauð fram aðstoð sína W00t og hver segir nei við því?  Ekki svo að skilja að við höfum verið eitthvað lúralegar við þetta. Hann vildi bara láta okkur vita að nú bjóði Sporthúsið upp á aðstoð í tækjasal á þriðjudags og miðvikudagsmorgnum. Kom sér líka svona vel því það var önnur æfing sem ég vildi gjarnan fá á hreint enda legg ég mikið upp úr því að gera allar æfingar réttar. Dead lift! Veit hvernig hún er en mikilvægt að gera rétt svo bakið verði ekki fyrir hnjaski. Ungi þjálfarinn fylltist áhuga þegar við drógum fram æfingarplanið og fannst án efa skemmtilegra að leiðbeina okkur skvísunum sem höfðu háleit markmið frekar en körlunum sem voru að dóla sér þarna á undan okkur! Við kvöddum þjálfarann sem tók af okkur loforð um að hittast aftur fljótlega og renna yfir fleiri æfingar með okkur mtt. hversu langt er hægt að gang t.d. í uppsetunum með að færa hnén á móti olnboganum!!! Sum sé tvöfallt óvænt deit í morgun. Ekki skal gleyma því að frú Edda endaði þessa þriðjudagsæfingu með 30 megaflottum armbeygjum. Það skal tekið fram að við taka nú skúringar og önnur heimilisþrif svo handleggjunum verður ekkert hlíft í dag. Ég þarf þó að eiga eitthvað eftir svo ég geti skipt um bleiu á Þórdísi án aðstoðar og síðast en ekki síst væri kostur ef ég gæti lyft pönnunni á eldavélina og eldað kvöldmat í kvöld!


Þrír mánuðir í Þrekmeistarann!!

Jæja þá er maður aftur komin í nánd við tölvuna eftir frábæra hjónahelgi án barna og alls áreitis.

Undirbúningur fyrir Þrekmeistarann er í fullum gangi þrátt fyrir að ég hafi ekki komist á æfingu í dag vegna veikinda barna. Elín hafði það af að koma sér upp hita og kvefi svo ekki komst hún í leikskólann og svo þurfti ég að skjótast í skólann eftir Hildi Berglindi þar sem hún hafði slasað sig á handlegg og hélt hjúkkan að hún væri kannski brotin. Hún er nú öll að koma til svo ég er bjartsýn á að komast á næstu æfingu í fyrramálið.

Nú er ég búin að ná hlaupinu ágætlega og er byrjuð að æfa í halla. Hlaup hafa ekki verið mitt uppáhald svo þetta er áskorun fyrir mig. Hjólið er líka komið í ágætis farveg og tekst mér að klára en er ansi aum í lærunum á eftir. Það eru helst uppstigið á kassann og uppseturnar sem enn eru ófullkláraðar svo ég þarf að vinna vel í þeim æfingum samhliða því að auka þolið. Flestar æfingarnar hafa verið frábært kikk og nýtt ég þess í botn að vera að gera eitthvað svona markvisst. Þessa helgi eru aðeins þrír mánuðir til stefnu svo það er eins gott að nota tímann vel og hamast eins og vitleysingur við hvert tækifærið.

Ég verð reyndar að viðurkenna að skákin hefur fengið frí síðan um miðja síðustu viku eða síðan við Hildur Berglind tókum eina góða hér á miðvikudagskvöldið sl. Það er nú ekki vegna þess að ég sé tapsár!! Nei, ég hef einfaldlega ekki átt tíma. Framundan eru mörg skemmtileg skákmót hjá krökkunum og má nefna Íslandsmót barna u-10 ára, sveitamót stúlkna og Alþjóðlega unglingamót Hellis sem verður í byrjun febrúar. Á Skeljungsmótinu er Jóhanna Björg að standa sig prýðilega vel og náði 1,5 vinning á 2 umferðum helgarinnar. Hún er nú með 4 vinninga af 7.


Thinker eða Doer?

Neibb! Það verður seint sagt um mig að ég sé svartsýn eða neikvæð og finnst sumum jafnvel að bjartsýni mín fari fram úr mjög góðu hófi oft á tíðum. En hvað með það? Væri ég það sem ég er í dag ef ég hefði efast? Hver veit...  Ég veit hins vegar að það er svo miklu auðveldara að lifa lífinu glaður og kátur, jákvæður og bjartsýnn með trú á sjálfan sig! Bölsýnisfólki leiðist ábyggilega mjög í kringum mig því ég hef þá tilhneigingu að verða "devils advocate" þegar það byrjar að kyrja vonleysi sitt. Það fer mér illa að vera meðvirk, hef reynsluna af því, svo ég reyni frekar að hvetja fólk með jákvæðri gagnrýni og hrósum. Ég er viss um að ég hef náð til margra þannig og mitt helsta markmið í uppeldinu er einmitt að höfða til hæfileikana og jákvæðra viðhorfa. Uppeldið er þó eilífðarverkefni sem aldrei líkur en með tíð og tíma mun ég sjá árangurinn.

Í dag er ég ákveðin!! Ég er framkvæmdarmanneskja en hugsa samt alltof mikið. Ég ætla að taka þátt. Í morgun tók ég fyrstu formlegu undirbúningsæfinguna fyrir Þrekmeistarann og hún var býsna erfið því ég keyrði mjög á hraðann og þar með þolið, bæði vöðvaþol og lungnaþol. Ég veit að ég mun ná árangri ef ég held mig við efnið svo það ætti ekkert að geta stöðvað mig svo lengi sem dæturnar eru sæmilega frískar. Ef eitthvað klikkar þá bara klikkar það en þegar ég set mér markmið - þá næ ég þeim! Jahh, nema kannski þetta með strákinn!


Í einstaklingskeppni eða liðakeppni?

Ég fór á blint stefnumót á laugardaginn við mikinn hjólagarp í Sporthúsinu. Hann vildi skera úr um hvort ég gæti gert uppseturnar góðu í Þrekmeistaranum eða alls ekki. Eftir að hafa elt Leif milli hinna ýmsu þrauta var komið að uppsetunum og JÁ ég neyðist til þess að viðurkenna það að ég hafði miklað þetta fyrir mér og hafði hreinar ranghugmyndir um þessa æfingu. Sumsé - tæknileg mistök!! Það vantar aðeins 5 cm upp á að ég geti gert þessa leiðindaræfingu rétta en það ætti að vera hægt að þjálfa upp!  Minn veikleiki fyrir þetta mót er nú fyrst og fremst þolið. Uppseturnar er sú styrkæfing sem ég þarf að leggja mesta áherslu á og svo hlaup, róður og hjólið. Svo nú lítur út fyrir að ekkert standi í vegi mínum til að taka þátt!

Hér má svo sjá þessa alræmdu æfingar í Þrekmeistaranum:

 http://www.fitness.is/gogn/trek/trekgreinar.pdf

Ég er samt með smá hnút í maganum því flestir eru að hræða mig á því hversu hrikalega erfitt þetta mót sé og ég þurfi að æfa miklu miklu meira! Hvar er hvatningin? Mig langar mjög mjög mikið að taka þátt og get vel hugsað mér að gera það með það markmið að leiðarljósi að komast í gegnum allar þrautirnar og ná að klára. Svo get ég bara tekið þetta á tímanum á næsta ári! Í morgun fórum við Kristján Jóns aðeins yfir þessar æfingar og ég held bara að hann hafi náð að sannfæra mig um eigin styrk. Nú er bara að taka sér þessa viku í mega púl og taka svo ákvörðun um næstu helgi eða hvað?


Komið og teflið við krakkana í Kringlunni

Á morgun laugardag mun Skákskóli Íslands standa fyrir hraðskák við gesti og gangandi í Kringlunni. Tilefnið er að kynna skólann og hvetja fleiri til þess að koma og nema þessa frábæru heilaleikfimi. Krakkarnir verða á svæðinu milli kl. 13 og 16, bæði stelpur og strákar frá 8 ára og upp úr!

Eldri helmingur dætra minna, eða þær tvær sem fæddust seint á síðustu öld, munu verða á staðnum og taka nokkrar bröndóttar við þá sem vilja/þora. Fyrir þá sem ekki þekkja dæturnar er önnur úr heimsmeistaraliði Salaskóla frá því í sumar og hin vann forsætisráðherra svo eftirminnilega í nóvember. Og erum við foreldrarnir hrikalega stolt og ánægð með stelpnahópinn okkar!

Skeljungsmótið heldur svo áfram í kvöld og verður tefld 3. umferð. Jóhanna sem var býsna lasin sl. miðvikudag og reyndar undanfarnar vikur, hefur ákveðið að halda áfram keppni þrátt fyrir misjafna daga í veikindunum. Við verðum bara að halda með henni og vonast til þess að henni fari nú að batna. Í kvöld teflir hún með hvítt á móti Ólafi Magnússyni.

Í gærkvöldi fékk ég svo áksorun um að mæta niður í Sporthús kl. 8:15 á laugardagsmorgun og sanna það ALVEG að ég geti ekki tekið uppseturnar í Þrekmeistaranum. Ég læt ekki segja mér það tvisvar og mæti að sjálfsögðu vongóð um það að hafa gert tæknileg mistök og geri bara æfingarnar eins og sannur meistari. Vona bara að hún Þórdís mín fari nú að sofa betur á nóttinni svo ég verði ekki alveg glær í fyrramálið Gasp

Annars ætla ég ekki að fara mörgum orðum um hvort varð fyrir valinu í gærkvöldi, Skákkverið eða Ju Jitsu. Það er skemmst frá því að segja að ég settist í sófann um níu og dormaði yfir sjónvarpinu og House/CSI þar til mér fannst komin tími til að skríða í rúmið....


Skákkverið

Á þriðjudagskvöldið setti ég upp hjá mér ICC og skráði mig inn. Eftir hvatningu frá Palla og leiðbeiningar frá Fúsa Hellisbúa var ég algjörlega til í slaginn þrátt fyrir langan dag og átök í Gerpluhúsinu. Skellti mér beint á bólakaf í djúpu laugina og ýtti á 15 mínútur. Strax kom inn áhugasamur skákmaður með 1687 ICC stig og til að gera stutta sögu mjög stutta þá var ég mát í 9 leikjum!!! Þegar ég var búin að jafna mig á því netta hláturskasti sem þessu fylgdi þá var ekki annað að gera en ýta á play again. Þetta er jú bara eins og að detta af hestbaki og skella sér á bak strax aftur. Í þetta sinn fékk ég andstæðing með tæp 1300 stig og lét hann hafa aðeins meira fyrir því að vinna mig. Nú þraukaði ég í 16 leiki áður en yfir lauk.

Í dag ákvað ég að halda áfram og tók á mig rögg því nú skildi ég þrauka lengur. Í þetta sinn var ég með svart á móti skákmanni með 1480 í 10 mínútna skák. Mér gekk alveg ágætlega gegn spænska leiknum en þegar ég var komin í smá vanda var ekki annað en að styðja sig við frumburðinn sem sat við sama borð að læra stærðfræði. Með smá leiðbeiningum tókst frúnni að vinna sínu fyrstu skák á netinu. Það er ljóst að börnin munu ekki aðstoða mig á mótinu svo ég verð bara að læra þetta sjálf og hef því dregið fram rykugt eintak af Skákkverinu og skákverkefnin sem Hildur Berglind fékk hjá Lenku og Omari í haust.

Miðað við komment frá eigin foreldrum þá sit ég nú og reyni að gera upp við mig hvort ég eigi að skella mér á aðra Ju Jitsu æfingu í kvöld eða takast á við skákþrautir. Þar sem þau hafa ekki trú á skákhæfileikum dótturinnar þá held ég að ég neyðist til þess að sanna mig á því sviði og reikna því frekar með að heilaleikfimin verði fyrir valinu. Nú rétt í þessu dettur mér í hug hvort hægt sé að vera með skáktölvu við þrekstigann í Sporthúsinu!!!

Jæja, kem börnunum í háttinn, tek úr þvottavélinni og tek svo ákvörðun um framhaldið....


Með stóran marblett á lærinu

Já nú er það svart! Ég fékk þá frábæru hugmynd fyrir langa langa löngu að ég þyrfti að vera jafnkvik og Bruce Lee, jafn liðug og Van Damme, jafn lagin og Jackie Chan eða bara svarta beltismeistari í Ju Jitsu. Í kvöld tók ég fyrsta skrefið.....

Eftir að hafa byrjað daginn í Sporthúsinu í 1,5 tíma brennslu og magaæfingum tók við húsmóðurhlutverkið, einkabílstjóraverkefnin, móðurhlutverkið og kokkaverkefnin og því ljóst að ég yrði að enda daginn á einhverju öðru en þvottinum yfir Amazing Race svo ég skellti mér í gallann og rölti niður í Gerplu þar sem ég lá á gluggunum þar til ég rak augun í tvo gaura sem voru að berjast! Eitthvað hefur það virkað að skella sér í bleikan hlýrabol og setja á sig maskara því þeir komu fljótlega auga á mig og buðu mér inn. Eftir smá tíma komst ég að því að annar heitir Jorge og kemur alla leið frá Spáni en hinn heitir Birgir og er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Báðir eru þeir bara nokkuð góðir í Ju Jitsu enda vafðir saman (þó hvor um sig) með svörtum beltum sem þeir hafa án efa unnið sér inn fyrir með því að leika þessar listir sínar fyrir framan grimma dómara. Þeir léku listir sínar fyrir mig um stund og buðu mér að taka þátt og þurfti nú ekki að segja mér það tvisvar, vippaði mér úr skóm og sokkum og hoppaði út á gólfið. Við hófum þessa allra fyrstu æfingu á grunnatriðum sjálfsvarnarlistar Ju Jitsu og mikið djö... var þetta gaman! Ég komst að því að ég á framtíð fyrir mér í þessu og get án efa fengið útrás á gólfinu í Gerpluhúsinu í hverri viku eftir erfiðar skákir (eða eitthvað annað). Fyrir einhver smá mistök fékk ég einn fót í lærið sem mun án efa orsaka risastóran marblett þar á morgun (sem er allt í lagi ef ég get gengið) en hvað sættir maður sig ekki við fyrir endorfínlosun! Það má líka vera að það læðist með einn og einn blár blettur á framhandlegg hægri handar en það skiptir heldur engu máli því ég mun læra að verjast 150kg hlunkum ef þeir á annað borð þora að áreita mig nokkurn tímann!!!

Þegar ég svo kom heim um tíuleytið var ég gripin af myndarlegum manni sem ég ákvað að berjast ekki við og dregin inn í bílskúr. Hefði kannski betur varist því eftir koss á kinnina var mér réttur klútur og sagt (reyndar beðin en það hljómar betur sem skipun) að þurrka bónið af nýju felgunum á fjölskyldubílinn. Hvað getur maður sagt annað en ekkert mál!


Tíu þrautir Þrekmeistarans!

Ég verð nú seint sökuð um þolinmæði og að hugsa áður en ég framkvæmi enda bæði fljót að hugsa og framkvæmdaglöð í óhófi! Eftir að hafa kynnt mér hverjar þessar 10 þrautir þrekmeistarans væru, komst ég strax að þeirri sorglegu niðurstöðu að ég mun ekki geta keppt sem einstaklingur. 9 þrautir eru mér fullfærar og get ég auðveldlega þjálfað mig upp í þeim sem ég er ekki sterk í nú þegar. Það er hins vegar þessi eina sem mun verða mín endanlega hindrun. Uppseturnar, með olnboga í hné! Ógerlegt fyrir konu sem hefur farið í fjóra keisaraskurði og eina kviðslitsaðgerð á sixpakkinu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir er mér ekki kleift að gera svo mikið sem eina slíka æfingu og hvað þá 60 í tímatöku. Ég get líklega gert allar aðrar magaæfingar upp á 10 enda með mjög sterka magavöðva utan þennan eina vankannt á hæfni minni.

Það er þó alls ekki öll von úti enn því það er líka hægt að fara í gegnum þrautina í 5 manna/kvenna liði og hef ég nú þegar farið af stað með leit eftir meðkeppendum og einhverjar strax sýnt áhuga. Það er meiri áhugi fyrir þessu en óskum mínum eftir skákþjálfun, kannski vegna þess að ég er betri að líkamsstyrk en skákfærni. En væri nú ekki gaman að sjá fjögurra stelpna móðir taka þátt á Stelpumóti Olís/Hellis í september næst komandi? Og fá amk. einn vinning (ekki skottuna)!! Mér finnst þetta frábært markmið og ætla að taka eina skák í dag...... ef einhver nennir að tefla við mig.


Verð ég skákkona í ár?

Í morgun þegar ég var að klára æfinguna í Sporthúsinu flaug mér í hug að það er ekkert merkilegt við það að dröslast á hverjum morgni, í hvaða veðri sem er með örverpið á annarri öxlinni og íþróttatöskuna á hinni, á æfingu jafnvel þótt ég sé dugleg að gera breytingar á æfingaprógraminu. Eftir stutt spjall við merka menn á svæðinu var ég búin að setja mér ný markmið og það nokkuð háleit!  Enda dugar ekkert hálfkák. Þrekmeistarinn verður haldinn í apríl næst komandi og þar eru 10 þrekæfingar sem þarf að klára í tímatöku. Okey! Er býsna góð í flestum þessum æfingum nema þá helst hlaupabrettinu og hjólinu. Styrkæfingarnar er ég með á tæru svo það verður ekki vandinn. Samhliða því að taka þátt í þrekmeistaranum verðandi 37 ára gömul þá ætla ég að minnka fituhlutfallið um 3-4 prósentustig og losna við nokkur kíló í leiðinni. Nú hef ég stigið skrefinu nær þátttökunni með því að opinbera markmiðin og verð því að sjálfsögðu að fá hvatningu allra.

Fyrst ég komst í íþróttaannálinn 2007 verð ég augljóslega að auka þátttöku mína í íþróttum 2008 svo ég eigi smá möguleika á að koma aftur í annálnum að ári liðnu! Orð Guðfríðar Lilju þess efnis að nú ætti ég sjálf að fara að tefla hafa legið í undirmeðvitundinni síðan þau voru sögð. Er nóg að secreta þetta eða verð ég ekki bara að fara að æfa? Hef reyndar ekki allann tímann í veröldinni fyrir skák fyrir sjálfa mig en væri nú kannski gaman að læra einhverja taktík og að leggja gildrur eins og Hildur Berglind orðar það svo skemmtilega. Er einhver þarna úti sem er til í að kenna ljóshærðri hjúkku að tefla eins og stórmeistari???


Í lok skákársins 2007

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er loksins komin tími til þess að setjast við skriftir að nýju! Ég hafði jú hugsað mér að skrifa á síðuna öðru hverju og fjalla um skákina og allt hitt sem er að gerast í lífinu.

Í desember stóð Hellir fyrir sínu árlega jólapakkamóti og verð ég að viðurkenna að þegar dagsetningin 22. desember varð fyrir valinu fékk ég hnút í magann þar sem ég gerði ráð fyrir að flestir væru orðnir í spreng með jólaundirbúning. Það var því ekkert annað en að spýta í lófana því ég reyndist þurfa að sinna hjúkrunarstörfum heimafyrir langt fram yfir miðjan mánuðinn. Jóhanna Björg steinlá í tyrkneskri matareitrun sem olli því að hún varð að leggjast inn á spítala í miðjum ófögnuðinum sem fylgdi því fékk hún streptókokkahálsbólgu sem lagðist á allann systrahópinn. Þar með var ég ráðinn í fullt starf sem hjúkrunarfræðingur og var með fasta lyfjagjafatíma þrisvar á dag fyrir fjögur börn! Þar sem Kaupþing hefur notið nærveru flestra vökustunda föðursins ársins 2007 varð því að skipuleggja jólaundirbúning af kostgæfni og var allt orðið tilbúið þegar Hjördís Hjörvarsmóðir mætti í Skjólsalina með tugi jólagjafa sem þurfti að pakka inn þann 21. desember. Vegna frábærra innpökkunarhæfileika okkar mæðranna tók aðeins 3 klukkustundir að pakka inn rúmlega 70 pökkum og það alveg ljómandi vel. Að sjálfsögðu náðum við að borða og slúðra inn á milli :) Að morgni jólapakkamóts var það föngulegur hópur Hellis manna og kvenna sem mætti í Ráðhúsið til undirbúnings og get ég staðfest að kvennahlutinn gaf ekkert eftir þegar kom að því að bera borð og stóla í salinn. Klukkan hálf eitt fóru börnin að streyma inn í salinn uppfull af spennu og eftirvæntingu enda stutt til jólanna og mótið því prýðileg afþreying til þess að stytta biðina.

Á annað hundrað börn tóku þátt og gekk allt snuðrulaust fyrir sig og allar áætlanir stóðust. Ég tók í fyrsta skipti þátt í móti sem aðstoðarkona skákstjóra í flokkinum 1997-8 og samkvæmt Róberti stóð ég mig ljómandi vel. Það fór þá ekki svo að ég lærði ekki eitthvað nytsamlegt í skákinni þetta ár. Það var mikil gleði og eftirvænting við verðlaunaafhendinguna og man ég varla eftir eins mikilli spennu á þessu móti eins og var þegar stóru vinningarnir voru dregnir út í lokin. Þess má líka geta að dæturnar tvær sem eru taflfærar stóðu sig með slíkri prýði að þær tóku báðar á móti 1. verðlaunum í sínum flokkum eins og þær hafa gert undanfarin ár. Hildur Berglind var að taka þátt í þriðja sinn og hefur í öll skiptin unnið fyrsta sæti. Þess má geta að hún vann 4/5 og tapaði einungis fyrir stráknum sem vann flokkinn. Jóhanna vann sinn flokk í heild af sinni einstöku snilli eins og mamman bjóst við af henni Wink.

Friðriksmótið fór fram sl. laugardag og var fjölmenni mætt til leiks í Landsbankanum. Þó nokkrir ungir ofurhugar öttu kappi við þá eldri og reyndari sem ávallt er þeim til styrks og hvatningar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er viðstödd allan tímann á svona "stórmeistara" móti. Lærifaðir minn í skákstjórn tók á móti mér með kossum en Hjördís benti mér á að Róbert kyssti allar fallegar konur í hvert sinn sem hann hittir þær. Það er fullkomlega sársaukalaust af minni hálfu enda alltaf gaman þegar maður fær athygli svona seint á fertugsaldrinum!! Það var því augljóst að ég varð líka að halda með honum á mótinu og þar með komnir amk 6 manns sem ég hélt með auk frumburðarins. Jóhanna Björg lauk mótinu með 5 góðum vinningum en ætlar að sjálfsögðu að gera enn betur á næsta ári. Elsa María stóð sig frábærlega og vann kvennaflokkinn með 7 vinningum sem hún getur svo sannarlega verið stolt af. Í mótinu var mér hins vegar réttilega bent á af forseta skáksambandsins að nú væri líklega komin tími til þess að ég færi sjálf að tefla þar sem ég er sjálfsagt viðstödd fleiri skákmót en flestir aðrir sem þarna voru. Ég held reyndar að ég þyrfti að taka einvígi um þann titil við Hjördísi Hjörvarsmóður því hún er einnig mjög virkur áhorfandi Smile

Það var svo í nótt sem gesti bar að garði og höfðu orð á því hve fjölskyldan hefði tekið sig vel út í annálnum. Ha!! Hvaða annál? Hváðum við öll í kór enda ekkert okkar gefið sér tíma til sjónvarpsgláps síðasta dag ársins. Jú Rúv hafði gert sér lítið fyrir og birt viðtalið við Hildi Berglindi og móðurina frá því í nóvember. Þrátt fyrir að það geti nú áreiðanlega talist heiður að ná í Íþróttaannál ársins 2007 þá kom það mér óneitanlega á óvart að þeir skildu skella inn viðtalinu við stoltu móðurina frekar en að nefna það í júlíhlutanum að Salaskóli hefði hampað heimsmeistaratitli í sumar! Já margt er nú skrýtið í kýrhausnum og ég náð í annálinn sem verður að teljast býsna kítlandi þar sem ég er lítið áhugasöm almennt um íþróttir og horfi aldrei á íþróttaþætti. Ekki svo að skilja að ég hafi eitthvað á móti þeim - alls ekki. Nenni bara ekki að horfa á karlmenn í stuttbuxum elta leðurtuðru og blóta! Líkamsræktin á hins vegar hug minn og stefni ég ótrauð áfram á enn betra líkamlegt form á nýju skákári 2008.

Ég vil þakka öllum fyrir ánægjulegt skákár, skemmtilega samveru og vonast til þess að við eigum enn betra ár framundan bæði í leik og starfi.

Með kveðju úr Skjólsölum
Edda


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Edda Sveinsdóttir

Höfundur

Edda Sveinsdóttir
Edda Sveinsdóttir

Ég er eiginkona og móðir fjögurra stelpna. Ég er líka hjúkka, kokkur, þvottakona, hreingerningarkona, barnapía, baðari og klæðari og síðast en ekki síst einkabílstjóri!

Hef leynda ástríðu af skák og stefni á glæsta framtíð þar sem og í líkamsræktinni

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • DSC01825
  • DSC01751
  • DSC01829
  • DSC01808
  • DSC01703

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband